16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það voru ummæli hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, sem féllu hér áðan, sem urðu til þess að ég bað aftur um orðið. Ég undrast ef hv. þm. skilur lög í landinu þannig að það séu aðeins ein lög sem gildi í sambandi við meðferð á landi, þ.e. skipulagslögin, og það beri ekki að taka tillit til almennra ákvæða í öðrum lögum, svo sem í náttúruverndarlögum. Ég er vissulega talsmaður valddreifingar og sjálfræðis landshluta og sveitarfélaga um eigin málefni, en þó ekki þannig að þau fái almennt alræðisvald um hvaðeina þó að eðlilegt sé að íbúar hafi öðrum fremur áhrif á sín heimamálefni. Til þess erum við að setja almenn lög í landi að tillit sé tekið til þeirra og þau gildi þrátt fyrir ákvæði ýmissa annarra laga, svo sem skipulagslaga, sem ég þó vitnaði til í mínu máli að hlytu að vera mjög ráðandi í sambandi við formlega meðferð þessa máls. Um það getur vart verið ágreiningur.

Ég vil auk þess benda hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni á það að Reykjavík hefur nokkra sérstöku meðal sveitarfélaga á Íslandi og það hefur raunar komið fram hér í umræðunni. Reykjavík er höfuðstaður landsins og skiptir því fólk um allt land meira máli en t.d. okkar heimabyggðir. Ég er ekki að segja að það liggi fyrir sérlög um Reykjavík, ég þekki ekki til þess, í sambandi við skipulagsmál eða annað, en það er eðlilegt að gerðar séu aðrar kröfur til höfuðstaðar landsins í sambandi við skipulag og meðferð mála sem því tengjast en til annarra sveitarfélaga í landinu. Ég held það væri út af fyrir sig athugunarvert fyrir þingið að ræða í fullri alvöru hvort það þurfi ekki að marka ákveðnari farveg varðandi málefni höfuðstaðarins miðað við allt það sem hér er sett niður og sem Reykjavíkurborg nýtur sem höfuðstaður landsins því það er ekkert lítið.

Hingað fara menn flestir viljugir til erinda en þó stundum nauðugir til þess að reka sín erindi, tengjast þessum stað þannig meira en öðrum sveitarfélögum á Íslandi. Það er eðlilegt að tekið sé tillit til þessa þegar verið er að ræða mál sem þessi, en við höfum sem betur fer almennar reglur sem vísað er til í þessari till.

Síðan vil ég aðeins taka undir þau orð, sem hér hafa fallið frá hv. þm. Páli Péturssyni fyrst í þessari umræðu, að þetta mál snertir Alþingi. Raunar kom það fram að ég hygg í máli hv. 8. þm. Reykv. einnig að þetta mál snertir Alþingi vegna nálægðar við þinghelgina hér, vegna nálægðar við athafnasvæði Alþingis sjálfs. Því finnst mér mjög eðlilegt að forsetar þingsins taki sérstaklega þetta mál til umræðu og greiði fyrir því að þessi tillaga fái skjóta afgreiðslu í þinginu.