16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

93. mál, sjávarútvegsskóli í Vestmannaeyjum

Flm. (Unnur Stefánsdóttir):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 97 sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðna Ágústssyni, Óla Þ. Guðbjartssyni, Margréti Frímannsdóttur og Egggert Haukdal. Till. er um sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á stofnun sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum.“

Stofnun sjávarútvegsskóla hefur alllengi verið til umræðu. Þann 1. jan. 1986 skipuðu sjútvrh. og menntmrh. starfshóp sem var ætlað það verkefni að gera tillögu um stofnun sjávarútvegsskóla sem starfi á framhaldsskólastigi og heyri undir menntmrn. Í áliti starfshópsins, sem lauk störfum nýlega, kemur fram að æskilegt sé að sameina að einhverju leyti þá þrjá skóla sem nú eru starfandi á þessu sviði, þ.e. Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólann í Reykjavík og Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Jafnframt kemur fram að bæta þurfi við nýjum námsbrautum, svo sem fiskeldisbraut og endurmenntunardeild. Hlutverk sjávarútvegsskólans yrði fyrst og fremst að fullnægja þörf sjávarútvegsgreina fyrir sérhæft starfsfólk og gæti einnig orðið leið nemenda til háskólanáms ef þeir vilja fara út í framhaldsnám.

Starfshópurinn telur að sjávarútvegsskóli sem ein stofnun verði sterkari eining en þrír minni skólar og þar af leiðandi betur búinn til þess að takast á við verkefni sín. Þá megi ætla að betur verði séð fyrir fjárfestingum til skólans njóti hann óskipts stuðnings allra hagsmunaaðila.

Eðlilegt væri að sjávarútvegsskólinn félli undir ákvæði væntanlegra framhaldsskólalaga. Þar til slík löggjöf tekur gildi getur hins vegar reynst nauðsynlegt að setja sérstök lög um skólann svo að framgangur málsins tefjist ekki um of.

Fyrir sjávarútveginn er afar brýnt að betri skipan komist á menntunarmál atvinnuvegarins þannig að alltaf sé kennt það sem nýjast er og hagkvæmast á sviði sjávarútvegs. Í nýjum sjávarútvegsskóla þyrfti auk náms í skipstjórnarfræðum og fiskvinnslu að koma til fiskeldisbraut, námskeið fyrir matsveina, endurmenntunardeild í öllum greinum er tengjast sjávarútvegi og annað er tengist útgerð og stjórnun. Tryggja þarf tengsl væntanlegs sjávarútvegsskóla við hið almenna skólakerfi svo og við hinar ýmsu greinar sjávarútvegsins.

Í tillögum starfshópsins, sem áður er vitnað til, er gert ráð fyrir að starfandi verði fræðsluráð sjávarútvegsins. Það verði faglegur tengiliður milli skólans og atvinnuvegarins. Hlutverk fræðsluráðs yrði að vera menntmrn. til ráðuneytis um mótun heildarstefnu og skipulags í sjávarútvegsfræðslu. Þetta tel ég að gæti orðið góð leið til að tryggja hagkvæmt skipulag skólans, samþættingu námsins og náin tengsl hans við atvinnugreinina.

Ljóst er að staðsetning sjávarútvegsskólans skiptir mjög miklu máli. Hann þarf að vera í nánum tengslum við atvinnugreinina sjálfa. Einnig þurfa nemendur og kennarar skólans að eiga greiðan aðgang að öllum greinum sjávarútvegsins.

Í Vestmannaeyjum er stærsta verstöð landsins eins og öllum er kunnugt. Þar starfa fyrirtæki í flestum greinum útgerðar, svo sem í fiskiðnaði, útflutningi, skipasmíðum, skipaviðgerðum og fyrirtæki sem framleiða og versla með útgerðarvörur. Nemendur skólans ættu því greiða leið að flestum þáttum hins lifandi starfs í sjávarútvegi. Vart er því völ á ákjósanlegri jarðvegi fyrir væntanlegan sjávarútvegsskóla.

Í Vestmannaeyjum er þegar nokkur grunnur á að byggja í þessu efni, en þar starfa nú stýrimannaskóli og vélskólabraut við framhaldsskólann þar. Horfur eru á því að skólahúsnæði losni á næstunni þegar viðbótarhúsnæði grunnskólans verður tekið í notkun.

Herra forseti. Ég hef rakið nokkra þætti sem nauðsynlegt er að hafa í huga við val á staðsetningu sjávarútvegsskóla Íslands. Þess má geta að atvinnumálanefnd Vestmannaeyja ályktaði á fundi sínum 9. júlí sl. að mæla með því við bæjarstjórn að hún beiti sér fyrir stofnun sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum. Því virðist ljóst að hinum nýja sjávarútvegsskóla yrði tekið tveimur höndum í Vestmannaeyjum, enda er þar margt fyrir hendi nú þegar sem auðveldar slíkt skólahald.

Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn láti hið fyrsta kanna möguleika á stofnun sjávarútvegsskóla í Vestmannaeyjum. Með því að ákveða staðsetningu skólans þar væri einnig stigið mikilvægt skref til jafnvægis í byggðamálum eins og fyrirheit er gefið um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.