16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

108. mál, opinber ferðamálastefna

Flm. (Unnur Stefánsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 112 sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, Guðna Ágústssyni, Kristínu Halldórsdóttur, Inga Birni Albertssyni, Salome Þorkelsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni. Tillagan er um mótun opinberrar ferðamálastefnu og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að vinna að mótun opinberrar ferðamálastefnu. Í því skyni verði hraðað störfum nefndar sem skipuð var í júní 1987 til þess að undirbúa slíka stefnumörkun.“

Ferðaþjónusta er mjög vaxandi atvinnugrein hér á landi. Á síðasta ári komu rúmlega 113 þúsund erlendir ferðamenn til landsins og hefur aukningin verið um 15% milli ára síðan 1980. Miðað við að þróunin verði svipuð fram til næstu aldamóta er gert ráð fyrir að erlendir ferðamenn verði þá orðnir um 400 þúsund á ári.

Þá hafa ferðalög Íslendinga innanlands aukist á síðustu árum, svo og ferðir Íslendinga til útlanda. Ljóst er að til þess að geta tekið við þessari gífurlegu aukningu ferðamanna þarf að verða mikil uppbygging á öllum sviðum ferðaþjónustunnar á allra næstu árum. Það er því orðið mjög brýnt að við Íslendingar mótum okkar ferðamálastefnu og lítum á ferðaiðnað sem raunverulega atvinnugrein. Þess má geta að á þessu ári er gert ráð fyrir að 5% af vinnuafli í landinu séu bundin við ferðaþjónustu og að laun og tengd gjöld við ferðaþjónustu nemi 7–8% af heildarlaunagreiðslum í landinu.

Gjaldeyristekjur Íslendinga af ferðamönnum hafa farið hraðvaxandi á undanförnum árum og námu á síðasta ári 4,6 milljörðum kr.

Að frumkvæði Ferðamálaráðs og með fjárstyrk frá Þróunarsjóði Sameinuðu þjóðanna var bandarískt fyrirtæki fengið til þess að vinna tillögur að ferðamálastefnu á árunum 1972–1975. Tillögur þessar hlutu ekki náð fyrir augum stjórnvalda. Í framhaldi af því starfi voru samþykkt lög um skipan ferðamála, nr. 68/1976. Þessi lög voru síðan endurskoðuð árið 1985.

Árið 1981 skipaði þáv. samgrh. nefnd til að gera úttekt á þjóðfélagslegu gildi íslenskrar ferðamannaþjónustu og spá um þróun hennar á næstu árum. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar Ferðamálaráðs, Framkvæmdastofnunar ríkisins og samgrn. Nefndin skilaði ítarlegri skýrslu í apríl 1983 þar sem m.a. eru gerðar tillögur um ákveðna ferðamálastefnu.

Í grg. þessarar nefndar kom fram að hún leit á skýrsluna sem áfanga í starfi sínu. Ljóst væri að einstakar tillögur hennar þyrfti að vinna í smáatriðum. Það verk taldi nefndin þó ekki ástæðu til að vinna fyrr en fyrir lægi „ákveðin viljayfirlýsing stjórnvalda um þá ferðamálastefnu, sem nefndin gerir tillögu um“, eins og segir í inngangsorðum skýrslunnar.

Vorið 1986 var síðan samþykkt á Alþingi ályktun þar sem samgrh. er falið að láta gera úttekt á aðstöðu til ferðaþjónustu á helstu ferðamannastöðum í einstökum landshlutum og gera áætlun um úrbætur á grundvelli þeirrar úttektar. Verk þetta skyldi unnið í samráði við ferðamálasamtök í landinu. Skýrsla ráðuneytisins var gefin út í mars sl. Þessi skýrsla er mjög gagnleg heimild um stöðu ferðamála í landinu, en áætlun um úrbætur hefur ekki enn verið gerð.

Í skýrslunni er m.a. birtur úrdráttur úr skýrslum ferðamálasamtaka í einstökum landshlutum um stöðu ferðamála og möguleika til frekari uppbyggingar. Segja má að áherslan á nauðsyn þess að móta opinbera ferðamálastefnu sé eins og rauður þráður í skýrslunum frá ferðamálasamtökunum. Það ber að hafa í huga að þar tala þeir sem eru í nánustum tengslum við hið lifandi starf og gleggst skil kunna á því hvar skórinn kreppir.

Hin mikla aukning, sem orðið hefur á ferðalögum í heiminum eftir síðari heimsstyrjöldina, hefur gert það að verkum að stjórnvöld hinna ýmsu landa hafa ekki komist hjá því að móta stefnu í ferðamálum, ekki síst hjá þeim þjóðum sem hafa verulega atvinnu og gjaldeyristekjur af útlendum ferðamönnum.

Ef gera á alvöru úr því að nýta í miklum mæli möguleika Íslands sem ferðamannalands og aðseturs fyrir alþjóðlegt ráðstefnuhald verður vart lengur undan því vikist að Alþingi móti skýrari stefnu í þessum málaflokki. Í skýrslu samgönguráðuneytisins frá því í mars og í skýrslu nefndarinnar frá 1983 eru fyrir hendi upplýsingar sem byggja má slíka stefnumörkun á.

Í ferðamálum þarf m.a. að marka stefnu varðandi stuðning hins opinbera við fjárfestingar á sviði ferðamála og skipulag slíkra fjárfestinga, fræðslumál atvinnugreinarinnar og kynningarmál. Einnig þarf að taka afstöðu til verndunar viðkvæmra landsvæða og annarra þátta er snerta umgengni um landið. Þá þarf að stuðla að æskilegri dreifingu ferðamanna um landið með því að opna nýjar ferðaleiðir og nýta ýmislegt sem ferðamenn hafa yfirleitt ekki aðgang að nú. Áherslu þarf að leggja á að lengja ferðamannatímann og auka ráðstefnuhald og afmarka þarf starfssvið Ferðaþjónustu bænda.

Eins og áður er að vikið er reiknað með mikilli fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi næstu árin. Til þess að hægt sé að taka við þessum aukna fjölda ferðamanna þarf að verða mikil uppbygging í ferðaþjónustu á öllum sviðum.

Mikil breyting hefur orðið til batnaðar í þessum efnum undanfarin ár, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Langflestir ferðamenn eiga fyrstu og síðustu viðdvöl í Reykjavík og nágrenni og er þessi mikla uppbygging þar því lykill að uppbyggingu sem verða þarf annars staðar á landinu.

Til þess að koma í veg fyrir örtröð á fjölsóttustu ferðastöðunum, svo sem í uppsveitum Árnessýslu og á Mývatnssvæðinu, þarf í auknum mæli að beina ferðamönnum til annarra landsvæða, sem sum hver hafa ekki síður aðdráttarafl en þau svæði sem nú eru fjölsóttust. Má þar nefna Borgarfjörð og Snæfellsnes, Breiðafjarðarsvæðið, Skaftafellssýslur, Vestmannaeyjar og Fljótsdalshérað. Stuðla þarf að uppbyggingu ferðaþjónustunnar á þessum svæðum og skapa með því skilyrði til bættrar nýtingar og lengingar á ferðamannatímanum.

Einn af kostum ferðaþjónustu er hversu atvinnuskapandi hún er. Mikilvægt er að hugað sé að menntunarmálum þess fólks sem vinnur við ferðaþjónustu. Þar má nefna nám í hótel- og veitingagreinum og menntun fólks sem annast móttöku, leiðsögn og skipulag ferðamála. Kanna þarf möguleika á því að fjölbrautaskólar landsins bjóði nemendum sínum nám í þessum greinum. Næsta haust mun Menntaskólinn í Kópavogi bjóða nemendum sínum nám í ýmsum greinum ferðaiðnaðar og á Kirkjubæjarklaustri er ráðgert að námsbraut í ferðaiðnaði verði tekin upp við framhaldsskóla þar næsta haust.

Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir atvinnugreinina að námsframboð og námsskipulag á þessu sviði verði samræmt fyrir landið allt sem fyrst. Þá þarf við mótun ferðamálastefnu að taka afstöðu til verndunar viðkvæmra landsvæða og annarra þátta er snerta umgengni um landið.

Í gildandi lögum um skipan ferðamála er gert ráð fyrir að 10%-gjald af vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík verði ráðstafað óskertu til ferðamála. Við þetta ákvæði laganna hefur ekki verið staðið. Ljóst er að gífurlegt fjármagn þarf til uppbyggingar ferðaþjónustu á næstu árum. Því þarf að leita nýrra leiða til þess að tryggja fjármagn, leiða sem full samstaða getur orðið um og tryggt er að verði staðið við.

Herra forseti. Ég hef í máli mínu leitast við að rökstyðja það hversu þýðingarmikið er að marka stefnu fyrir þessa ungu atvinnugrein og koma með því í veg fyrir mistök í skipulagi og fjárfestingum sem reynst gætu dýrkeypt.

Að lokum legg ég til, herra forseti, að þessari till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvmn.

Umræðu frestað.