17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Við þessa fyrstu umræðu um lánsfjárlög höfum við ekki í hyggju að koma með miklar athugasemdir eða langa ræðu því að þetta á eftir að fara sína leið í gegnum þingið og margt á eftir að koma fram sem ekki er rétt að fjalla um á þessu stigi umræðunnar.

Ég held að við getum þó tekið undir með hæstv. fjmrh. að markmið sem hann hefur sett sér eru ákaflega skynsamleg. Ég held að allir geti verið sammála um að draga beri úr erlendri skuldasöfnun ríkissjóðs og stefna að hallalausum fjárlögum. Það hlýtur að vera af hinu góða þó að við höfum okkar efasemdir að það muni ekki reynast eins auðvelt og hæstv. fjmrh. setur dæmið fram, bæði í fjárlögunum og þeirri lánsfjáráætlun sem hér liggur fyrir.

Það var annars mjög fróðlegt að hlýða á ræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann rakti syndir fyrri ríkisstjórna. Var það nánast hrollvekjandi að hlusta á hvernig fyrri ríkisstjórnir, allar ríkisstjórnir gömlu flokkanna, hafa haft ríkisfjármálin með þeim hætti — ja, ég veit ekki hvernig á að lýsa því — þetta virðist nánast hafa verið eitt allsherjar sukk. (Gripið fram í: Og einnig í fjármálaráðherratíð formanns Borgarafl.?) Í fjármálaráðherratíð formanns Borgarafl., Alberts Guðmundssonar, komst þó aðeins lag á ríkisfjármálin. Það var aðeins ljós í því myrkri sem hefur verið í ríkisfjármálunum yfir mjög langan tíma. Ég minnist þess að hann lagði fram fjárlög fyrir árið 1985 sem voru hallalaus en það þótti mönnum slæmt. Var þá skipt um fjmrh. en hann kom síðan með önnur fjárlög og niðurstaða þeirra varð mikill halli á ríkissjóði og þannig hefur verið alla tíð síðan.

Boðaðar leiðir til þess að ná hallalausum ríkisrekstri eru ákaflega vafasamar. Þær byggja fyrst og fremst á því að það eru skornar niður smáfjárveitingar til sjóða og ótal aðila sem eiga að fá fjárframlög úr ríkissjóði en látið hjá líða að ráðast á stóru liðina og þá fyrst og fremst heilbrigðisgeirann. Með 10% sparnaði í heilbrigðisgeiranum mætti jafna fjárlagahallann í einu höggi.

Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að fara að halda langa ræðu um lánsfjáráætlun á þessu stigi málsins. Mig langar til að koma með nokkrar athugasemdir varðandi tekjuhlið fjárlagafrv. Þar segir að sala spariskírteina sé áætluð 3 milljarðar á árinu 1988 og er þar raunverulega á bak við að ætlað er að leysa inn gömul spariskírteini fyrir 2,7 milljarða rúmlega, þ.e. eins og hæstv. fjmrh. gat um í ræðu sinni er ekki ætlað að ríkissjóður hafi tekjur af sölu spariskírteina umfram u.þ.b. 250 millj. Síðan er talað um aðra innlenda lánsfjáröflun að upphæð 1600 millj. kr. Það eru engar skýringar gefnar á þeirri lánsfjáröflun aðrar en þær að það er svona ýjað að því að lífeyrissjóðirnir muni þarna einnig koma til og hjálpa upp á fjármál ríkisins.

Ég spyr: Þegar ríkið ætlar að afla svo mikils fjár á innlendum lánamarkaði; hvað verður eiginlega um lánakerfið, þ.e. bankakerfið, og atvinnuvegina? Hvar á að vera til lánsfé handa atvinnurekstri landsmanna? Mér sýnist að ríkið hafi nánast þurrkað upp allt það lánsfé sem verður til reiðu á landinu á næsta ári þannig að atvinnurekstrinum verður þá bara væntanlega vísað — ja, ég veit ekki hvert — til stórfells samdráttar.

Þá er annað sem má lesa út úr þessu og það er einfaldlega, eins og kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv., að spurt er: Hvað verður um vextina þegar á að selja eða afla svona mikils lánsfjár á innlendum markaði meðan hér starfa verðbréfamarkaðir sem bjóða mönnum til kaups ýmiss konar bréf með háum vöxtum? Það er alveg ljóst að ríkissjóður verður að vera í samkeppni við þessa verðbréfamarkaði. Það er engin önnur lausn á þessu en að vextir hljóta að skrúfast upp úr öllu valdi. Þeir eru nú þegar orðnir um 9% af útlánum, 9% raunvextir umfram verðtryggingu. Með þeirri lánsfjáröflun á innlendum markaði sem hér er stefnt að er óhjákvæmilegt að vextir hljóta að hækka verulega frá því sem nú er. Ég bið bara guð að hjálpa atvinnurekstri landsmanna þegar raunvextir eru komnir vel yfir 10% eins og greinilega stefnir að með þeim áætlunum sem hér liggja fyrir.

Ég held ég láti þetta nægja í bili en mundi þó óska eftir að fá frekari skýringar á því hvernig fyrirhugað er að afla 1600 millj. kr. með annarri innlendri lánsfjáröflun.