17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur frammi til umræðu frv. til lánsfjárlaga og megináhersla þess er að það skuli mæta þeirri kröfu sem gerð er í fjárlögum, þ.e. að þau séu hallalaus og að lánsfjáröflun skuli að meginhluta til vera með innlendri lántöku. Heildarlántakan er áætluð um 20 milljarðar 250 millj. kr., erlend lántaka þar af 8 milljarðar og innlend lántaka 12 milljarðar 250 millj. kr.

Kvennalistinn hefur ævinlega lagt áherslu á það að hverfa frá erlendri lántöku og er í sjálfu sér fylgjandi því að beitt sé innlendri lánsfjáröflun. Hins vegar efumst við mjög um áhrif og árangur svo mikillar og skyndilegrar breytingar. Við óttumst það sem komið hefur fram í máli þeirra sem hér hafa áður talað að samkeppni um lánsfé verði svo mikil á innlendum lánsfjármarkaði að ríkissjóður standist ekki snúning því að stjórnvöld undanfarinna ára hafa dekrað við og hlúð að verðbréfamörkuðum, fjármögnunarleigum og öðrum fyrirbærum sem hafa frelsi en bera ekki ábyrgð eða skyldur og verður ekki stjórnað af ríkisvaldi en er að verða stærri og stærri þáttur af íslenskum peningamarkaði. Við þetta þarf nú soltinn ríkissjóður að keppa og stendur þar höllum fæti í raun. Það er mikill þrýstingur til að hækka vextina og þar með rekstrarkostnað fyrirtækja sem hefur bein áhrif í gegnum vöruverð og óbein áhrif með samdrætti og minnkuðum framkvæmdum á einstaklingana og heimilin. Til umhugsunar er að þegar gengi dollarsins lækkar er þrengt að með hækkun vaxta, en dollarinn er í raun veigamesta viðskiptamynt okkar og þar með getur orðið um lækkun tekna þeirra útflutningsgreina að ræða sem selja í dollar.

Iðnríkin keppast nú um að lækka vexti í löndum sínum til að styrkja hlutabréfamarkaði og efla nýsköpun og hagvöxt. Þessi ríkisstjórn leggur hins vegar stjarfa hönd á möguleika til hagvaxtar og stuðlar e.t.v. í raun að samdrætti og kreppu því þó að þensla hafi verið mikil sl. sumar og fram á haust eru reyndar öll merki þess að alvarlega muni draga saman í vetur og að á næsta ári, jafnvel strax í upphafi árs, þurfi síst af öllu að draga úr þenslu. Þess vegna má segja að e.t.v. eru þessar aðgerðir ekki í takt við tímann, þ.e. í takt við þá framtíð sem við komum til með að horfast í augu við á næsta ári, jafnvel þótt þær kunni að hafa átt við í sumar þegar grundvöllur var lagður að þessum plöggum.

Það má minna á að í raun kom þenslan heldur alls ekki um allt land og þess vegna munu þær aðgerðir sem miða að því að draga úr þenslu bitna mjög harkalega á þeim stöðum þar sem engin þensla varð og við erum hér ekki að ræða um nein smásvæði heldur í raun meiri hluta landsbyggðarinnar og dreifbýlisins því að eins og allir hv. þm. vita þá varð þenslan fyrst og fremst á suðvesturhorninu. Og það getur orðið að árangurinn af sölu ríkisskuldabréfanna verði fremur hækkun vaxta á almennum markaði en aukin sala þegar kemur að því að keppa við aðra fjármagnsaðila.

Við skulum hyggja að því hve líklegt er að þetta plagg standist. Ef við berum það saman við svipað plagg síðasta árs, þ.e. frv. til lánsfjárlaga, átti áætlunin þar um erlend langtímalán fyrir árið 1987 að vera 8 millj. 215 þús. en varð í raun 12 millj. 440 þús., þ.e. hækkunin varð um 4 millj. 225 þús. eða um rúm 51% af upphaflegu áætluninni. Halda menn að frekar sé að marka þessa áætlun sem hér er fjallað um með tilliti til þeirra breytilegu aðstæðna sem við horfumst í augu við? Og hvað verður með sveitarfélögin? Hvað verður með þann þrýsting sem nú er á sveitarfélögin til þess að taka við auknum framkvæmdum og það á eigin kostnað? Munu ekki aukast kröfur um lántökur frá sveitarfélögum ef þau eiga að fara að standa á eigin fótum og ekki er reynt að gera upp skuldirnar við þau? Og hvað verður með lántökur einkaaðilanna í þjóðfélaginu, því við skulum ekki gleyma því að einkaneyslan vegur sem gildir 2/3 af þjóðarútgjöldunum og hún skiptir auðvitað langmestu máli? Og bara til að minna hv. þm. á er einkaneyslan metin á rúmar 2 millj. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári, 2,2 millj., og hún er frekar vanáætluð en ofáætluð og þessi tala, upp á 2,2 millj. kr. einkaneyslu á hverja fjögurra manna fjölskyldu, er í raun betra dæmi um ójöfnuðinn í landinu en nokkuð annað því að hv. þm. geta ímyndað sér hve tölurnar þurfa að vera háar sem hífa meðaltalið svona hátt upp og það gefur einmitt hugmynd um hve mikil einkaneyslan er.

Það eru líkur á því að vegna lækkandi vaxta erlendis og lækkandi gengis dollars verði í raun lægri kostnaður af erlendum lánum og jafnvel hagstæðara hlutfall erlendra lána af þjóðartekjum en verið hefur. En í fyrsta lagi vantar í þessu plaggi algjörlega mat á veigamiklum þáttum peningamarkaðarins þar sem eru bankar og verðbréfamarkaðurinn, en það hefur áður komið fram að hann er í raun stjórnlaus og dregur til sín í vaxandi mæli fé landsmanna. Forsendur um peningamarkað eru því óraunhæfar og hvað verðbólguáætlanir varðar tel ég að sú áætlun að ríkja muni 10% verðbólga frá upphafi til loka ársins 1988 sé mjög óraunsæ og það má benda á að spár ætla að verðbólga snemma á næsta ári verði a.m.k. 18%. Einnig má benda á það að verðbólga á þessu ári hefur verið um 25% að meðaltali og var reyndar um 30% sl. þrjá mánuði. Þarna eru áhrif hárra vaxta mjög verðbólguhvetjandi og stýrandi. Þau eru reyndar eins og falinn eldur í efnahagskerfinu. Neysluskattar, auk hækkaðra vaxta, munu einnig auka framfærslukostnaðinn og í raun er ríkisstjórnin að vega að sínum eigin markmiðum með því að setja á hærri neysluskatta. Hún eykur þannig framfærslukostnaðinn talsvert meira en nú er og enn meira ef hún í raun ætlar að koma þeim á og samræma allan söluskatt um næstu áramót. Líka má nefna nýja kjarasamninga og óhjákvæmilega endurskoðun samninga við BSRB því að þeir eru bundnir til loka næsta árs og þeir munu einnig gera þessar forsendur mjög ólíklegar.

Kvennalistinn vildi sannarlega fara aðrar leiðir til þess að afla aukinna tekna í ríkissjóð en þær sem hér eru boðnar því að það er ekki rétt að gagnrýna án þess að benda á einhverjar aðrar leiðir. Við höfum ævinlega viljað afla teknanna þar sem þær eru mestar fyrir. Við höfum viljað skattleggja vaxtatekjur, við höfum viljað hækka skatta á stóreignir, skattleggja hæstu tekjur umfram aðrar og sækja féð til fyrirtækjanna einkum þar sem best hefur verið hlúð að og mest hefur verið fjárfest í verslun og viðskiptum. Þessir aðilar greiða óeðlilega lítið til samfélagins. Framar öllu höfum við viljað gera stórátak til að ná inn umtalsverðum hluta af þeim 46 milljörðum sem áætlað er að skotið sé fram hjá skatti og stýrt reyndar beint inn í þá einkaneyslu sem ég nefndi áðan og fjárfestingu. Þetta hlýtur að hræra jafnaðarhjarta hæstv. fjmrh. því að ég man eftir honum tala þessi sömu orð þó að ekki væri í þessum stóli. (Fjmrh.: Spurningin er hvernig, hv. þm.?) Það eru ýmsar leiðir til og við kunnum að fara ítarlega út í þær við aðra umræðu þessa máls því að ég vildi einungis reifa nokkur aðalatriði úr þessum stól við fyrstu umræðu.

Hins vegar kemst ég ekki hjá því að minnast lítillega á nokkur atriði sem reyndar geta ekki skrifast á reikning hæstv. núv. fjmrh. Það eru atriði sem hafa fengið forgang á undanförnum árum og bara til að nefna eitt nefni ég Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er slík munnfylli að heilan þingtíma þyrfti til að ræða. Ég bendi bara á það sem stendur á bls. 13 í þessu frv. þar sem beðið er um 820 millj. kr. til flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli vegna umframeyðslu. Og ekki nóg með það, önnur innlend fjáröflun til sama fyrirtækis er 680 millj. kr. Þetta mun láta nærri 11/2 milljarði. Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur beðið um skýrslu um þetta mál. Það hafa einnig þm. Kvennalista, Borgaraflokks og Alþb. gert og þá reyndar utanrrh. um útgjöld og kostnað vegna þessarar byggingar. Hún er kannski eitt besta dæmið um kolranga forgangsröð í þessu þjóðfélagi.

Það er annað atriði sem ég vildi nefna líka sem varðar forgangsröð og það snertir reyndar þá stefnu sem taka á í sjóðum atvinnuveganna og mér þykir ískyggileg. Það er sú stefna að þeir eigi að standa á eigin fótum og spjara sig. Í þeim tilgangi eru t.d. skornar niður fjárveitingar til Iðnlánasjóðs en það virðist ekki vera gert með samþykki iðnrh. því ef ég má vitna í umræður á þingi, sem birtar voru í Morgunblaðinu nú nýlega en eru ekki enn prentaðar í þingtíðindum, með leyfi forseta, kemur fram í svari hæstv. iðnrh. við fsp. frá Maríu Ingvadóttur um lánasjóði iðnaðarins, þar sem hún spyr hvort vænta megi frv. um breytingar á lögunum um Iðnlánasjóð og hvernig fyrirhugað sé að bregðast við tekjumissi sjóðsins frá næstu áramótum og þar til lögin verði endurskoðuð, að lögbundið framlag ríkissjóðs til vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs væri alveg fellt niður í fjárlagafrv. en það væri 25 millj. kr. í ár og ætti að vera um 48 millj. kr. ef lögum væri fylgt. Í athugasemdum með fjárlagafrv. segði m.a.:

Ætlan stjórnvalda er að fella niður sem mest af lögbundnum framlögum og tekjustofnum og í samræmi við það verður stefnt að breytingum á lögum um Iðnlánasjóð.

Iðnrh. sagði þetta orðalag vera frá fjmrh. og hefði það ekki verið sérstaklega borið undir hann. Framlag það sem verið væri að fella niður að fullu rynni til vöruþróunar- og markaðsdeildar en ekki til fjárfestinga eins og margir virtust telja. Tilgangur þeirrar deildar væri að stuðla að vöruþróun og aukinni samkeppnishæfni iðnaðarins, örva nýsköpun og auka útflutning. Þetta framlag væri nánast eina opinbera framlagið til nýsköpunar og þróunar í iðnaði. Niðurfelling þess í einu lagi væri mjög tilfinnanleg fyrir fjárhag sjóðsins og tiltölulega mun meiri skerðing en tíðkast á framlögum til annarra atvinnugreina, svo sem sjávarútvegs og landbúnaðar. Í lögum um Iðnlánasjóð væru ákvæði þess efnis að endurskoða ætti ýmis ákvæði, þar á meðal ákvæði um framlög ríkissjóðs fyrir lok ársins 1988. Iðnrh. sagðist af þessu tilefni hafa beint því til stjórnar Iðnlánasjóðs að hefja endurskoðun laganna í ljósi fenginnar reynslu. Tillögur um breytingar mundu væntanlega verða lagðar fyrir Alþingi eftir áramót.

Varðandi síðari lið fsp. sagði iðnrh. að ef framlag ríkisins yrði alveg fellt niður mundi það þýða 30% samdrátt á ráðstöfunarfé sjóðsins frá því sem væri á þessu ári. Það mundi leiða til þess að draga þyrfti úr stuðningi við ýmis aðkallandi verkefni er sjóðurinn hefði styrkt. Hann hefði því tekið þetta mál upp við fjvn. og lagt til að framlag ríkisins á næsta ári yrði a.m.k. hliðstæð upphæð og væri á þessu ári. Mál þessi yrðu síðan endurmetin fyrir árslok 1988 eins og lögin um Iðnlánasjóðinn gerðu ráð fyrir.

Hæstv. iðnrh. ætlast því til þess að Alþingi lagi fyrir hann það sem fjmrh. sker niður og fjmrh. virðist ekki hafa talað við iðnrh. um þetta mál. Og ég vek athygli á því að rannsóknasjóður Rannsóknaráðs hefur fengið í það minnsta helmingi fleiri umsóknir á hverju ári en hann hefur getað sinnt. Margar þessar umsóknir eiga heima á sviði iðnaðar. Þær fjalla um nýjungar í tækni og nýsköpun í iðnaði. Sjóðurinn hefur einungis haft til umráða um 50 millj. kr., sem var reyndar fjölgað við síðustu fjárlög upp í tæpar 70, og hefur því ekki getað sinnt öllum þessum beiðnum og mörgum þeirra hefur einmitt verið vísað til Iðnlánasjóðs.

Það vita allir að forsendur efnahagsstefnu framtíðarinnar liggja í tækni og nýsköpun og tækni og nýsköpun hvílir vitanlega á menntun og vísindum. Þar þarf að fjárfesta en ekki að skera niður. Þess vegna undrar mig forgangsröðunin ef þessum sjóðum, sem í raun bera ábyrgð og skyldur, er ekki veitt það frelsi og það fjármagn til að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum sem því opinbera ber skylda til að styðja. Mér finnst þetta óhugnanleg þróun.

Í annan stað vil ég nefna lítillega Fiskimálasjóð því að hann er þarna nefndur líka og mig langar til þess að vitna til ályktunar sem samþykkt var á 60. fundi Rannsóknaráðs ríkisins sem haldinn var á þessu ári. Það kann að vera að hæstv. fjmrh. hafi ekki borist þessi ályktun og þá langar mig til að lesa hana fyrir hann en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Rannsóknaráð ríkisins ályktar á 60. fundi sínum 29. júní 1987 að leggja til við ríkisstjórnina að á næstu þrem árum verði varið 60 millj. kr. á ári af opinberri hálfu til aðstoðar við tækniþróun í fiskvinnslu. Leggur ráðið til að helmingi þessa fjár verði veitt í Rannsóknasjóð til að styðja rannsókna- og þróunarverkefni eftir umsóknum sem metnar verða á faglegum forsendum. Áhersla yrði lögð á samvinnu milli fyrirtækja og stofnana um verkefnin. Lagt er til að hinum helmingnum verði veitt í Fiskimálasjóð sem misst hefur tekjustofn sinn en þyrfti að geta veitt fyrirtækjum áhættulán eða styrki til vöruþróunar, vinnslutilrauna og markaðsaðgerða í tengslum við vinnslunýjungar. Reiknað er með að á móti þessum opinbera stuðningi komi eigið fé fyrirtækja og framtalsfé frá fjármagnsfyrirtækjum sem nemur a.m.k. 120 millj. á ári.“

Ég legg mikla áherslu á það, án þess að ég lesi frekari tilvitnanir eða ræði þetta mál í meiri smáatriðum, að þarna er afskaplega röng stefna á ferðinni að mínu mati. Það þarf að styrkja bæði undirstöðuatvinnugreinar okkar og alla nýsköpun á sviði iðnaðar til þess að við getum orðið samkeppnisfær í framtíðinni. Það þýðir ekki að fleygja þessu út á hinn svokallaða frjálsa markað og ætlað því að spjara sig eða deyja. Það gengur ekki.

Mig langar enn að vitna í framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs ríkisins þar sem segir: „Atvinnuvegasjóðirnir eins og Framleiðnisjóður landbúnaðarins og markaðs- og vöruþróunardeild Iðnlánasjóðs eiga fyrst og fremst að styrkja þróunarverkefni og umbótastarf innan einstakra fyrirtækja.

Þeir eiga að greina og byggja mat sitt á hagkvæmni og líkindum fyrir meiri og/eða betri framleiðslu eða sterkari samkeppnisaðstöðu. Í því sambandi vil ég sérstaklega benda á að sjávarútvegurinn stendur nú höllum fæti eftir að Fiskimálasjóður var lagður niður í þeirri miklu sjóðarassíu sem gerð var á síðasta ári. Ekki eru horfur á því að Fiskveiðasjóður taki við þessu hlutverki því að hann veitir hvorki lán eða styrki til þróunar- eða markaðsverkefna í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er því afskiptur að þessu leyti þótt þar sé nú mikil þörf og áhugi á nýsköpun. Úr þessu þyrfti að bæta.“

Ég ætla ekki að orðlengja mjög um þetta frv. til lánsfjárlaga nú. Það væru mörg önnur dæmi sem ég vildi taka, en það er ekki meiningin að ræða ítarlega einstök dæmi við 1. umr. Hins vegar ítreka ég enn að ég efast um að niðurstöður og áætlanir í þessu plaggi muni standast vegna þess að forsendurnar sem það er byggt á eru mjög óvissar. Það eru margir þættir sem ekki eru teknir inn í við athugun málsins og erfitt er að spá um. Það er því mjög mikilvægt að þetta mál fái ítarlega umfjöllun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Þar á Kvennalistinn ekki fulltrúa og því vil ég fara fram á að við fáum áheyrnarfulltrúa í nefndinni þegar umfjöllun þessa máls verður nú á næstu dögum.

Ég hef lokið máli mínu.