17.11.1987
Neðri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

42. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það vekur nokkra athygli að af fjórum flm. er aðeins einn viðstaddur, tveir viðstaddir (Gripið fram í: Þrír.). Þeim hefur fjölgað. Þeim hefur fjölgað, það eru þrír viðstaddir. Aðeins 1. flm. er fjarstaddur. (Iðnrh.: Enda er hann varamaður en aðalmaður er mættur í hans stað og styður frv.) (Gripið fram í: Þá eru þeir fjórir.) Það er upplýst og væri ráð fyrir hv. skrifara að bóka það strax (Forseti: Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn að gefa hljóð.) að hæstv. iðnrh. styður frv.

Þá erum við komin að því sem gert er að aðalatriði í frv., að þetta sé atvinnuvegur sem verði til blessunar fyrir land og lýð. Það er gert ráð fyrir að ríkið fái meiri tekjur, íslenskur almenningur fái atvinnu og það verði að sjálfsögðu betra þjóðfélag eftir að bjórinn hefur verið innleiddur. Það er nú svo.

Ég vil geta þess að ég hlustaði á mjög góða ræðu sem hv. 5. þm. Vesturl. flutti um íþróttamál og nauðsyn þess að æska vors lands hefði holla iðju. Ég efa ekki að það er líka nauðsyn að æska annarra landa hafi holla iðju. Þess vegna bið ég hann að bregða sér með mér í stutta ferð til Bretlands og huga að því hvað gerðist þegar áhangendur eins knattspyrnuliðs héldu yfir Ermarsund til þess að fylgja sínu liði eftir til sigurs.

Það gerðust alvarlegir hlutir og það vakti athygli ekki alls fyrir löngu að forsætisráðherra Bretlands skipaði að það bæri að framselja þessa menn til dómstóla í Evrópu. En Bretar gerðu meira. Þeir lokuðu bjórkrám í nágrenni við knattspyrnuvelli á vissum svæðum. Allt þetta vona ég að sá ágæti ungi maður, sem skrifaði upp á þetta frv., hafi hugleitt því að ég efaði það ekki eftir að hafa hlustað á hans ræðu um íþróttamál að það væri í góðri meiningu sem hann lagði þar heilbrigðu lífi lið.

Ég ætla heldur ekki að leggja honum til neinar annarlegar hvatir þegar hann skrifar upp á þetta frv. Hins vegar er spurning hvort hann seinna sem fullorðinn maður — segjum að frv. verði samþykkt — horfir yfir liðinn veg og skynjar að það hafi verið með stærstu glappaskotum síns lífs að skrifa upp á. Þá verður ekki nóg að hugsa sem svo: Öllum getur yfirsést. Það er nefnilega í fullu gildi það sama og gerðist við Waterloo og Napóleon endurtók alla sína ævi eftir að hann hafði tapað: „Bara að ég fengi að gera þetta aftur.“ Hann fékk bara einu sinni að stýra liðinu til sigurs eða taps í þeirri orrustu þrátt fyrir óskir um að mega gera það aftur.

Hv. næstaftasti flm. þessa frv. er ekki beint þekktur fyrir rökhyggju og verður að fyrirgefast mikið. Það er og í samræmi við Biblíuna og hennar boðskap. Ég ætla ekki að fara með þessa umræðu niður á það tilfinningasvið.

Svo kemur að ungum manni sem var aðstoðarmaður fjmrh., hv. 17. þm. Reykv. Ég vona að hann misvirði það ekki við mig að ég ætlast bæði til rökhyggju af honum og eins hins að hann stundi ekki neinar sjálfsblekkingar eða geri tilraunir til að blekkja aðra hér í þingsalnum. Hann vill halda því fram að drykkjuskapur muni ekki aukast, en engu að síður muni ríkið fá auknar tekjur. Hvernig gengur þetta upp, hv. 17. þm. Reykv.? Það er ekki trúlegt að menn fari að leggja hærri skatt á hvert magn af hreinu alkóhóli í bjór en í sterkum drykkjum. Ef eitthvað væri mundu menn leggja hærri skatt á ákveðið magn af alkóhóli í sterkum drykkjum en í veikum. Hvernig fær það þá staðist stærðfræðilega rökhyggju að drykkjan aukist ekki en tekjur ríkissjóðs verði meiri? Ef menn eru að láta að því liggja að þetta byggist á því að það sé svo miklu smyglað af bjór til landsins eða að það sé svo mikið af bjór flutt með löglegum leiðum og að þetta magn komi þess vegna til neyslu er nauðsyn að víkja að því að menn hafa rétt til að taka sinn skammt í Fríhöfninni einnig af sterkum drykkjum. Það er ekkert sem bendir til þess að menn muni ekki eftir sem áður halda öllum sínum heimildum til sama innflutnings til landsins í gegnum Fríhöfnina eða sem starfsmenn á farþegaskipum eða flutningaskipum. Menn munu halda sínum rétti til að taka inn í landið ákveðið magn af áfengi. Ef það verður ekki bjór verður það meira magn af öðru. Það eru þess vegna engin rök fyrir því að ríkið fái meiri skatttekjur vegna hins löglega innflutnings eins og hann er í dag.

Þá er komið að hinu: Halda menn að það dragi úr smygli? Hver trúir því? Ætli það verði ekki svipað ástand og verið hefur? Og eitt er víst, að ef eitthvað gerist í þessari þróun verður þetta heldur til að auka brugg en til að draga úr því. Það er nú einu sinni svo að mönnum þykir það dálítið hart, þeim sem drekka, að sitja uppi með að ríkið skuli ávallt vilja hafa af þeim tekjur í hvert skipti sem þeir ná í áfengi. Það þykir mönnum ansi hart. Þess vegna vilja menn bæði fá að ná í áfengi með því að smygla, hafi þeir tök á því, og eins að brugga.

Eitt mál er enn órætt við hv. 17. þm. Reykv. sem hefur horft á það í sínu starfi sem aðstoðarmaður fjmrh. að þarfir heilbrigðiskerfisins fyrir fjármuni hafa vaxið hraðar en nokkuð annað í þessu landi. Það væri hægt að sýna í línuritsformi að þar kæmi með sama áframhaldi að hver einasta króna í fjárlögunum færi til heilbrigðismála.

Jú, þá situr ein hugsun eftir svo háfleyg að það er erfitt að nálgast hana. Það er þetta mannlega frelsi sem vesturlandabúar fala um. Ætlar þú að skerða mitt frelsi? Eru það ekki voðalegir menn sem láta sér detta það í hug? Það hljóta að vera voðalegir menn.

Ég treysti mér nú ekki til að viðhafa neina háfleyga dæmisögu í þessu sambandi, en ég minnist þess að sem ungur skólasveinn þurfti ég að lesa bók eftir Boga Ólafsson. Það var kennslubók í ensku og þar var mikið af sérstæðum sögum. Ein sagan greindi frá því að það var maður sem gekk eftir stræti og sveiflaði staf í kringum sig og barði næsta mann í hausinn með stafnum. Það kom til orðahnippinga á milli þeirra. Sá sem veifaði stafnum sagði með réttu: Ég er frjáls maður í frjálsu landi og má gera það sem ég vil. Hinn svaraði: Þar sem nefið mitt byrjar endar þitt frelsi.

Það er nú einu sinni svo (Gripið fram í.) að það má lengi deila um það, hæstv. iðnrh., hvar nefið byrjar og hvar það endar, en ég veit ekki hvort Iðntæknistofnun gæti veitt viðkomandi aðila lið í þessu þannig að við þyrftum ekki að taka sérstaka umræðu um það hér í salnum.

Kjarni málsins er sá: Er rökrétt að ákveðinn hópur manna geti farið fram á að við breytum lögum í landinu á þann veg að það muni auka kostnað við heilbrigðiskerfið að verulegum mun í nafni frelsisins og sagt svo: Þetta er okkar krafa í nafni frelsisins. Okkur kemur ekkert við þó menn hafi engan áhuga á því að borga þennan kostnað.

Ég hef ekki orðið var við það að flokkur hv. 17. þm. Reykv. leggi til skattahækkanir. Gerir hann sér grein fyrir því að með þessu frv. er hann að leggja til skattahækkanir í landinu? Annaðhvort er hann að leggja til að önnur þjónusta verði skorin niður eða hann er að leggja til skattahækkanir.

Nú vík ég aftur að stærðfræðinni og rökhyggjunni. Bæði stórveldin, Bandaríkjamenn og Rússar, hafa látið skoða hvað þau fá mikið í tekjur fyrir áfengi og hvað það kostar þessar þjóðir í útgjöld. Niðurstaðan er sú að fyrir hverja eina einingu sem þau fá í tekjur þurfa þau að gjalda þrjár til fjórar í útgjöld. Þess vegna er þetta frv. ákvörðun um annaðhvort hærri skatta á þegna landsins eða minni þjónustu í þessu landi. Þá er ekki nema von að spurt sé: Hvort er það sem flm. er að leggja til? Er hann að leggja til hærri skatta eða er hann að leggja til að ákveðin þjónusta verði skorin niður og þá hvaða þjónusta?

Hv. 1. flm. þessa frv. er ekki hér á þingi í dag. Ég sakna þess vegna þess að hann hefur ávallt vandað sig mjög við allan málflutning í þessu sambandi. Ég las með athygli það sem hann sagði um þetta mál seinast þegar hann flutti það, þ.e. ekki núna heldur áður. Þá tók hann ákveðna hetju úr fornsögunum sem fyrirmynd í þeim efnum hvernig ætti að neyta áfengis. Það var Egill Skallagrímsson. Auðvitað vakti hann athygli á því hvað hann hefði ungur byrjað og haldið mikilli líkamshreysti. Ég minnist þess að í þeirri góðu bók, Egils sögu, er sagt frá því að gestgjafi einn hafði haldið mjög fast miðinum að Agli. Egill sá fram á að hann yrði ófær ef svo héldi fram sem horfði. Hann tók það ráð að hann stóð upp og ældi yfir gestgjafann og gestgjafinn undi þessu illa, en hinn kvað það nánast ósvífni að gera athugasemdir við það háttalag þó hann losaði sig við eitthvað af þessu.

Mér þótti það nefnilega merkilegt að núna hafði hv. 1. flm. algjörlega fellt út úr ræðu sinni þennan kafla um hinn fullkomna drykkjumann. Ekki veit ég hvort ástæðan er sú að hann hafi lesið Egils sögu ögn betur eða hitt að hann hafi ekki talið nauðsyn á að vitna til þessa aðila, en mig undraði að hann skyldi þá ekki koma með einhver önnur dæmi um hinn fullkomna drykkjumann fyrst búið var að varpa þessu goði af stalli.

Mér er ágætlega ljóst að það eru mjög margir menn sem geta neytt áfengis sér að skaðlausu. Þeir eru að því leyti hættulegri en aðrir í áfengisdrykkju að það eru svo margir sem telja að fyrst þessi maður geti það hljóti þeir einnig að vera færir um að leika það eftir. Samt er það svo að yfirleitt hafa menn viljað hæla sér af því, orðnir vel slompaðir og kannski örlítið leiðinlegir, að þeir séu hófdrykkjumenn. Það er á því stigi sem þeir fara yfirleitt að hæla sér af því hvað þeir eru færir um að standa skynsamlega að drykkju. Þetta er einmitt hópurinn sem kvartar mest undan því að rónarnir séu búnir að koma óorði á brennivínið.

Auðvitað vitum við það öll sem hér erum inni að við útilokum ekki áfengi úr þessu þjóðfélagi. Spurningin er aðeins hvort við teljum að við þurfum ekkert mark að taka á þeim stofnunum og þeim mönnum sem mest hafa unnið að áfengisvörnum í þessu landi og erlendis. Þeirra samdóma álit er að þeim mun meiri sem heildarneyslan verði, þeim mun kostnaðarsamara verði áfengisbölið. Við vitum af eigin reynslu í þessu þjóðfélagi að það kostar ærnar fjárhæðir í dag.

Ég hygg að það sé kannski eitthvert það vonlausasta verk sem nokkrum manni detti í hug að standa í þessum ræðustól, eins og ég geri nú, og ætla að hafa áhrif á hvernig menn greiða atkvæði í þessu máli. Ég hygg að menn séu svo rökheldir að það væri alveg sama hvort ég flytti góða ræðu eða lélega. Það mundi ekki hafa áhrif á einn einasta mann. Ég hygg að þeir sem hér eru inni líti velflestir á sig sem algera sérfræðinga á því sviði hvað eigi að gera í þessum efnum.

Því segi ég þetta hér og nú að mér finnst dálítið skrýtið að þó þetta mál hafi ár eftir ár fengið þær umsagnir manna sem átt hafa að vinna í mestu návígi við áfengið að þetta sé ekki skynsamlegt er farið á flot með þetta mál aftur og aftur. Og menn segja: Samkvæmt skoðanakönnunum vill meiri hluti íslensku þjóðarinnar að það verði leyft að neyta bjórs í þessu landi, óheft í alla staði. Það er nú svo. Ef við færum eftir skoðanakönnunum og hættum að fara eftir eigin dómgreind brytum við það drengskaparheit sem við höfum undirritað öll sem hér erum inni þegar við gerðumst þingmenn. Þá undirrituðum við drengskaparheit þess efnis að virða stjórnarskrá. Þar er skýrt tekið fram að það eru ekki skoðanakannanir sem eiga að segja okkur fyrir verkum. Það á að vera okkar eigin samviska. Ég vona því að menn veifi ekki svo ódýrum rökum að þeir séu hér mættir til að sigla undan vindinum hvert sem hann blæs. Ég vona að það búi svo mikið af „hrafnistumönnum“ í þeim sem hér eru inni að þeir þori að sigla á móti vindinum ef sannfæring þeirra býður upp á það.

Ég hef ekki hugsað mér að flytja langt mál um þetta. Hins vegar vil ég hvetja hvern einasta þm. til að hugleiða mjög vel í einrúmi hvort hann er að gera þjóð sinni eitthvað gott með því að samþykkja þetta frv. eða hvort hann er e.t.v. að stuðla að því að drykkjuskapur unglinga muni færast enn neðar og e.t.v. líka að stuðla að því að drykkjuskapur á vinnustöðum, þar sem menn margir hverjir þurfa að vinna langan,vinnudag til að sjá fyrir sér og sínum, hefjist hér á Íslandi. Hann er í svo litlum mæli að ég segi að sá drykkjuskapur hefjist hér á Íslandi.