18.11.1987
Neðri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

41. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Með þessu frv. til laga er lagt til að 1. málsgr. 20. gr. söluskattslaganna falli brott. Það er meginmál frv.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja að það er margyfirlýst og ítrekuð stefna núverandi ríkisstjórnar að beita sér fyrir breytingum á söluskattslögunum. Þær breytingar hníga allar í sömu átt, að fækka undanþágum frá söluskatti og breikka skattstofninn og breyta því næst söluskattsálagningarprósentum. Þetta kemur berlega fram í grg. með frv. til fjárlaga þar sem m.a. er lagt til að heimild til fjmrh. samkvæmt svokallaðri 6. gr., um að fella niður í ýmsum tilvikum söluskatt og reyndar einnig aðflutningsgjöld og tolla af hinum og þessum tilteknum verkefnum, verði felld niður, þannig að heimild til fjmrh. verði ekki í fjárlögum af þessu tilefni, heldur verði slíkar sérstakar undanþágur skilgreindar og færðar inn í lagatextann sjálfan. Ekki fer því milli mála að flm. þessa frv., hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, virðist vera á sömu skoðun og hafa sömu afstöðu og ríkisstjórnin hefur yfir lýst og stefnir að. Um það út af fyrir sig er ekki ágreiningur. Spurningin er hins vegar sú hvaða afleiðingar það hefði ef þetta frv., eins og það er hér lagt fram, næði fram að ganga sem lög.

Það er ástæða til fróðleiks að rifja upp fyrir hv. þm. hvaða helstu undanþágur frá söluskatti eiga rætur sínar að rekja til nefndrar 20. gr. laga. Ég nefni hér nokkra vöruflokka og tek það fram að þeir eru alls ekki tæmandi:

1. Heitt vatn,

2. auglýsingatekjur blaða og tímarita,

3. fólksflutningar,

4. skóla- og námskeiðagjöld,

5. afnotagjöld útvarps og sjónvarps,

6. sala happdrættismiða,

7. heimtaugagjöld,

8. vélavinna við ræktunarframkvæmdir o.fl.,

9. sala veitingahúsa á hráefni til matargerðar,

10. sala verðbréfa,

11. svartolía og gasolía, svo og kol og koks til iðnaðarframleiðslu,

12. vélar og tæki til notkunar í fiskvinnsluhúsum,

13. frystivélar og annar vélbúnaður fyrir frystihús,

14. allar helstu vélar og tæki til notkunar í hefðbundnum landbúnaði,

15. björgunar- og öryggisnet,

16. viðgerðir á veiðarfærum,

17. upp- og útskipunargjöld,

18. rafmagn til hitunar húsa og laugarvatns,

19. aðgangseyrir að íþróttasýningum, íþróttamótum, skíðalyftum, sundstöðum, gufubaðstofum, nuddstofum, ljósastofum, heilsuræktarstöðvum, kappreiðum og góðhestakeppni,

20. skipa- og loftfaraleiga,

21. prentun dagblaða og hliðstæðra blaða,

22. hafna-, vita- og lendingargjöld,

23. iðgjöld af seldum líftryggingum, farmtryggingum vegna millilandaflutninga, slysatryggingum og mörgum öðrum tryggingum,

24. vélbinding heys,

25. leiga skýrsluvéla,

26. aðgangseyrir að leiksýningum, tónleikum, upplestri og fyrirlestrum,

27. aðgangseyrir að íslenskum kvikmyndum og útisamkomum.

Ég endurtek: Þessi listi er ekki tæmandi. En hér er um að ræða kannski veigamestu undanþágurnar sem eiga stoð í nefndri 20. gr. sem frv. gerir ráð fyrir að verði nú felld niður. Þá er spurningin sú: Hvaða afleiðingar hefði það ef þessi grein væri felld niður? Það er skoðun flm. að eftir sem áður stæðu þær undanþágur sem veittar höfðu verið með stoð í 20. gr. en um það eru menn engan veginn sammála. Það er t.d. mat lögfræðinga fjmrn. að um þetta geti orðið mikil óvissa verði umrædd heimild í 1. málsgr. 20. gr. felld niður. Þá skapist mikil óvissa um gildi þeirra undanþága sem sækja stoð sína til þessa ákvæðis. Reyndar er það mat lögfræðings fjmrn. að líklegast sé að umræddar undanþágur verði taldar úr gildi fallnar vegna skorts á lagastoð. Það er einnig mat þeirra lögfræðinga að hugleiðing í grg. í þá veru að þær skuli halda gildi sínu geti ekki talist næg í því efni. Það eitt að menn velkist í vafa um skattskylduna í þessum efnum, verði frv. að lögum, er þess eðlis að ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til þess að mæla með því að frv. nái fram að ganga, ekki vegna þess að ég sé ósammála röksemdum flm., um það virðumst við vera algjörlega sammála, heldur vegna mats á því hvað við tæki, tæknilega séð, ef reynt yrði að leysa málið með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.

Að mati lögfræðinga fjmrn. verður umrætt heimildarákvæði ekki afnumið nema Alþingi taki um leið í formi eiginlegrar löggjafar afstöðu til þess hvað af þeim undanþágum, sem hér um ræðir, skuli halda gildi sínu.

Þá er þess auðvitað að geta að eins og boðað hefur verið hefur frá því í ágústmánuði sl. verið lögð mikil vinna í það af hálfu fjmrn. að undirbúa ný söluskattslög. Og þar er þessum spurningum rækilega svarað. Það verða gerðar tillögur um það hvað af þessum upptöldu undanþágum skv. 20. gr. skuli vera áfram í lagatextanum með lagaheimildum til undanþága. En að því er stefnt að afnema með öllu allar heimildir fjmrh. til ákvörðunar um slíkt. Að vísu mun það vera svo að fjmrh. mun yfirleitt ekki hafa tekið slíkar ákvarðanir upp á eindæmi, heldur verður það að skoðast á ábyrgð ríkisstjórnar yfirleitt og þá gjarnan rætt í ríkisstjórn og þingflokkum viðkomandi stjórnarmeirihluta.

Sérstök ástæða er til að taka það fram að matvælaundanþágan í 25%-söluskatti á ekki rætur að rekja til 20. gr. laganna. Hún sækir lagastoð sína í 6. gr. laga nr. 121 frá 1971, um kjaramál, sem kveður á um heimild fjmrh. til að fella niður söluskatt af einstökum matvörum eða matvöruflokkum, drykkjarvörum og drykkjarvöruflokkum. Sama er að segja, eins og fram kom í máli flm., um 10% sérstakan söluskatt. Þar er um að ræða sérstök lög sem eru óháð lögum nr. 10/1960 um söluskatt. Samkvæmt þeim eru öll matvæli sem undanþegin eru 25%-söluskattinum skattskyld. Ráðherra getur hins vegar á sama hátt og samkvæmt lögum um kjaramál, þ.e. gildandi lögum, undanþegið tilteknar matvörur skattinum ef hann telur þörf á, en afnám 1. mgr. 20. gr. söluskattslaga hefur engin áhrif til eða frá á skattskyldu eða skattfrelsi matvæla.

Herra forseti. Það er ljóst að að því er varðar yfirlýst markmið gengur umrætt frv. mjög í sömu átt og stefna ríkisstjórnarinnar að því er varðar endurskoðun á söluskattslögum. Flm. og sá sem hér stendur eru einnig sammála um það að að því beri að stefna að afnema sérstakar heimildir til ráðherra til veitingar á undanþágum í þessum lögum, skattalögum, sem og virðast menn vera sammála um það að sú almenna regla eigi að gilda að ef Alþingi vill viðhalda einhverjum sérstökum undanþágum eigi að finna því stað í viðeigandi lögum. Að þessu er nú unnið. Það er ekki langt í það að þetta frv. verði lagt fyrir Alþingi sem stjfrv. Meginatriði þess hafa verið kynnt nú þegar í ríkisstjórn og þau koma til umfjöllunar í þingflokkum stjórnarflokkanna mjög fljótlega.

Meðan sú óvissa ríkir sem ég hef nú lýst um hvað af mundi hljótast ef þessari aðferð yrði beitt, þ.e. það yrði einfaldlega samþykkt að fella niður 1. mgr. 20. gr. laganna án þess að í staðinn komi ný lög þar sem Alþingi lýsir vilja sínum í því efni hvað af undanþágunum eigi að vera áfram í lögum, treysti ég mér ekki að svo stöddu til þess að mæla með því að þessari aðferð verði beitt.