23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

94. mál, þjónustumiðstöð fyrir heyrnarskerta

Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls og stutt þetta mál, ekki síst hæstv. félmrh. Allt sem hún las úr grg. þeirri sem hún hafði í höndum styður að úrbóta þurfi að leita fyrir þetta fólk eins fljótt og kostur er. Það er líka rétt sem hæstv. félmrh. sagði að heyrnarlaust fólk býr sjálfsagt við meiri einangrun en flestir aðrir fatlaðir sem á annað borð hafa þá möguleika á því sökum fötlunar sinnar að halda uppi eðlilegum samskiptum við fólk eða lifa nokkurn veginn eðlilegu lífi. Manni verður ljóst þegar maður talar við þetta fólk hversu gífurlega mikilvægt það er fyrir hvern og einn að þroska sína hugsun í gegnum mál. Fólk sem aldrei getur tileinkað sér tungumál á mjög erfitt með að koma skoðunum sínum og þörfum á framfæri vegna þeirra takmarkana sem þetta setur þeim.

Eins og kom fram í máli hæstv. félmrh. er þessari nefnd greinilega ætlað að taka á fjölmörgum fleiri málum sem snerta heyrnarlausa. Er það vel því það er víða pottur brotinn og margt sem hægt er að gera þeim til aðstoðar sem þarf ekki að kosta mikla peninga. Hæstv. félmrh. ræddi t.d. um túlkun í sjónvarpi sem þeir bera að nokkrum hluta sjálfir kostnað af og ég veit að áhugi er á því hjá heyrnarlausum að Sjónvarpið geri t.d. einu sinni í viku einhvers konar yfirlitsþátt yfir fréttir vikunnar þar sem túlkun væri fyrir hendi þannig að þeir gætu fengið betra og heillegra yfirlit einu sinni í viku en þeir fá í þessum nokkurra mínútna fréttum sem þeir fá á hverjum degi.

Þetta mál er flutt í formi þáltill. en ekki í formi frv. einmitt til þess að útiloka ekki aðrar leiðir en þá að opna þjónustumiðstöð sem félli undir félagsmálalöggjöfina eins og hún er núna, einmitt til þess að hafa samráð við heyrnarlausa sjálfa um hvernig þeir teldu að þessum málum væri best hagað, og það var að nokkru leyti í samráði við þá sem þessi niðurstaða varð.

Eins mætti nefna táknmálskennslu í skólum sem væri hið þarfasta mál. Hún gæti í rauninni þjónað víðtækari tilgangi en þeim að börn lærðu táknmál því þetta er mjög tjáningarríkt mál. Þetta væri skemmtilegur og örvandi leikur fyrir börn að læra táknmál og þau mundu sjálfsagt vera mjög snögg að því. Sjálf lék ég mér mikið við heyrnarlaus börn þegar ég var barn og maður var farinn að tala þetta mál í rauninni áður en maður vissi af en auðvitað gleymdi maður því jafnfljótt vegna þess að maður gerði sér heldur ekki grein fyrir því að þetta væri neitt mál. Maður var bara svona að hafa samband við krakkana. En það er ekki erfitt að tileinka sér það svo að gagni geti komið.

Það er náttúrlega ekki vansalaust að þessir textasímar, eins einfaldir og þeir eru, skuli ekki vera á flestum stofnunum. Það mætti sjálfsagt beina því til annarra ráðherra að gangast nú í að örva þær stofnanir sem undir þá heyra til að koma sér upp svona síma því að það þarf enga, eins og ég sagði áðan, sérstaka menntun eða sérstakan starfskraft til þess að sinna þeim málum sem mundu koma í gegnum slíka síma, þau yrðu ekki svo mörg á hverjum stað.

Ég ætla rétt í lokin að minna á fund sem Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg — mig minnir að ég fari rétt með það — stóðu að í fyrra til að kynna sín mál og sumir hv. þm. sátu. Á þeim fundi flutti kór heyrnarlausra þeim kvæði og þá voru náttúrlega tungumálaerfiðleikarnir slíkir að hv. þm. þurftu túlk til þess að skilja kvæðið. Í von um að það hafi fest einhverjum í minni ítreka ég ósk mína um að málið fari til hv. félmn.