15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur að vísu rætt nokkuð þau atriði sem ég vildi gera að umræðuefni.

Ég stend fyrst og fremst upp til að leggja áherslu á það að það er rangt hjá hv. upphafsmanni þessarar umræðu að Framsfl. standi ekki að þessu fjárlagafrv. Það gerir Framsfl. Þetta er lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar og með samþykki Framsfl. Við styðjum heils hugar það grundvallaratriði fjárlagafrv. að það verði afgreitt hallalaust. Við teljum það ákaflega mikilvægt í því þensluástandi sem nú er í íslensku þjóðfélagi.

Hæstv. landbrh. hefur gert athugasemd við einn þátt frv. Í þeirri athugasemd er tekið fram að hann áskilur sér rétt til að leita leiða til að rétta hlut landbúnaðarins í fjárlagafrv. og hefur lagt til að nefnd þingmanna fjalli um það og ef ekki reynist unnt að ná þeim markmiðum innan þess ramma sem fjárlagafrv. nú mótar verði athugað hvort ekki megi gera það með öflun tekna. Þetta hygg ég að sé út af fyrir sig ekkert óvenjulegt. Ég hygg að flestir ráðherrar hafi haft og hafi talið sig hafa þann rétt að fá einhverja leiðréttingu mála í meðferð þingsins á fjárlagafrv. Ég man varla eftir nokkru frv., og hef þó verið hér nokkuð lengi, þar sem ráðherrar hafa ekki leitað eftir slíku í meðferð þingsins.

Ég vil einnig koma aðeins inn á þá fullyrðingu hv. þm. að loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamningana, hafi verið svikin. Ég vil geta þess að öllum var ljóst og ekki síst mér að sjálfsögðu sem um þau mál fjallaði í þeirri ríkisstjórn að það stefndi í meiri þenslu og meiri viðskiptahalla en gert hafði verið ráð fyrir þegar samningarnir voru gerðir. Ég lét því á vormánuðum athuga þau mál eins og unnt var og reyndar allítarlega. Ég lét athuga ýmsar leiðir sem kæmu til greina til að draga úr þessari þenslu, en því miður var ekki staða til þess að grípa til slíkra aðgerða. Menn vita að ríkisstjórnin var eftir kosningar ekki með nægan þingmeirihluta til þess. Ég held að fullyrða megi að ef það hefði verið unnt á þeim tíma hefðu aðgerðir af þessu tagi verið töluvert mildari en síðar því að vandinn hefur vitanlega vaxið.

Nú er von að menn spyrji: Hvað fór úrskeiðis? Ég held að það sé engin launung að þenslan hefur hleypt kappi í menn og menn hafa viljað auka sína framleiðslu, auka þá þjónustu sem þeir veita, fjárfesta meira í byggingum, bæði atvinnubyggingum og íbúðarhúsnæði. Eftirspurn eftir vinnuafli fór fram úr því sem gert hafði verið ráð fyrir og það leiddi til mjög mikils launaskriðs. Augljóst var á vormánuðum að stefna mundi til það mikillar aukningar á kaupmætti að viðskiptahalli yrði miklu meiri en þolanlegt er eða töluvert meiri, það var þegar ljóst á þeim tíma. Þetta hefur hæstv. forsrh. þegar rakið nokkuð. M.ö.o. fór aukinn kaupmáttur ekki í aukinn sparnað eins og æskilegt hefði verið heldur í aukna eyðslu, fjárfestingu o.s.frv., eins og ég hef rakið.

Ég er sammála því að við þær aðstæður sem nú eru er óhjákvæmilegt að stíga verulega á bremsurnar. Einn þáttur í því er að sjálfsögðu hallalaus fjárlög og það er það sem þessari ríkisstjórn hefur tekist nú að leggja fram. Það er vitanlega út af fyrir sig mjög stórt atriði í þessum málum.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa þessi orð lengri. Ég sé ekki ástæðu til þess. Hér á fjmrh. sömuleiðis eftir að tala. Ég vil bara leggja áherslu á það að Framsfl. styður frv. Allar forsendur þegar skrifað var undir það sem kallað er loforð hér í kjarasamningum eru orðnar allt aðrar en þær voru þar, eins og hæstv. fjmrh. sagði. Kaupmáttur hefur aukist tvöfalt, það er óumdeilt. Það hafa engar aðgerðir verið gerðar sem skerða kaupmáttinn svo að hann verði minni en þá var gert ráð fyrir. Loforðin voru gefin við þær forsendur. Mér þykir mjög slæmt að við bárum ekki gæfu til að grípa til aðgerða fyrr, en þó er það betra nú en aldrei, ef ég má orða svo, betra seint en aldrei. Það hefði þurft að gerast fyrr og það þurfti að gerast núna. Það hefur verið gert og að því standa allir flokkar í þessari ríkisstjórn.