23.11.1987
Sameinað þing: 20. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

109. mál, samanburður á tekjum á Íslandi og í nágrannalöndum

Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem ég flyt ásamt öllum öðrum þm. Borgarafl. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd hlutlausra sérfræðinga til þess að rannsaka tekjumyndun og skiptingu þjóðartekna á Íslandi. Nefndin athugi sérstaklega dagvinnulaun, vinnutíma og heildarlaun nokkurra markhópa launafólks á Íslandi og beri þau saman við kjör sambærilegra hópa í nágrannalöndum okkar. Könnunin nái einnig til þeirra er njóta tryggingabóta. Leita skal skýringa á þeim mun sem könnunin sýnir. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Þjóðartekjur Íslendinga eru með þeim hæstu í heiminum. Þær tekjur sem koma á hvern einstakling samkvæmt meðalútreikningi eru í engu samræmi við þá launataxta sem samið er um fyrir dagvinnu. Ég tók hér með mér til samanburðar tekjur tveggja verkamanna árið 1985 og 1986 teknar úr skattaframtali. Báðir hafa starfað yfir 15 ár hjá sama fyrirtæki og vinna fullan vinnudag. Annar hefur í árslaun 1985 213 þús. kr. og 1986 310 þús. kr. Hinn, sem gegnir ábyrgðarstarfi, ber úr býtum árið 1985 378 þús. kr. og árið 1986 495 þús. kr. Báðir þessir menn eru yfir meðaltali í sínu stéttarfélagi, en eru þó svo langt frá meðaltali sem þjóðartekjur sýna á hvern mann. Það styður það sem margir ætla. Í landinu er mikið launamisrétti og verra en þessar tölur sýna.

Ef venjulegur launamaður ber úr býtum sæmileg laun er um óhóflegan vinnudag að ræða. Spurningin er: Eigum við Íslendingar ekki meira þjóðarstolt en svo að við sættum okkur við meiri vinnuþrælkun og lægri laun en almennt gerist í Vestur-Evrópu? Það þýðir ekkert að afsaka þetta með því að við höfum þó sloppið við atvinnuleysi. Það er þakkarvert en ekki endalaust fært að réttlæta sig með þeim rökum. Verðlag er líka hærra hér en í nálægum löndum, einkum á matvöru. Ég bendi á verðkönnun sem Alþýðublaðið birti 14. nóv. sl. þar sem kom í ljós að t.d. verkamaður í Hollandi var í 3 klukkutíma að vinna fyrir matarkörfu sem verkamaður á Íslandi er 11 klukkutíma að vinna fyrir.

Ýmsir aðilar, bæði atvinnurekendur og launþegasamtök, hafa stundað kjararannsóknir og samanburð á launum við önnur lönd. Oftast er vitnað til kjararannsóknanefndar sem er helmingaskiptafélag Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands. Ég hef oft vakið athygli á því að ég tel þessar rannsóknir ekki nógu trúverðugar og skal nú rökstyðja það frekar.

Haustið 1983 fóru verkakvennafélagið Framsókn og starfsmannafélagið Sókn fram á að ríkisstjórnin léti rannsaka hvað væru raunveruleg laun félaga í þessum félögum, en þau laun, sem þá voru talin meðallaun, fundum við ekki hjá okkar fólki. Þáv. forsrh., núv. hæstv. utanrrh., brást vel við og óskaði eftir að kjararannsóknanefnd tæki verkefnið að sér. Nefndin skoraðist undan því og taldi sig hvorki hafa fé né mannafla til að sinna þessu verki. Ríkisstjórnin veitti þá aukafjárveitingu til verksins sem mörg fleiri láglaunafélög víðs vegar um landið tóku þátt í. Þessi könnun var að ég tel gagnleg og skilaði merkilegum upplýsingum, en stóð aðeins yfir í stuttan tíma og lauk í nóvember 1983.

Þeir launþegar sem vinna hjá ríki og borg og sjálfseignarstofnunum hafa ekki verið með í rannsóknum kjararannsóknanefndar og grunur leikur á að fleiri laglaunastéttir séu utan dyra. Það er því meira en lítið vafasamt að líta á þessar rannsóknir sem einhvern stórasannleik og eru þær þó sennilega þær víðtækustu sem völ er á hér á landi.

Það skal tekið fram að nú á síðustu vikum hefur fjmrn. skilað upplýsingum um laun meðlima Alþýðusambands Íslands til kjararannsóknanefndar og er þar um framför að ræða.

En hvað sem því líður er það staðreynd að mikil tortryggni er ríkjandi milli hagsmunaaðila um launakjör á Íslandi. Það er því brýn nauðsyn, ef skapa á grundvöll fyrir traustari kjarasamninga, að fyrir liggi hlutlaus og víðtæk könnun um launatekjur landsmanna. Í nútímaþjóðfélagi á það að vera sjálfsagt að þeir sem sækja lífsframfæri til Tryggingastofnunar ríkisins njóti sama réttar og séu tryggð sömu lífskjör og öðru launafólki.

Borgarafl. trúir að miðað við hinar miklu þjóðartekjur á mann á Íslandi þurfi að skýra betur en gert hefur verið hvers vegna hinum lægra launuðu í þjóðfélaginu nægi ekki 8 stunda vinna fyrir lífsviðurværi. Er það vegna þess að þjóðartekjur skiptast svo ójafnt milli þjóðfélagsþegnanna? Eru þeir fáir sem fá mikið í sinn hlut en margir sem skipta litlu á milli sín? Borgarafl. vill láta hlutlausa aðila kanna málið með hagsmuni heildarinnar að markmiði. Því er þessi þáltill. flutt.

Hæstv. forseti. Að umræðunni lokinni óska ég eftir að þáltill. verði vísað til félmn.