24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1152 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

130. mál, meðferð einkamála í héraði

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég vil einvörðungu vekja á því athygli, sem segir raunar í grg., að mál þetta var flutt í fyrra og er endurflutt nú. Mér finnst að Alþingi hafi á undangengnum árum kannski ekki nægilega sinnt einmitt umfjöllun um dómsmálakerfi landsins, afgreiðslum hjá dómstólum og þar með náttúrlega réttarfarsatriðum. Ég vil leggja á það áherslu að sú nefnd sem fær mál þetta nú til umfjöllunar verði við þeim óskum hæstv. dómsmrh. að reyna að hraða störfum sínum þannig að frv. þetta geti orðið samþykkt sem lög á þessu þingi. — Kannski ekki óbreytt. Ég er ekki dómbær á það. Þótt ég sé reyndar hæstaréttarlögmaður hef ég lítið stundað lögfræðistörf í allangan tíma. Síst hef ég kannski mikið vit á réttarfarsreglum í smáum dráttum. Hitt vita allir landsmenn að það er mikil og kannski vaxandi umræða um að hér sé pottur brotinn í okkar dómsmálakerfi og þá er illa farið í réttarríkinu ef almenningur getur ekki nokkuð vel treyst meðferð mála fyrir dómum þó að auðvitað verði alltaf einhver ágreiningur um dómsniðurstöður.

Þessi umræða er kannski vakin ekki síst vegna nýútkominnar bókar þar sem deilt er á dómara. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að þessi umræða sé af hinu góða og hún muni geta kveikt þann neista hér á Alþingi eða bál úr þeim neista að þessi mál verði meira í sviðsljósinu í löggjafarþinginu sjálfu þar sem þessi skipan er endanlega ákveðin og ábyrgðin þess vegna mikil af Alþingis hálfu að fjalla um þessi mikilvægustu mál réttarríkisins.

Ég endurtek að ég þakka fyrir að frv. þetta skuli nú vera flutt að nýju og legg á það áherslu að um málið verði alvarlega og ítarlega fjallað í nefnd og leitast við að lögfesta nýjar reglur eða breyttar reglur í þessu efni á þessu þingi en ekki bíða til hins næsta.