24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

84. mál, viðskiptabankar

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þm. sem hafa tekið til máls og lýst stuðningi við fram komið frv. til l. um breytingu á lögum um viðskiptabanka.

Ég vil segja vegna orða hv. 6. þm. Norðurl. e., og ég vona að hann hafi ekki misskilið þetta, að hér er ekki verið að gera neina aðför að bankaráði og þaðan af síður er verið að alhæfa að bankastarfsmenn séu eitthvað betri en aðrir. Þarna er eingöngu verið að opna möguleika fyrir þá sem aðra þegna að sækja um þessar stöður. Það er ekki verið að veitast að einum né neinum í raun og veru.

Það hefur aðeins verið talað hér um pólitískt vald og pólitíska veitingu og ég tel að hv. 5. þm. Reykv. hafi farið mjög vel í gegnum það og þurfi ekki að eyða orðum í það. Hins vegar vil ég aðeins segja vegna orða hv. 2. þm. Vestf. að hann bæði skilur og misskilur. Eina breytingin á lögunum er um að auglýsa skuli stöðurnar lausar til umsóknar. Það sem hv. þm. skipti upp í þrjá liði er sumt inni í þeim lögum sem nú eru í gildi. Svo er um sex ára ráðningartímann. Ef hv. þm. vill gera breytingu er honum það í sjálfsvald sett. Sama má segja um frávikningu bankastjóra úr starfi. Það er einnig í núgildandi lögum og er það gert í samráði við bankaráð og ráðherra. Ég tel að þeim málum sé ágætlega skipað í dag.

Að öðru leyti er ég svo sem ekkert hissa á því þótt stjórnarflokkarnir vilji reyna að vernda gullið sitt. En það er ekkert verið að ráðast að því. Þetta er nánast jafnopið eftir sem áður, en það opinberast hins vegar kannski hverjir verða settir út í kuldann þegar um umsóknir er að ræða.