25.11.1987
Efri deild: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

135. mál, ráðstafanir í fjármálum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í málefnalegar þrætur við hæstv. fjmrh. um söguna. Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði hér áður: Ástæðan fyrir því að síðasta ríkisstjórn hætti við það að láta lögfesta virðisaukaskattinn á síðasta Alþingi var einfaldlega sú að ákveðið var að taka upp staðgreiðslukerfi skatta, eins og ég vék að áðan. Og það er ástæðulaust að vera að gefa neitt annað í skyn um þau efni. Það lá þá fyrir, eins og raunar kom fram í ummælum hæstv. fjmrh., að það var ekki starfslið til að gera hvort tveggja í senn og talin ofrausn að gera hvort tveggja í senn, að taka upp virðisaukaskattinn og staðgreiðslukerfið. Virðisaukaskatturinn var því látinn bíða. Svo einfalt var það.

Ég vil í annan stað segja að það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að ríkisfjármálin voru í vissum vanda við stjórnarskiptin, sem m.a. átti rætur sínar að rekja til þess að verulegar skattalækkanir voru samþykktar á hinu háa Alþingi vegna febrúarsamninganna til þess að reyna að ná verðbólgunni niður og meiri stöðugleika í efnahagslífinu en áður. Þessi meginmarkmið tókust í stórum dráttum en það var þó aldrei gert ráð fyrir því að þær ráðstafanir sem þá voru gerðar til að berja verðbólguna niður mundu standa um aldur og ævi. Þetta vil ég taka fram í öðru lagi.

Í þriðja lagi vil ég aðeins segja, vegna þess sem hér hefur verið sagt um fjárlagafrv., að þingflokkur Sjálfstfl., eins og aðrir þingflokkar, gaf sínum ráðherrum umboð til þess að fjárlagafrv. yrði lagt fram þó svo að ekki ynnist tími til þess að fylgjast með þeim breytingum sem gerðar voru á síðustu stundu vegna hins bráða vanda sem blasti við um mánaðamótin september-október. Það er ástæðulaust að gera stórt mál úr því. Ég vil á hinn bóginn taka það fram að eins og við vitum allir hv. þm. er alltaf viss ágreiningur um einstök atriði í fjárlagafrv., t.d. hversu miklu fé skuli varið til hafnaframkvæmda og þar fram eftir götunum. Um það verðum við auðvitað að ná samkomulagi fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga. Því held ég að á milli stjórnmálaflokkanna sé ekki neinn sá djúpi ágreiningur um fjárlagafrv. sem sumir vilja vera láta.