26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (880)

62. mál, ráðning í stöðu þjóðgarðsvarðar

Menntamálaráðherra (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er spurt: „Hefur menntmrh. kynnt sér vinnubrögð Náttúruverndarráðs við ráðningu í stöðu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli?" Svarið er já. Menntmrh. hefur kynnt sér vinnubrögð Náttúruverndarráðs við ráðningu þjóðgarðsvarðarins í Skaftafelli og gerir ekki athugasemdir um þau.

Í reglugerð um þjóðgarð í Skaftafelli nr. 319/1984 segir í 3. gr.: „Náttúruverndarráð ræðir þjóðgarðsvörð til þess að fara með daglega stjórn í þjóðgarðinum, bæði gagnvart starfsmönnum hans, gestum og þeim aðilum sem annast þar rekstur. Náttúruverndarráð setur þjóðgarðsverði erindisbréf. Þjóðgarðsvörður skal vera búsettur í Skaftafelli:"

Þess ber að geta að ekki eru gerðar sérstakar kröfur um menntun þjóðgarðsvarðarins í reglugerð.

Starfið var auglýst laust til umsóknar síðari hluta ágústmánaðar og var umsóknarfrestur einn mánuður. Í auglýsingunni var tekið fram að auk þess að þjóðgarðsvörður hefði umsjón með allri starfsemi þjóðgarðsins útheimti starfið m.a. haldgóða þekkingu á náttúrufræði, en þar var að sögn Náttúruverndarráðs vitaskuld átt við náttúrufræði þjóðgarðsins og héraðsins. Sjö umsóknir bárust um starfið, en ein þeirra var síðar dregin til baka og einn óskaði nafnleyndar. Hinir fimm voru: Finnur Torfi Hjörleifsson lögfræðingur, Haraldur Antonsson búfræðikandídat, Jón Hjartarson skólastjóri, Sigrún Helgadóttir líffræðingur, Stefán Benediktsson arkitekt.

Á fundi Náttúruverndarráðs 25. sept. sl., daginn sem umsóknarfresturinn rann út, var skýrt frá umsóknunum sjö sem bárust og þær voru ræddar. Formanni Náttúruverndarráðs, framkvæmdastjóra og einum ráðsmanna eða þeim sem skipa Skaftafellsnefnd Náttúruverndarráðs var þá falið að ræða við alla umsækjendur fyrir næsta ráðsfund. Þetta gerði Skaftafellsnefnd og var málið síðan lagt fyrir næsta fund Náttúruverndarráðs 13. okt. sl. Þar voru allar umsóknir ræddar ítarlega, einkum fyrri störf, reynsla og menntun umsækjenda, með hliðsjón af starfslýsingu fyrir þjóðgarðsvörð í Skaftafelli og var einnig skýrt frá viðræðum við umsækjendur.

Á fundi Náttúruverndarráðs hinn 14. okt. sl. var þessum umræðum fram haldið. Á þeim fundi ráðsins var ákveðið að greiða atkvæði skriflega um það hvern hinna sex umsækjenda skyldi ráða í stöðu þjóðgarðsvarðar. Við þá atkvæðagreiðslu fékk Stefán Benediktsson hreinan meiri hluta atkvæða og var bar með ákveðið að ráða hann í starfið frá næstu áramótum. Af framansögðu sést að allar umsóknir um stöðu þjóðgarðsvarðar hlutu vandlega umfjöllun af hálfu Náttúruverndarráðs og ákveðið með leynilegri atkvæðagreiðslu á lýðræðislegan hátt hver umsækjendanna sex skyldi hljóta stöðuna. Úrslitin voru skýlaus og ótvíræð.

Í öðru lagi er spurt: „Getur ráðherra upplýst hvaða forsendur lágu til grundvallar þeirri ráðningu og til hve langs tíma ráðningin er?"

Vegna 2. tölul. í fsp. hv. þm. er rétt að vísa að nokkru leyti til svars við 1. tölul. hér að framan. Því til viðbótar er rétt að reifa í grófum dráttum starfslýsingu fyrir þjóðgarðsvörð í Skaftafelli sem Skaftafellsnefnd Náttúruverndarráðs gerði drög að fyrir tveimur árum og sem Náttúruverndarráð hefur fjallað um og endurbætt. Tilefni þess að þessi starfslýsing var gerð voru þær breytingar sem óhjákvæmilega myndu verða er núverandi þjóðgarðsvörður, Ragnar Stefánsson, léti af starfi. Helstu þættir starfslýsingar fyrir þjóðgarðsvörð í Skaftafelli eru þeir að honum ber að annast rekstur þjóðgarðsins, eignavörslu á svæðinu, hafa umsjón og eftirlit með öllum framkvæmdum í þjóðgarðinum, taka þátt í vinnu við gerð skipulags í þjóðgarðinum, hafa á hendi starfsmannahald og verkstjórn, hafa umsjón með fræðslu fyrir þjóðgarðsgesti, svo sem með gerð auglýsingabæklinga, upplýsingaskilta o.s.frv., og annast tengsl Náttúruverndarráðs við Suðausturland. Náttúruverndarráði var ljóst að erfitt mundi reynast að fá til starfans umsækjanda er hefði jafngóða þekkingu, menntun og starfsreynslu á öllum þessum sviðum þó það væri æskilegt. Hinn nýi þjóðgarðsvörður í Skaftafelli verður fyrst ráðinn til eins árs til reynslu eins og venja er, en síðan áfram til fimm ára í senn gangi allt að óskum.

Í þriðja lagi er spurt: „Er ráðherra samþykkur því mati Náttúruverndarráðs sem lýsir sér í vali þess úr hópi sex umsækjenda um stöðuna?"

Ég vil fyrst leggja áherslu á að það er Náttúruverndarráð sem ræður í þessa stöðu en menntmrh. kemur þar hvergi nálægt. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið erfitt að gera upp á milli þeirra umsækjenda er sóttu um stöðuna þar eð allir umsækjendur höfðu menntun og starfsreynslu sem hefði að einhverju leyti nýst í starfi þjóðgarðsvarðar, en þar sem einn umsækjenda hafði hlotið atkvæði meiri hluta þeirra er sitja í Náttúruverndarráði er það mat mitt að ekki hafi verið hjá því komist að ráða þann umsækjanda í starfið sem meiri hluti ráðsmanna hafi talið hæfastan. Sjálfur tel ég reyndar að þar hafi verið vel valið. Við það ráðslag Náttúruverndarráðs hef ég ekkert að athuga, enda benda vinnubrögð Náttúruverndarráðs við umfjöllun málsins til þess að ákvörðun um ráðningu í starfið hafi verið tekin að vandlega yfirveguðu ráði.

Þess má geta að á nýafstöðnu Náttúruverndarþingi var lögð fram tillaga um þetta mál sem hljóðaði þannig:

.,6. Náttúruverndarþing harmar að ekki skuli hafa verið tekið tillit til menntunar og faglegrar þekkingar á náttúruverndarmálum við ráðningu þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli.“

Bæði sú nefnd sem fjallaði um málið á þinginu og náttúruverndarþingið í heild samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða að vísa tillögunni frá á þeim forsendum að Náttúruverndarráð hefði á allan hátt staðið eðlilega að þessu máli.