26.11.1987
Sameinað þing: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

132. mál, verndun ósonlagsins

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við greinargóða framsöguræðu hv. 1. flm. að bæta. Þar var rökstutt, að mínu mati, mjög rækilega hvers vegna fyllsta ástæða er til að taka þetta mál upp hér á Alþingi og nauðsynlegt að Íslendingar grípi til aðgerða. Vegna orða hv. 5. þm. Norðurl. e. vil ég bara segja að ég held að þar gæti nokkurs misskilnings að það sé með nokkrum hætti óeðlilegt að mál sé tekið upp þó að það hafi áður verið flutt hér inni á Alþingi. Skiptir þá í raun ekki máli hverra flokks menn hafa gert það. Þess fyrra þingmáls sem hún vitnaði til er að góðu getið hér í till. og þar af leiðandi því frumkvæði, sem þá var sýnt, haldið til haga með því að geta þess að málinu hafi verið hreyft hér og hvernig því hafi verið hreyft. Sú tillaga náði enda ekki fram að ganga, dagaði uppi á síðasta þingi. Þar af leiðandi náði flutningur hennar ekki tilgangi sínum og það er í fyllsta máta eðlilegt að málinu sé hreyft áfram.

Hér er líka á ferðinni miklu víðtækari till. sem gerir ráð fyrir að fela ríkisstjórninni víðtækari ráðstafanir en sú tillaga gerði ráð fyrir og svo er það þannig að það er nauðsynlegt að hv. þm. Framsfl. geri sér grein fyrir, einmitt líka vegna þess að það skeður svo sjaldan, að þó að þeir detti niður á jákvæð og góð mál endrum og sinnum þýðir það ekki þar með að þeirra flokkur hafi fengið einkarétt á þeim um aldur og ævi og að þeir geti þar með í raun slegið einhvers konar eignarhaldi sínu á málið, öðru nær, enda á að vera sama hvaðan gott kemur.

Ég fagna því ef hæstv. heilbrmrh., sem er framsóknarmaður eins og þm. eflaust vita, er farinn að sinna málinu, en eins og fram kom í framsöguræðu hefur frammistaða hæstv. ríkisstjórnar ekki verið mjög beysin í þessu máli fram að þessu, þannig að það veitir ekki af að einhver hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni vakni til lífsins. Stóll Íslands hefur verið auður það sem af er þessu kjörtímabili þegar ríkisstjórnir, hvort sem það er á Norðurlöndunum eða annars staðar í heiminum, hafa sent fulltrúa sína til að fjalla um þessi mál.

Að síðustu er það auðvitað augljóst að svo mikið er að gerast í þessu máli, svo miklar upplýsingar eru að koma fram á þessum síðustu mánuðum, að það er alveg nauðsynlegt að skoða málið og taka á því í því ljósi. Ég nefni sérstaklega nýjar upplýsingar um skaðsemi freon-efnanna og það hversu hratt gengur á ósonlagið, svo og þá hreyfingu á því að að grípa til aðgerða á alþjóðavettvangi, bæði á vettvangi Norðurlandaþjóðanna og eins alþjóðlega á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Ég vona því að þessi till., sem rækilega hefur verið rökstutt að mikil nauðsyn er á að flytja og afgreiða og framkvæma, fái jákvæða og rösklega umfjöllun og í öllu falli má treysta því að ekki standi á stuðningi hv. þm. Framsfl. við að koma henni áleiðis.