30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

103. mál, samgöngur á Austurlandi

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð um liðið síðan var mælt fyrir þeirri þáltill. sem hér er til umræðu og ég þarf í raun ekki að lengja umræður um hana mikið, bað reyndar um orðið undir þeirri umræðu en vegna tímaskorts þurfti að fresta henni eins og gengur hér. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs til að undirstrika mikilvægi þess máls sem hér er um að ræða. Það kom kannski ekki nægilega vel fram í ræðu flm., og er hógværð hans kannski þar um að kenna, að þetta mál er ekki flutt af neinni tilviljun. Það er búin að fara fram löng umræða á Austurlandi um margra ára skeið um jarðgangagerð og vegamál og lausnir með þessum hætti og flm. þessarar tillögu hefur vissulega verið brautryðjandi í umræðu þeirri á Austurlandi og leitt hana. Ég vildi láta þetta koma fram hér við umræðu um þetta mál.

Það er þannig að flm. tillögunnar þekkir af eigin raun sem atvinnurekandi á Austurlandi og þátttakandi í sveitarstjórnarmálum um margra ára skeið hvaða þýðingu góðar samgöngur hafa og hve slæmar samgöngur geta dregið úr því hvaða árangri atvinnureksturinn nær í fjórðungnum. Slæmar samgöngur geta verið mikill akkillesarhæll í félagslegu og atvinnulegu tilliti.

Hér er um stórverkefni að ræða, sem þessi till. gerir ráð fyrir, og er eðlilegt að horft sé á afmarkað verkefni í þessu efni. Tillagan gerir ráð fyrir að það sé litið á þennan þátt á Austurlandi. Hún gerir ráð fyrir að það sé litið á þennan þátt í þessu kjördæmi og það séu metin efnahagsleg og félagsleg áhrif stórframkvæmda á borð við þessar á framgang mála í fjórðungnum og framfarir almennt.

Það er eðlilegt að Byggðastofnun komi inn í þennan þátt eins og till. gerir ráð fyrir, því að það verður að telja eðlilegt verkefni stofnunarinnar að meta þessi félagslegu og efnahagslegu áhrif. Það er ekki um neitt vantraust á Vegagerð ríkisins að ræða þó að Byggðastofnun sé tekin inn í.

Það hafa verið fleiri tillögur á ferðinni um þetta mál, en þær hafa verið á landsvísu. Þær eru góðra gjalda verðar og öll umræða um þessi stóru mál í samgöngumálunum er nauðsynleg og þarf að vanda þennan undirbúning sem mest þegar horft er yfir lausnir til lengri tíma.

Það er oft talað um að stórframkvæmdir í vegagerð komi fáum að haldi og það er oft verið að tala um að það séu lagðar brýr og byggðir dýrir vegir fyrir örfáar hræður og eru menn þá að tala um fólk sem býr í hinum dreifðu byggðum þegar þannig er talað. Það er þannig þegar litið er yfir málin að vegaframkvæmdir í landinu þjóna öllum landsmönnum en ekki aðeins þeim sem búa við vegarendann. Það kemur berlega í ljós þegar þessar framkvæmdir eru búnar og þegar stórvirki hafa verið unnin á þessu sviði.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira, vona að þessi tillaga fái þinglega meðferð og verði afgreidd frá hv. Alþingi því að ég tel hana mjög til bóta.