30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram í sambandi við gildi íþrótta og þarf ekkert við það að bæta. Ég fagna þessari tillögu og tel hana hafa sitt gildi og það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. suma sem hér hafa komið fram að vera að finna að því að stjórnarþm. flytji þarfar ábendingar til Alþingis í sambandi við veigamikil mál.

En það sem kom mér til að standa hér upp var í sambandi við Íþróttasjóðinn, vegna þess að menn voru með duldar meiningar um það hvernig staðið væri að þeim málum. Ég vil aðeins minna á það í þessari umræðu að við 1. umr. fjárlaga, sem fór hér fram í haust, lýsti ég þeirri skoðun minni að það væri ekki tímabært að leggja Íþróttasjóð niður og ég lagði til að hann yrði áfram en kæmi til greina að sveitarfélögin tækju sinn hlut til sín þannig að Íþróttasjóður yrði áfram eingöngu til styrktar íþróttahreyfingunni í heild í landinu. Þetta held ég að sé nauðsynjamál og ég get sagt það hér og nú að ég mun vinna að því í fjárlagagerðinni, og hef þegar tilkynnt það, að þessi stefna verði ofan á. Ég tel að það væri glapræði að leggja Íþróttasjóð niður. Hann gegnir það viðamiklu hlutverki. Þó að hann hafi ekki skilað hinum ýmsu íþróttafélögum stórum fjárhæðum á hverju ári þá er hann viss tryggingarsjóður fyrir íþróttastarfsemina í landinu, enda var hann á sínum tíma lögleiddur með það í huga að efla íþróttir meðal landsmanna og það hefur sannarlega tekist, eins og margir hafa tíundað hér. Þess vegna er ástæðulaust að rífa niður það kerfi sem hefur skilað jafnjákvæðum árangri og Íþróttasjóður hefur gert.

Ég tel að Alþingi Íslendinga hafi í gegnum Íþróttasjóð mesta möguleika til þess að halda áfram því uppbyggingarstarfi og brautryðjendastarfi sem íþróttahreyfingin hefur í okkar landi. Þess vegna vildi ég láta það koma fram að fjárlögin verða ekki afgreidd öðruvísi en formleg tilraun og tillaga verði gerð um það að Íþróttasjóður starfi áfram.