30.11.1987
Sameinað þing: 24. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

139. mál, könnun á mikilvægi íþrótta

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég missti að hluta af ræðu hv. frummælanda fyrir þessari till. en heyrði þó að hann var að vekja vonir um að það fengist veruleg leiðrétting á framlögum til íþróttastarfsemi í landinu við afgreiðslu þess fjárlagafrv. sem nú er til meðferðar hér á Alþingi. Ég ætla að vona að þessi orð hv. þm. gangi eftir. Ég ætla að vona að þar verði eitthvað sem máli skiptir á ferðinni og þökk sé honum sem öðrum sem leggja þar sitt af mörkum.

Ég ætla ekki að munnhöggvast við hv. þm. frekar um það sem gerst hefur í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það blasir við hverjum manni. Mótmælin dynja yfir utan af landsbyggðinni og af öllu landinu gegn þeim breytingum sem gerðar hafa verið af stjórnvöldum í sambandi við tekjutilfærslu frá ríkissjóði til sveitarfélaga, niðurlagningu Íþróttasjóðs og skerðingu þeirra bráðnauðsynlegu framlaga sem þar er um að ræða. Kannski er það leiðrétting á því sem við eigum von á að sjá af hálfu meiri hl. fjvn. og ráðandi meiri hluta hér á Alþingi. Batnandi mönnum skal best að lifa þar sem annars staðar og við eigum eftir að sjá hvað eftir gengur.

Ég vildi aðeins nefna það að þessum málum hefur oft verið hreyft hér á hv. Alþingi á undanförnum þingum. Einn af þeim sem fluttu tillögu um skipulegan stuðning hins opinbera við ungmenna- og íþróttahreyfinguna fyrir fáum þingum var hv. þm. Helgi Seljan ásamt tveimur öðrum þm. sem fluttu mál á 107. löggjafarþinginu um þetta efni. Því miður hlaut sú tillaga þá ekki þann stuðning sem vert hefði verið að mínu mati en hún fjallaði efnislega um ekki ósvipaða þætti og hér er rætt um nema þá með markvissari hætti þar sem gert var ráð fyrir stuðningi við fjöldahreyfingar á þessu sviði og samstarfi við fjöldahreyfingar í íþróttastarfi.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vil ég aðeins segja að ég tel að það sem skiptir allra mestu fyrir íþróttastarfsemi í landinu sé að bæta aðstöðu til almenningsíþrótta. Ég ætla ekki að vanmeta það sem gert er í sambandi við keppni og keppnisaðstöðu. Vafalaust getur slíkt virkað hvetjandi og á fullan rétt á sér að skapa kappsömum ungmennum aðstöðu til þátttöku og þau hafa sýnt það, íslensk ungmenni, að þau eru gjaldgeng á alþjóðamælikvarða. Hitt skiptir þó mestu fyrir þjóðina sem heild að hún hafi aðstöðu til þess að rækta heilbrigðan líkama með þeim sálarbótum sem því fylgja. Að menn hafi þar greiðan aðgang og geti tekið þátt í íþróttastarfi, almenningsíþróttum með tilliti til sinna aðstæðna, helst án þess að það þurfi að ganga inn í mjög stífan stundaramma. Ég nefni þar sundið sem dæmi þar sem aðstaða víða á landinu, engan veginn þó alls staðar, er með þeim hætti að fólk getur eftir aðstæðum tekið þátt í sundiðkun. Ég nefni aðstöðu til skíðaiðkana sem víða fer batnandi á landinu þar sem almenningi skapast slíkir möguleikar. Og vegna þess sem vikið er að af hv. flm. um aðstöðu kynja í þessu sambandi þá held ég að það skipti kannski ekki minnstu máli fyrir konur í landinu einmitt að skapa slíkar sveigjanlegar aðstæður vegna þess hvernig þeirra skyldustörfum er háttað.

Ég vænti þess svo að þessi umræða ásamt flutningi verði til þess sem flm. og meðflm. eflaust stefna að. Og ég bið hann að vanvirða ekki þá gagnrýni sem hér hefur fallið af minni hálfu á bakgrunn þessa máls, það á ekki við góðan hug sem ég efast ekki um að búi að baki þessum tillögum.