19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Sigurðsson:

Eg held sannarlega ekki að ræða mín áðan gæti gefið tilefni til stórrar roku og ónota frá háttv. þm. Dalam. (B. J.) og N.-Ísf. (Sk. Th.), svo sem þó er raun á orðin, og meir en það.

Eg hef haldið því fram, að heppilegast væri að fresta atkvgr. um brt. þm. Dal. að þessu sinni, og samþykkja ekki neitt um tillag til símalínanna, fyr en það mál er betur athugað og undirbúið af fjárlaganefndinni.

Hér er um tvent að ræða, hvort landssjóður á að kosta allar símalínur undantekningarlaust, eða hvort á að heimta tillag til sumra þeirra. Og ef svo er, þá er spurningin um það, hvað eiga að vera aðallínur og hvað aukalínur. Eg er hræddur um, að meiningarnar verði nokkuð deildar um það, hvaða línur landssjóður á að kosta að öllu leyti, og til hverra á að heimta tillag úr héruðunum. Eg held að það sé full ástæða til þess, að fjárlaganefndin fái tíma til að átta sig á þessu máli, því að öðrum kosti er eg hræddur um að það geti orðið stríð á milli manna um þetta atriði. Þetta mál verður því að athuga betur, og koma sér niður á fastri undirstöðu í þessu efni.

Með allri virðingu fyrir fjármálapólitik háttv. þm. Dalam., (B. J.) þá álít eg að það verði kostnaðarsamt fyrir landssjóð, að kosta símalínu heim á hvern bæ. Eg fæ því ekki betur séð, en að það eina rétta í þessu máli sé að fresta ákvörðunum um þessa till. þm. Dal. að þessu sinni, og bíða þess, að málið sé betur athugað.