20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Sigurðsson:

Eg á hér br.till. á þgskj. 273, um að hækka skáldstyrk Þorsteins Erlingssonar úr 800 kr. upp í 1200 kr. Eg sé, að annar háttv. þm. hefir lagt til að hækka styrkinn upp í 1500 kr., og er eg fyrir mitt leyti samþ. því, en mín till. verður þá varatill.

Eg þarf ekki að tala langt mál fyrir þessari till.; maðurinn er svo vel kunnur, að þess er er ekki þörf. Hann hefir unnið bókmentum vorum hið mesta gagn og sóma, svo að fyrir það má skipa honum á bekk með öndvegisskáldum þessa lands. Af öllum skáldum í seinni tíð ber sá maður að rímlist og ljóðsnild. Hann hefir og manna bezt stuðlað að því, að glæða frelsishugsjónir þjóðarinnar. Um stöðu hans er það að segja, að hann hefir orðið að verja tíma sínum til þess að vinna fyrir sér, eins og hann segir sjálfur. Þetta hefir dregið frá því, að hann fengi notið gáfu sinnar. Nú er hann kominn á sextugsaldur og er þá ekki líklegt, að mörg séu starfsárin eftir. Það má því ekki dragast lengur, að hann fái viðunanlegan styrk. Háttv. fjárlaganefnd hefir ætlað öðru skáldi, sem er líka góðs maklegur, 1200 kr. styrk; mér þótti því rétt að leggja til, að þeir væru jafnir. Eg er sannfærður um, að háttvirt þingdeild muni vera ljúft að veita þennan styrk manni, sem jafndýran skerf hefir lagt til bókmenta landsins sem Þorsteinn Erlingsson.