20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Eg vildi leyfa mér að fara fáeinum orðum um Flensborgarskólann og nafnið á umsjónarmanni fræðslumálanna.

Það vill nú svo vel til að hæstv. ráðh. og þm. Vestm. (J. M.) hafa talað móti Flensborgarskólanum, og eins og venja er til alveg í sama anda, og þarf eg því ekki að svara nema öðrum þeirra og vil eg sérstaklega beina orðum mínum til háttv. þm. Vestm. (J. M.).

Það er rétt, sem þm. sagði, að það er stefnumunur milli okkar um það, hvernig líta eigi á umsjónarmann fræðslumálanna. Eg verð að líta svo á, að hann eigi að vera ráðunautur stjórnarinnar og almennings í fræðslumálunum, en háttv. þm. Vestm. (J. M.) álítur að hann eigi að vera sem mest leystur frá því að vera ráðunautur. Í þessu er stefnumunur okkar fólginn. Það er eins ástatt með fræðslumálastjórn og t. d. verkfræðingana, að þeir eiga að vera stjórninni til aðstoðar og gefa henni ráð og leiðbeiningar, og geta því verið lausir við bréfaskriftir og skrifstofustörf, það er hlutverk stjórnarinnar að annast það. Mér finnst því eiga mjög vel við, að hann í fjárlagafrumv. sé kallaður fræðslumálaráðunautur og áleit að það sé rétt nafn.

Hæstv. ráðh. tók það fram að Flensborgarskólinn væri prívatskóli. Eg veit ekki, hvað hann skilur við prívatskóla. En eg lít svo á, að prívatskóli sé aðeins sá skóli, sem stofnaður er og rekinn eftir höfði einstaks manns og á hans eigin ábyrgð. Með þennan skóla stendur öðruvísi á. Skólinn er að vísu stofnaður af einstökum manni, sem gaf til hans stórfé, en setur það jafnframt í gjafabréfið, að landshöfðinginn — nú landsstjórnin — skuli hafa yfirumsjón hans og eftirlit, felur henni hann með öðrum orðum. Hann er því í rauninni opinber skóli með þeirri breyting einni, að það er skólanefnd í Hafnarfirði, sem stýrir honum undir umsjón stjórnarinnar. Nú er að gæta að því, hvernig þetta fyrirkomulag hefur hepnast. Kostnaður við þennan skóla er nálægt ½ af því, sem samskonar landsjóðsskóli hefir kostað. Nemendur jafn margir og jafn færir, með öðrum orðum skólinn eins vel sóttur. Sá er ennfremur munur á þessum skólum, að hæstu laun kennara í Flensborg eru 1700 kr. en hæstu laun á samskonar landsjóðsskóla 3000 kr., og auk þess hefir landsjóður litlu kostað til byggingar í Flensborg, en að öllu leyti kostað byggingu landsjóðsskólans. Eg get ekki betur séð en að þetta sýni, að fyrirkomulagið sé hið æskilegasta fyrir landið.

Nú er beðið nákvæmlega um þá upphæð, sem skólinn þarf til reksturs og tæplega þó.

Háttv. þm. Vestm. (J. M.) sagði, að það mundi fljótlega hækka, en eg býst ekki við, að sú tilgáta hans rætist, því húsrúmið leyfir ekki að fleirum nemendum sé veitt móttaka en nú eru þar. Sami háttv. þm. sagði einnig, að skólinn væri nú lítils virði. Hvað meinar hann með því? Hús eða kennslu? Húsið er nýtt og núverandi skólastjóri hefir kennt þar lengi, og alt af haft almennings orð fyrir að vera ágætis kennari. Þetta er því ekki rétt, sem þm. segir. Hann leggur áherzlu á það, að koma skólanum undir stjórn landsstjórnarinnar, þrátt fyrir það, þótt eg hafi sýnt fram á, að hann hefir þó orðið mjög mikið ódýrari en Möðruvallaskólinn, sem alt af hefir staðið undir stjórn landsstjórnarinnar.

Sami háttv. þm. sagði, að réttara væri að hækka styrk E. Hjörleifssonar ekki upp í 1200 kr., heldur upp í 1500 kr. svo hann gæti þá starfað sem skáld, fyrir lægra styrk væri það ókleyft fyrir hann. Eg er alveg á sama máli, en hann fann ekki ástæðu til að hækka styrk Þ. Erlingssonar, með því hann hefði ekkert ort síðustu árin. Þetta virðist benda á nokkuð mikið ósamræmi í þankagangi háttv. þm. Ef ekki er hægt að ætlast til að E. H. eða hver annar geti gefið sig verulega við skáldskap með minni styrk en 1500 kr., þá hlýtur það að gilda eins um Þ. E. Og ekki er þó léttara að yrkja í bundnu en óbundnu máli, allra sízt þegar ort er með jafnmikilli vandvirkni og Þ. E. gerir. Hann hefir nú orðið að vinna frá morgni til kvelds fyrir daglegu brauði, en það er ekki alt af hægt að fara beina leið frá daglegu sljóvgandi kennarastarfi og setja sig niður við skáldskap. Þeir, sem eitthvað til skáldskapar þekkja, vita að ekki er hægt að yrkja vel, eins og Þ. E. gerir, nema tækifærið sé notað, þegar það býðst til að yrkja. Og vanheilsa getur oft valdið því, að menn geti ekki bæði ort og unnið eins og þræll að öðrum störfum.

Eg stend hér á brt., sem fer fram á að styrkur sé veittur til Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri. Það er maður, sem eg álít styrks maklegan, þegar sú stefna er tekin að styrkja einstakan mann í hverri grein. Af því vér höfum fáa menn, sem hafa hæfileika í þessa átt — uppgötvunaráttina — þá er ilt ef þeir fá ekki notið sín vegna fjárskorts og þekkingarleysis. Maður þessi hefir starfað að því að uppgötva, og fundið upp ýmislegt, sem er markvert. Eg vil leyfa mér að benda á fátt eitt. — Ein uppgötvun hans er fólgin í því, að sé rafleiðsla í húsi, þá er hægt að láta bjöllu segja til í svefnherberginu eða hvar sem vill í húsinu, ef hitastig breytist. Þetta hefir mikla þýðingu, t. d. ef kviknar í húsinu, þá hringir bjallan og vekur fólkið, eg hef séð hana verka í hita frá 18—40° R. og tókst ágætlega.

Önnur uppfundning hans er í því fólgin, að hægt er að láta orgel eða píanó rita alt upp, sem spilað er á hljóðfærið, og það nákvæmlega, með lengd nótna og taktstrikum. Þetta er uppgötvun, sem ekki er þekt í heiminum, að því er eg veit bezt, en hefir þó mjög mikla þýðingu, t. d. fyrir kompónista. Ennfremur hefir hann fundið upp taktkvísl, sem er mjög handhæg.

Nú nýlega hefir hann fundið upp áhald, til þess að ef hestar fælast fyrir vagni, að þá megi losa þá strax frá vagninum.

Maðurinn er stórgáfaður í þessa átt en bláfátækur barnamaður, sem getur ekki gert sér peninga úr uppfundningum sínum hér heima.

Hann fer því fram á að fá styrk til utanferðar, og það sýnist sannarlega ekki nema sanngjarnt, þótt hann fengi hann, þegar hæfileikarnir eru svona góðir.