24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Magnús Blöndahl:

Eg get ekki látið umr. um þessar greinar fjárlaganna ganga svo fram hjá mér, að eg minnist ekki á einstaka pósta.

Eg get búizt við því, að sumum hv. þingdm. sé sárt um sumar till. sínar, sem eg get þó ekki varist að segja, að lýsi, sumar hverjar, allmikilli ágengni á landssjóð. Það er líkast því sem sumum mönnum þyki aldrei skorin nógu breið ræma af hrygglengju landssjóðs.

Af þessum upphæðum skal eg fyrst snúa mér að styrkinum til smjörbúanna. Eg verð að halda því fram fyrir mitt leyti, að tími sé kominn til þess að nema þessa fjárveitingu algerlega burtu. Þessi styrkur var í öndverðu veittur í því skyni að örfa bændur til smjörgerðar. Það er hvorttveggja, að tilgangurinn var góður, enda hefir þetta gefist vel. En nú er smjörframleiðslan orðin svo mikil og arðvænleg, að engin ástæða er til, að styrkurinn haldist lengur, og sízt að hann fari hækkandi. Það er ekki nema sanngjarnt, þegar litið er á aðra staði í fjárlögunum og athugað hvílíkar fúlgur landbúnaðurinn fær úr landssjóði. því enginn atvinnuvegur annar á landi hér kemst þar í námunda við. Menn munu, ef til vill, segja, að þessi atvinnnvegur gefi landssjóði svo mikið í aðra hönd. En það er hin mesta fjarstæða. Eg get sýnt það með órækum tölum, að landbúnaðurinn fær meira úr landssjóði en nemur því, sem hann gefur af sér í landssjóð. Eg er viðbúinn að sýna það, ef nokkur mótmæli rísa gegn því, sem eg hefi sagt.

Þá verður fyrir mér 15. liður á atkvæðaskránni. Þar leggur nefndin til, að styrkur til verzlunarskólans verði færður úr 5000 kr., sem stjórnin hefir lagt til að hann verði, niður í 3000 kr. Mér er ekki fyllilega ljóst, af hverri ástæðu nefndin leggur þetta til. Það má með sanni segja, að verzlunarstétt þessa lands hefir ekki verið gert hátt undir höfði með fjárframlög hingað til, enda hefir sú stétt ekki borið sig mikið eftir fé úr landssjóði. því sanngjarnara er að verða við slíkri beiðni, ekki sízt þar sem skólinn er að allra áliti ein hin þarfasta stofnun og getur fyllilega mælt sig við hverja aðra mentastofnun á þessu landi. Svo miklar byrðar ber þessi stétt, að sanngjarnt er að veita nægilegt fé til þessa skólahalds.

Þá verður fyrir mér viðaukatill. á þgskj. 266, sem fer fram á að veita 500 kr. styrk til afborgunar á verkfærum til að gera við skilvindur. Mig stórfurðar á því, að hreppapólitikin skuli ganga svo vítt, sem hér er rann á orðin. Eg hefði ekki trúað nokkurum manni til þess að flytja slíka beiðni fram á alþingi Íslendinga. Það er engu líkara en að menn, sem slíkar till. flytja, skoði landssjóð sem nokkurs konar ölmususjóð, sem hver einstaklingur geti hlaupið í þegar hann langar til. Eg skal ekki dvelja lengur við þennan lið, því að eg tel sjálfsagt, að hann verði skorinn niður hér í deildinni.

Þá skal eg snúa mér að lánveitingunum og verður fyrst fyrir till. um lánveitingu til Sláturfélags Suðurlands. Það getur vel verið, að þessi lánveiting sé sanngjörn í alla staði, eg skal ekki um það dæma; en kynlega kemur mér það fyrir, að jafnmargar sýslur og hér eiga hlut að máli skuli ekki geta fengið sér þessa upphæð á annan hátt.

Í þessu sambandi get eg ekki varist að minnast á breyt.till. á þgskj. 288, um að veita kaupfélaginu Ingólfi 60 þús. kr. lán. Það liggur við, að maður fari að hætta að skilja, hver takmörkin eru fyrir því að lán verði veitt úr landssjóði, ef slík till. nær fylgi hér. Ef kaupfélög geta ekki lifað án þess að landssjóður hlaupi undir bagga með þeim, þá held eg, að þau hafi engan rétt til þess að lifa (Jón Ólafsson: Heyr). Að minsta kosti er full ástæða til að rannsaka vel ástand og efnahag félagsins, áður en slík lánbeiðni er veitt.

Loks er viðaukatill. á þgskj. 256 um að bændum verði veitt 20 þús. kr. lán úr viðlagasjóði til þess að kaupa girðingarefni. Frá mínu sjónarmiði er hinu sama að gegna um þessa lánbeiðni sem aðrar þær, er eg hefi vikið á. Ef þetta mál er nauðsynlegt ættu bændur að geta fengið lánið hjá bönkunum hér. Búskapur landssjóðs er ekki svo góður, að hann geti veitt slík lán. Eg held, að full ástæða sé til að fara varlega í þessu efni og reynandi sé að afla sér fjár á einhvern annan hátt.

Að svo stöddu skal eg ekki tala meira um þessi efni, en geymi mér rétt til þess að svara þeim mótmælum, sem eg get búist við að verði hreyft af þeim þgm., sem riðnir eru við þau atriði, sem eg hefi nú talað um.