05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Stefán Stefánsson (6. kgk.):

Flestum mun það ljóst vera, að það sé með öllu árangurslaust að standa hér og halda langar ræður í þessu máli, svo er því nú komið. Enda verð eg að taka undir með skáldinu:

»Mjök esumk tregt

tungu at hræra

ok loptvægi

ljóðpundara«.

Því nú sé eg fyrir örlög þessa máls um óákveðinn tíma, þess máls, sem hefir verið og er mér hjartfólgnast allra mála, sem eg hefi um fjallað. Eg sé að því er nú teflt í það óefni, að litlar líkur eru til, að úr því muni vel rætast í bráð. Engu að síður get eg ekki með öllu orða bundist. Eg ætla mér ekki að fara að rekja sögu sjálfstæðismálsins, hvorki hinn fyrri þátt hennar né hinn síðari. Það hefir verið gjört allrækilega, og nú síðast af háttv. framsögum. minni hlutans. Að eins ætla eg mér að benda á það meðal annars, að frumherjar sjálfstæðismálsins með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar ætluðust ekki til, að Ísland yrði ríki, og því síður fullvalda ríki. Hrein personalunion var fjarri huga Jóns Sigurðssonar, og það var því ekki rétt hjá háttv. framsögum. meiri hlutans, að »Íslendingar hafi haldið því fram um langan aldur, að Ísland væri sjálfstætt ríki«. Og meðan vér vorum sjálfstætt ríki vorum vér aldrei nefndir annað en land.

Stjórnarskipunarfrumvörpin 1867 og 1869, sem Jón Sigurðsson samdi og samþykti, byrja bæði á því, að »Ísland er óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum«; þessi setning verður svo eins og kunnugt er 1. gr. stöðulaganna, og þessari grein stöðulaganna var ekki mótmælt sérstaklega á þinginu 1871. Lögunum var mótmælt formsins vegna, og hinum sérstöku greinum þess efnisins vegna, nema 1. gr.; við hana fann Jón Sigurðsson og hinir aðrir ágætismenn, er málið höfðu með höndum, ekkert athugavert. Þess var heldur ekki að vænta, þar sem þeir höfðu á tveim undanförnum þingum beðið hans hátign konunginn að samþykkja þessa réttarstöðu landsins. Eg hefi bent á þetta af því að eg man ekki til að það hafi verið gjört í umræðunum um þetta mál.

Sú krafa, að Ísland verði viðurkent sjálfstætt ríki er ný. Það er eftir því sem eg frekast veit Guðmundur læknir Hannesson, sem fyrst hreyfir henni í alvöru í blaðagreinum í »Norðurlandi« og ræðum á fundum á Akureyri.

Á fundi, sem haldinn var um borð í »Botnia« í þingmannaförinni 1906 hélt eg því fram, að þessi ætti að vera meginkrafa vor. Blaðamannaávarpið, sem kom þá út um haustið, ber það með sér, að þeim mönnum er það sömdu er þetta ekki fullljóst, að minsta kosti ekki öllum. Blaðið »Ísafold« sagði t. d. berum orðum, að orðið land væri viðhaft, af því ekki væri til ætlast að Ísland yrði sérstakt ríki. Ávarpið hefir nú verið skýrt öðru vísi síðan, en það var fyrst í skýringargrein, sem birtist í »Norðurl.« rétt eftir að ávarpið kom út, að því var slegið föstu, að í ávarpinu felist krafa um það, að Ísland verði viðurkent frjálst og óháð sambandsland eða sambandsríki við Danmörku. — Þar er svo að orði komist eftir að hin einstöku ákvæði ávarpsins hafa skýrð verið: »Ísland er frjálst og óháð sambandsland Danmerkur og lúta löndin sama konungi. Í sambandslögum er bæði löndin samþykkja og væntanlega verða samin eftir tillögum fulltrúa, sem kosnir eru af alþingi Íslendinga og ríkisþingi Dana, skal ákveðið, hver mál

skuli vera sameiginleg fyrir bæði löndin, hvernig haga skuli stjórn þeirra og hvernig beri að jafna ágreining milli landanna. Í öllum öðrum málum eru Íslendingar einráðir með konungi um löggjöf sína og stjórn, án nokkurrar íhlutunar af hálfu Dana eða hins danska ríkisráðs.

Á þessa leið hefðum vér óskað að meginatriði ávarpsins hefðu verið orðuð. Með þessum skilningi á efni þess og anda höfum vér undir það ritað í því trausti og með þeirri von, að starfsbræður vorir, sem undir því standa, hopi eigi frá þeim sjálfstæðisgrundvelli, sem hér er markað fyrir.

Fáist þessu framgengt, verður samband landanna ljóst og einfalt, í stað þess að það er nú óskýrt og flókið og á röngum grundvelli bygt«.

Og þessu, sem þarna er tekið fram í fám orðum, höfum við eða réttara sagt getum við fengið framgengt, með því að samþykkja sambandslagafrumv. stjórnarinnar, með skýringarbreytingum þeim, sem vér leggjum til að gjörðar verði á því.

Í þessu frumv. erum vér viðurkendir frjálst, sjálfstætt ríki í sambandi við Danmörku um einn og sama konung í því málefnasambandi, er ríkin hafa komið sér saman um af frjálsu fullveldi sínu. Þetta er margsýnt og sannað, svo ekki verður á móti mælt með rökum, og nú síðast af háttv. framsögumanni minni hlutans.

Þetta, sem hvert einasta mannsbarn á Íslandi þráði og þótti eftirsóknarvert fyrir nokkrum mánuðum, því ætlar nú meiri hluti fulltrúa þjóðarinnar að hafna, fyrir þá sök eina, að vér fáum ekki að þeirra dómi með frumv. þessu þann rétt fullan er oss beri eftir fornum skjölum og skilríkjum, og svo framarlega sem vér samþykkjum þetta frumvarp takist oss aldrei að eilífu að ná þessum rétti.

Þeir aftaka með öllu sjálfir, sjálfstæðismennirnir okkar, að stíga þetta skref fram á við að sjálfstæðismarkinu, vegna þess að með því sé markinu ekki alveg náð. — Af því að þeir ná ekki hæsta tindinum í einu stökki, þá eru þeir ófáanlegir til að stíga upp að hátindunum og kjósa heldur að standa kyrrir í sömu sporum, »standa fast við status quo og stöðulögin kæru«, eins og þar stendur, horfa þaðan aftur langt aftur í aldir og rýna sig rauðeygða á gömlum sáttmálum og sammælum, þangað til þeir missa sjónar á því sem næst er, og miða alt við það sem var eða þeir álíta að verið hafi, en ekki við ástandið eins og það er.

Eins og þegar hefir verið sýnt, er það sem hér er í boði langtum meira en það, sem okkar einbeittustu, vitrustu og ágætustu sjálfstæðismenn, t. d. Jón Sigurðsson, nokkru sinni hafa farið fram á, og langsamlega miklu meira en það, sem vér nokkru sinni höfum átt kost á áður.

Fyrir hjálenduréttleysi stöðulaganna fáum vér með frumv. rétt frjáls og óháðs ríkis.

Eftir frumv. er réttur vor meiri í raun og veru en hann hefir nokkru sinni áður verið síðan landið gekk undir konung. Þessu verður ekki mótmælt. Þótt nú svo væri álitið, að vér værum ekki fyllilega sjálfstæðir eftir frumv., þá ber þess fyrst og fremst að gæta, að það getum vér aldrei orðið með sáttmálum einum og lögum; en sú fullyrðing meiri hlutans, að vér stöndum ver að vígi að ná rétti vorum öllum síðar meir, ef vér samþykkjum frumv., er fjarri öllum sanni, og skal eg reyna að færa þessum orðum mínum stað.

Nú erum vér eins og allir vita ómótmælt af oss óaðskiljanlegur hluti Danaveldis.

Á þessari meginsetningu hvílir öll vor stjórnarskipun. Með ríkisráðsákvæðinu í stjórnarskránni höfum vér beinlínis játað, að vér værum hluti danska ríkisins. Með því að hafna frumvarpi stjórnarinnar og kjósa heldur hið núverandi réttarástand, hina núverandi réttarstöðu, staðfestum vér þetta enn betur.

Ef vér svo síðar meir leitumst við að fá þessu breytt, liggur þá ekki beint við að Danir svari oss því, að vér hefðum ekki viljað breytingar þegar oss buðust þær; þá hefðum við heldur kosið »status quo« og stöðulögin. Og það myndi ekki duga þá að vitna til þess, að þingið hefði jafnframt samþykt frumvarp, þar sem fylstu sjálfstæðiskröfum Íslendinga væri haldið fram, því allir hafi vitað, að þetta var að eins krókaleið til þess að hafna því sem var fáanlegt, þar sem það var vitanlegt, að hinn aðilinn var með öllu ófáanlegur til þess að ganga að hinu samþykta frumvarpi.

Færum við að leita fulltingis hjá öðrum þjóðum, myndum við enga áheyrn fá, því það yrði skoðað sem móðgun við Dani, að láta innanríkismál þeirra að nokkru til sín taka, og vér yrðum skoðaðir sem uppreisnarmenn, þar sem vér yrðum að teljast danskir þegnar. Sama yrði uppi á teningnum ef við reyndum að losa okkur með valdi. Þessi verður aðstaða vor framvegis með »status quo«, eða meðan vér erum í stöðulagahaftinu, því það má öllum ljóst vera, að Danir þurfa aldrei að slaka neitt til. Frjálsir samningar við þá er eina færa leiðin.

En nú er að líta á hver aðstaða vor verður til þess að fá rétt vorn að fullu viðurkendan síðar meir, ef vér samþykkjum frumvarp stjórnarinnar með breytingum minni hlutans. Eftir því verðum vér viðurkendir frjálst sjálfstætt ríki við hliðina á Danmörku, samkvæmt frjálsum samningi, er vér getum krafist endurskoðunar á að 25 árum liðnum. Ef samningar takast þá ekki, getum vér að lögum sagt þeim upp meðferð allra hinna sameiginlegu málanna að konungi, hervörnum og utanríkismálum undanskildum. En ekkert er því til fyrirstöðu, að vér getum þá samið svo við Dani um þessi mál, að vér megum vel við una. — Alt mælir með því, að hægra verði þá að komast að hagkvæmari samningum en nú, en ekkert mælir á móti því. Búast má við að Danir vilji þá, engu síður en nú, hafa sambandsmálin sem flest. Þeim mun þá, engu síður en nú, verða sárt um að missa ýmis af hinum uppsegjanlegu málunum; t. d. skal eg nefna fæðingjaréttinn, myntina og síðast en ekki sízt fiskveiðaréttinn. Síðasta atriðið hefir hagsmunalegt gildi; hin eru svo vaxin, að þau eru gott ríkisheildartákn.

Sjá nú ekki allir, sem opin hafa augun, að hægra muni verða þá að fá Dani til að fara að okkar vilja um þau tvö málin, sem ekki eru að lögum uppsegjanleg, þegar við getum haldið fram sambandssliti í hinum málunum, heldur en nú, þegar engu slíku er til að dreifa; við höfum ekkert slíkt »tromf« á hendinni. Í öðru lagi ættum vér þá að vera orðnir meira að manni en nú, svo vér gætum blygðunarlaust og með fullri einurð kveðið að kröfum vorum, og þyrftum ekki eins og nú að bera kinnroða fyrir fæð, fátækt og vesaldóm í nálega öllum greinum.

Að síðustu enn það, sem ekki er minst um vert, að við erum þá búnir að vera viðurkendir sem sjálfstætt ríki í heilan mannsaldur. Ef við förum viturlega að ráði okkar, ætti sá tími að nægja til þess, að afla íslenzka ríkinu virðingar meðal annara þjóðríkja og þeirrar viðurkenningar, að vér verðskuldum að vera sérstætt og sjálfstætt ríki, verðskuldum að njóta friðar og eigum skilið að njóta verndar hins mentaða heims. Alt þetta, sem nú hefir nefnt verið, styður að því, að vér komumst að enn betri kostum næst, þegar sambandslögin verða endurskoðuð, en nú varð raun á, svo framarlega sem vér þá æskjum eftir nokkrum verulegum breytingum. Um það verður engu spáð. Fari vel á með oss og Dönum, er ekki ástæða til að breyta öðru en því, sem lagað verður eftir breyttum ástæðum og kröfum tímans.

En þó vér nú sleppum öllu þessu, og lítum aðeins á reynslu sjálfra vor í sjálfstæðisbaráttunni, bendir hún ótvíræðlega í þá átt, að frumvarpið sé stórt skref fram á við að sjálfstæðismarkinu, og að vér eigum að stíga þetta skref, þótt það jafnvel væri nokkru styttra en vér vildum. Hvar stæðum vér nú, ef vér hefðum neitað að taka við stjórnarskránni 1874, af því að hún var bygð á stöðulögunum og að ýmsu leyti frábrugðin því, sem margoft hafði verið farið fram á af alþingi? Hvar stæðum vér nú, ef vér hefðum neitað stjórnarskrárbreytingunni 1903 vegna ríksráðsákvæðisins, sem því miður verður að skoðast sem bein viðurkenning þess, að landið sé partur af danska ríkinu, bein viðurkenning þess, að það sé óaðskiljanlegur hluti Danaveldis með sérstökum landsréttindum ?

Já, hvar stæðum vér?

Í fám orðum verður því ekki svarað. En óhætt er að fullyrða, að ótal margt af því, sem framkvæmt hefir verið hér á landi síðasta mannsaldur, væri þá ógert, og hagur okkar allur á annan veg.

Þó margt megi segja um fjárstjórn vora, þá er það þó fjárforræðinu að þakka, hvað vér höfum komist úr kútnum síðustu áratugina. Af því vér tókum við stjórnarskránni og breytingum á henni 1903, sendum vér nú lög frá alþingi, en ekki frumvörp, þegnsamleg álitsskjöl og auðmjúkar bænarskrár. Og fyrir þá sök höfum vér nú ráðherrastól hér í salnum, og á honum íslenzkan ráðherra, búsettan hér á landi, og með fullri ábyrgð fyrir þinginu. Og loks, hefðum við hafnað öllu þessu, af því vér vorum ekki alls kostar ánægðir með það, þá hefðum vér nú ekki í höndum frumvarp til laga um samband Danmerkur og Íslands, sem valdir menn af báðum þjóðum hafa samið og orðið ásáttir um, þar sem jafnrétti vort við Dani er viðurkent, Ísland, hjálendan, sem Danir töldu 1871 að þeir mættu fara með eftir vild, viðurkent sérstakt ríki með fullveldi yfir öllum sínum málum.

Er nú nokkurt vit í því, með þessa reynslu að baki, að stíga nú ekki þriðja og stærsta sporið fram á við að sjálfstæðismarkinu, þó vér verðum, sökum vanmáttar vors, að láta Dani fara með nokkur mál vor um óákveðinn tíma, sem vér ekki í bráðina erum færir um að hafa sjálfir með höndum? Hagurinn er þar allur okkar megin.

Það sem oss þótti áfátt við stjórnarskrána 1874 og stjórnarskrárbreytinguna 1903 er nú fáanlegt.

Liggur þá ekki nærri að halda, að það sem oss þykir að fyrirkomulagi því, sem hér er í boði, muni lagast er stundir líða, — muni lagast í fyllingu tímans, þegar oss er vaxinn svo fiskur um hrygg, bæði efnalega, siðferðislega og pólitískt, að vér verðum færir um að standa á vorum eigin fótum og — þegar vér erum búnir að afla oss svo mikils álits, virðingar og samúðar annara þjóða, að vér fáum, ef vér viljum, að sigla vorn eigin sjó?

Eg þykist nú hafa leitt ljós rök að því, hvílík fjarstæða sú fullyrðing er, að samþykt þessa frumvarps leiði til þess, að við náum aldrei fyllri rétti, það sé réttarafsal — slagbrandur fyrir því, að vér nokkru sinni fáum frekari réttarbætur en í því felast.

Jeg þykist hafa sýnt fram á það, að með því að ganga að frumvarpinu, stígum vér risaskref að sjálfstæðishámarkinu.

Og hvaða vit er svo í því, að stiga ekki þetta spor? Hvernig eigum vér að verja slíka fásinnu fyrir eftirkomendum vorum?

Þetta verða menn að athuga vandlega, áður en þeir greiða atkvæði á móti breytingartillögum þeim, sem minnihlutinn hefir leyft sér að koma fram með, og allar eru til bóta, þó þær geti ekki heitið efnisbreytingar á frv. stjórnarinnar, rétt skýrðu.

Menn verða að reyna að gleyma því, að mál þetta hefir illu heilli verið gert að flokksmáli, og leggja sér á hjarta, að þetta er lífsmál þjóðarinnar, sem með engu móti má draga niður í flokksdeilusorpið.

Undir úrslitum þessa máls er kominn vegur og virðing þjóðarinnar í nútíð og framtíð, allur hagur hennar andlegur og efnalegur, í einu orði: líf hennar sem sérstakrar þjóðar, saga hennar öll á komandi tíð.