01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Háttv. framsm. vísaði til mín um, að mæla fyrir fjárveitingu til Flensborgarskólans. Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hefir nú gert það rækilega. Er eg honum þakklátur og öðrum þeim háttv. þm., sem tekið hafa í sama strenginn. Þeim hefir ekki þótt hlýða að skera skólann niður við trog, þar sem hann er svo vel sóttur, eins og raun hefir á orðið, engu miður en að undanförnu. Í vetur varð að skifta annari deildinni í tvent til þess að fá rúm fyrir umsækjendur. Meiri hluti fjárlaganefndarinnar hefir einnig fallist á þessa till. Hér er líka farið fram á nokkurum hundruðum króna minna en skólinn getur minst komist af með. Það var slys, að fjárveitingin féll við 2. umr., ef eg man rétt, féll hún með 12 atkv. gegn 11. Menn munu hafa litið svo á, að skólinn væri sama eðlis sem neðri bekkir hins almenna mentaskóla, og væri því óþarft að styrkja skóla svo gott sem við hliðina á þeim skóla. Auk þess munu menn hafa ætlað, að svo strangar reglur væru um fyrirkomulag skólans, að frá þeim yrði ekki vikið. Eg tók það þó fram við 2. umr., að skólastjórnin mundi fús á að sveigja til um reglurnar að vild þingsins. Eg efast ekki um, að þótt sett væri það skilyrði t. d., að kent væri með fyrirlestrum að nokkuru leyti, jafnvel á næsta ári, þá mundi það verða auðsótt. Þetta segi eg til huggunar þeim, sem vilja ekki að kenslan sé í sömu sporum, sem kenslan í neðri bekkjum mentaskólans.

Eg veit að það hlýtur öllum að skiljast, að Flensborgarskólinn er langódýrasti skólinn, sem til er hér á landi. Nemendur mentaskólans í Reykjavík geta ekki komist af með minna fé, en 42 kr. á mánuði hverjum, en í heimavistinni í Flensborg kostar ekki nema 21 kr. um mánuðinn. Þetta er feikimikill munur, og það er einmitt þetta, hve Flensborgarskólinn er ódýr, að fjölda margir ungir og efnilegir, fátækir námsmenn ráðast í að stunda nám við þann skóla, er þeim mundi mörgum hverjum ókleyft annarsstaðar. Kvennaskólar landsins eru nemendum sínum talsvert miklu dýrari og sömuleiðis gagnfræðaskólinn á Akureyri, sem þó er heimavistarskóli, og miklu meira styrktur af landsfé.

Auk þess ber og þess að gæta, að námstíminn á Flensborgarskólanum er talsvert styttri en á hinum öðrum skólum, svo að fátækum nemendum gefst miklu betur kostur á að afla sér góðrar atvinnu, þar sem þeirra sumarleyfi er langt um lengra en annara námsmanna. Þeir geta meðal annars oft, sumir hverjir, gerst hásetar á þilskipum, sem nemendur annara skóla geta engan veginn gert, þar sem þeir losna ekki við námið fyr en í júní og júlí-mánuðum.

Það er auðsætt, að þessi skóli er eina stofnunin, sem bláfátækir námsmenn geta komist í gegnum upp á eigin hönd. Eg treysti því, að deildin taki þessu máli vel og sæmilega; það á það fyllilega skilið.

Mér þykir séra Runólfur Runólfsson hafa sætt hér í þinginu ómaklega hörðum orðum. Það ætti þó að vera nóg fyrir þingið að segja nei. Maður þessi er hniginn á efra aldur, 57 ára gamall og konan 62 ára, gersamlega biluð að heilsu. Maðurinn er eðlilega bundinn við að leita sér atvinnu í þeirri grein, sem hann hefir sérþekkngu í. Mér er kunnugt um, að hann er bláfátækur, og hefir litla atvinnu; það sem hann hefir innunnið sér er þetta frá 20—30 kr. um mánuðinn, og það er ekki mikið til að lifa af. Hann hefir unnið í Vesturheimi og tekið prestvígslu af viðurkendri lúterskri kirkjudeild og um langan aldur verið prestur í íslenzkum söfnuði meðal landa vorra vestra.

Sumir kunna nú að líta svo á, að það sé ekki þingið, heldur sveitin, sem hér eigi að taka í taumana; en ætli það mætti þá ekki segja nokkuð líkt um ýmsa menn, er á fjárlögunum standa.

Eg vona að háttv. deild skeri ekki við neglur sér þennan litla styrk.

Þá vildi eg minnast lítillega á Vestmanneyjasímann. Hann er nú orðinn nærri því eins mikið kappsmál og Rangárbrúin sæla.

Háttv. framsm. (Sk. Th.) skýrði frá, að hann vildi láta grenslast eftir, hvort ekki mæti nota loftskeytasamband til eyjanna. Eg er honum samdóma um það, og vil að síminn sé að minsta kosti strikaður út af fjárlögunum, þangað til nægilegar upplýsingar, hvað loftskeytasamband kostar, eru fyrir hendi.