20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Einar Jónsson:

Það er enn vegna Rangárbrúarinnar, að eg stend upp. Mig furðaði stórum, hvernig háttv. frsm. fjárlaganefndarinnar (Sk. Th.) tók nú í málið, þar sem hann þó ekki als fyrir löngu hér í deildinni var kominn inn á þá sanngirnisbraut, að fylgja málinu, er sýslan legði fram þennan skerf til fyrirtækisins. Háttv. framsm. (Sk. Th.) virtist leggja nokkuð mikið upp úr ástæðum háttv. Ed., og kvaðst eigi vilja standa í trássi við hana. En eg vil minna á það, að í Ed. var brúin feld með 7 atkv. móti 6, og hvernig getur háttv. framsm. óttast svo mjög að standa í trássi við 7 menn, en leggja ekkert upp úr því hinu sama við 6. Eg skoða þennan mun svo lítinn, að engin ástæða geti skapast úr honum. Mér fyrir mitt leyti finnast ástæður Ed. í nefndarálitinu harla litlar, og þar að auki hvergi nærri réttar.

Það er t. d. hvergi nærri rétt, að segja annað eins og það, að áin sé ekki farartálmi; allir sem nokkra vitund þekkja til, vita að hún er það í meira lagi, eins og fyr hefir verið greinilega og rétt skýrt frá hér í þinginu. Þá nær það heldur engri átt, að segja, að yfir ána þurfi ekki að fara, meira en 12—1500 manns. Það er að minnsta kosti 3—4000 manna, þó eigi sé miðað við annað en fermda menn í Rangárvallasýslu. Vitanlega hafa þeir, er fyrir utan ána búa, brúarinnar minni not, en þó eru það ekki færri en 800 menn, sem þurfa að sækja lækni yfir Ytri-Rangá, sækja fé í réttir auk ýmsra annara ferðalaga, sem oft eiga sér stað, eins og gerist og gengur hreppa á milli. Það eru líka margir fleiri en Rangæingar, sem hafa stór not af brúnni. Skaftfellingar hafa mjög mikið gagn af henni, og auk þess líka Reykvíkingar, og eins fjölmargir útlendir ferðamenn. Eg skil því ekki eftir hverju er reiknað, þegar útkoman verður að eins 12—1500.

Það er ein hin mesta fjarstæða, að brúarinnar sé ekki þörf. Eg er í stórum vafa um, hvort meiri þörf er á nokkrum vegi eða samgöngubót hér á landi, nú um þessar mundir.