19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg þarf ekki að segja mikið, en hin langa ræða háttv. 4. kgk. knýr mig þó til að segja nokkur orð. Ekki dettur mér þó í hug að eg geti flogið eins hátt og hann, enda mun eg ekki reyna það. Mín ræða gat ekki gefið honum ástæðu til að koma með þessar almennu athugaaemdir; eg var ekkert að metast um það, hvernig fyrverandi stjórn hefði farið með landsins fé. Eg tek það fram enn, að eg tek ástandið eins og það er og lítur út fyrir að það verði, og byggi á því. Eg sagði í fyrri ræðu minni, að þó fjárhagurinn ef til vill væri ekki slæmur nú, þá yrðum við samt að kosta kapps um að spara sem mest og afgreiða fjárlögin með sem minstum tekjuhalla, af því að útlitið er ekki sem glæsilegast. Við verðum líka að taka tillit til þess tekjumissis, sem aðflutningsbann á áfengi hefir í för með sér fyrir landið, þegar það kemst á, og verður þess varla langt að bíða. Eg gleymdi að minnast á tollhækkunina áðan, en á henni álít eg menn ættu ekki að byggja of mikið. Eg er þeirrar skoðunar, að jafnvel þó fjárlagafrv. væri breytt eins og meiri hl. nefndarinnar leggur til, þá væru engin líkindi til að tekjuhallinn yrði minni en svo, að tollhækkunin geri mikið meira en hrökkva fyrir honum. Og þó svo færi, að tollhækkunin yrði hærri en tekjuhallinn, þá væri ekkert á móti því. Það væri þvert á móti ágætt, því þá værum við betur búnir undir að missa vínfangatollinn. Eg játa, að eg skil ekkert í útreikningum háttv. 4. kgk. Hitt veit eg aftur, að tekjuhallinn eftir árið 1908 var c. 80 þús. kr., og því á eg bágt með að hugsa mér að við lok þessa árs verði tekjuafgangurinn nálægt 300 þús. kr. Eg skildi ekki þá aðferð, sem hann notaði til að fá þetta út. Og mjög ólíklega má skipast, ef þetta á að rætast. Hann sagði, að fyrverandi stjórn hefði ávalt áætlað tekjurnar varlega, og því hefði tekjuhallinn verið svo lítill á síðustu fjárhagstímabilum, og eins mundi verða nú. Það má vera að nokkuð megi þakka því, en mestan þátt í þessu á þó vafalaust það einstaklega góðæri, sem verið hefir í landinu undanfarin ár. Nú er ekki því að fagna og verður því vafalaust alt annað upp á teningnum nú. Við megum ekki byggja neinar áætlanir um fjárhag landsins á næstu árum á samanburði við fyrri tímabil; við verðum að taka tillit til þess ástands, sem er í landinu nú og taka fjárhaginn eins og hann liggur fyrir.

Það er satt að tillög til akbrauta eru lögboðin gjöld. En þar með er ekki sagt að þau séu fastákveðin fjárlagagjöld, er ekki megi hækka og lækka. Meiningin er auðvitað, að þingið veiti til akbrauta eftir því sem ástæður leyfa. Og eg sé alls ekki að það sé óhjákvæmileg nauðsyn, að verja eins miklu til akbrauta nú eins og á fyrri þingum. Þó mest hafi verið lagt til síma á undanfarandi þingum, þá hefir þó allmikið verið veitt til akbrauta.

Eg verð að halda því fram, að úrfellingarnar séu þannig vaxnar, að það baki ekki þjóðinni neitt verulegt tjón, þótt þær verði samþyktar.

Að endingu vildi eg láta þá ósk og von í ljós, að orð mín gæfu ekki háttv. 4. kgk. ástæðu til þess að halda jafn langa ræðu eins og síðast.