23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

87. mál, vantraust á ráðherra

Ráðherrann (H. H.):

Jafnvel þótt eg hafi fulla ástæðu til að álíta, að meiri hluti íslenzkra kjósenda standi alls ekki á bak við þá ósk, sem þingsályktunartillaga þessi lætur í ljósi, og viti það með fullri vissu um sum af þeim kjördæmum, sem kosið hafa frumvarpsandstæðinga á þing, þá dettur mér þó ekki annað í hug, en að haga mér eftir því, hvernig aðstaða mín er á þinginu eins og það nú er orðið samansett við síðustu kosningar, og það þegar af þeirri ástæðu, að án fylgis meiri hluta þingsins eða samvinnu við hann, er ómögulegt fyrir ráðherra að halda stjórnarathöfnum, sem hann á að bera ábyrgð á, í því horfi, sem hann vill og telur réttast.

Hins vegar get eg hvorki varið það fyrir þjóðinni eða konunginum, að kasta frá mér að ástæðulausu störfum þeim, sem eg hefi með höndum og gerast eftirlaunamaður.

Eftir kosningarnar í haust var að minni hyggju ómögulegt að segja um það með fullri vissu, hvernig skipast mundi um samvinnu milli þingsins og núverandi stjórnar; að vísu var hægt að segja, þegar það sást hverjir kosning hlutu, að það væri sennilegt, að stjórnin yrði í minni hluta, er á þing kæmi; en afstaða þingmannaefna gagnvart frumvarps-uppkasti millilandanefndarinnar, sem aðallega var kosið um, var svo mismunandi, að ómögulegt var að sjá þar neina stefnuskrá, er sameiginleg væri fyrir alla svo nefnda frumvarpsandstæðinga. Enda eigi kunnugt, að þeir væri einn flokkur, sízt að því er snertir önnur mál og afstöðu gagnvart stjórninni yfirleitt. Það hefði því verið gersamlega óþingræðislegt tiltæki, ef eg hefði sótt um lausn vegna kosninganna, áður en þing kom saman, og enda margt annað, sem mælti móti því. Þannig hefði verið ómögulegt fyrir hinn nýja ráðherra, sem siglt hefði í septemberlok til þess að taka við embætti sinu, að undirbúa fjárlög og önnur mál undir þingið, þar sem hann varð að fara þegar í nóvembermánuði aftur á konungsfund með stjórnarfrumvörpin til þess að hafa þau tilbúin í tæka tíð fyrir þing. Auk þess hefði verið ómögulegt, að segja konungi neitt áreiðanlegt um það, hverjir væri líklegastir til að hafa meiri hluta þingmanna, af þeim sem til greina gætu komið sem ráðherraefni. Það er meira að segja enn þá hulin gáta fyrir öllum, enda þótt meira en vika sé liðin af þingi, og meiri hlutinn mun enn sitja á rökstólum um þetta efni.

Eg hafði hugsað mér, að ef svo færi að meiri hluta flokkur myndaðist á móti stjórninni, þegar þingmenn kæmi saman, þá myndu þeir lýsa því yfir, þegar í þingbyrjun, eða svo snemma, að sá maður, er konungur kveddi sér til viðtals til þess, að ráðgast um viðtöku ráðherraembættisins, gæti siglt með »Ceres« eða »Sterling«, og hefðu þá ráðherraskiftin getað orðið um næstu mánaðamót, og hinn nýi ráðherra komist aftur heim til þings um eða eftir miðjan marz.

Um þetta átti eg fyrir nokkrum dögum tal við háttv. þingmenn, sem eru í stjórn meiri hluta flokks þess, sem nú er til orðinn, og lét í ljósi við þá, að eg mundi biðja konung lausnar, jafn-skjótt og meiri hluti þingsins hefði lýst því yfir opinberlega á þingi, að hann vildi ekki hlíta samvinnu við mig sem ráðherra og óskaði stjórnarskifta. Okkur kom þá öllum saman um, að það væri heppilegast, að blanda þessu auðsótta atriði ekki inn í þau stórmál, sem fyrir þinginu liggja, til þess að vekja ekki ótímabærar kappræður um þau og spilla ekki möguleikum um samkomulag og samvinnu í þeim málefnum, sem enn eru ekki fullhugsuð eða athuguð, og að það væri nægilegt, að tillagan héldi sér fast við það atriði eitt, að stjórnin hefði ekki nægilegt fylgi, og að tillagan ætti að koma fram í sameinuðu þingi. — En raunin hefir þó orðið sú, að háttv. þingmenn hafa valið þann kost, að gera tvær tillögur, sína í hvorri deild, og blandað inn í þær, meðal annars, ýmsum atriðum, sem helzt hefði átt að forðast að svo stöddu og of snemt virðist að leggja fullan dóm á nú, áður en sambandsmáls- og stjórnarskrárnefndin hefir lokið starfi sínu.

Það er enn þá vilji minn, að gera mitt til, að forðast ótímabærar deilur um þetta mál, og leiði því að mestu hjá mér, að svara í þetta sinn lögfestingarkenningunni, sem fram kemur í tillögunni. Nokkur atriði í henni og í sókn háttv. formælanda tillögunnar verð eg þó stuttlega að drepa á.

Tillagan segir í upphafi, að eg hafi lagt alt kapp á, að koma fram »frumv. til laga um ríkisréttarsamband Danmerkur og Íslands«. Nákvæmara hefði verið að segja, að eg hefði látið mér ant um, að reyna að komast að sem beztum samningum fyrir Íslands hönd um sjálfstæði þess, því það hefi eg gert, eftir því sem mér hefir verið unt. Frá því eg tók við þessu embætti og áður þó, hefi eg, eftir því sem eg hefi haft vit á og í mínu valdi hefir staðið, kappkostað að vinna að því, að fá uppfyltar skynsamlegar frelsis- og sjálfstæðiskröfur þjóðarinnar. Og þær tilraunir hafa oft verið bæði vandasamar og vanþakklátar; eg hef oftast orðið að vinna að þeim í kyrþey. Eg hefi ekki getað útbásúnað þær eða tilganginn með hverju einu í blöðum eða á mannfundum, og oftast orðið að þegja við árásum og úthúðunum. Menn gleyma því allmjög og alloft, að staða Íslands ráðherra er ekki eins og venjuleg ráðgjafastaða í útlendum ráðaneytum. Hún er landsstjórastaða inn á við, og »diplómat«-staða út á við.

En um kapp mitt til þess að koma fram frumvarpi sambandslaganefndarinnar er það að segja, að eg taldi það blátt áfram skyldu mína, bæði sem Íslendings og varaformanns nefndarinnar að gera það lítið sem eg gat til þess að skýra það mál, sem þjóðin átti að dæma um með kosningunum, og hnekkja þeim rangfærslum og missögnum, sem út voru breiddar um frumvarpið og hvað í því stæði. Hefði eg látið það undir höfuð leggjast hefði mig mátt iðra þess alla æfi, að hafa ekki gert þessa tilraun til að opna augu manna fyrir þeim blekkingum sem beitt var, og afstýra óhappaverkinu að hafna frumv. Og er langt frá, að of langt hafi þar verið farið af minni hálfu; eg gæti miklu fremur ásakað mig um, að hafa legið á liði mínu og ekki lagt mig nóg í líma til þess að skýra þetta mál, og hrekja blekkingarnar, sem látlaust og feimnislaust var beitt gegn því, bæði leynt og ljóst, mest þó víst í kyrrþey.

En eg er mér þess meðvitandi að hafa barist fyrir góðum málstað, og ekki vissvitandi gert annað en það, sem eg álít rétt. Þess vegna get eg nú, er eg fell á þessu máli, verið í rólegum hug og haft þá tilfinningu, að »gott sé heilum vagni heim að aka«.

Setningin í þingsályktunartillögunni um, að mikill meiri hluti þjóðarinnar telji sambandslagafrumvarpið »lögfesta Ísland í danska ríkinu« hefði mátt missa sig, því að auk þess, sem löghelgunarkenningin er fjarstæða ein, er setningin að öðru leyti ekki sönn.

Af 11,169 kjósendum í þeim kjördæmum, sem kosning fór fram í, hafa að eins 4671 kjósendur, eða 41,8% greitt atkvæði með þingmannaefnum, sem vildu meiri eða minni breytingar á frumvarpinu. 3023 kjósendur, eða 27,1%, hafa alls ekki greitt atkvæði um frumvarpið, og 3475 kjósendur, eða 31,1% hafa greitt atkvæði með því óbreyttu. Það er þannig blátt áfram rangt, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hafi látið í ljósi ósamkvæði sitt við frumvarpið, hvað þá aðra eins heljar-firru sem þá, sem hér er um að ræða.

Af þeim 8146 kjósendum, sem atkvæði greiddu við kosningarnar, voru að eins 14,6% framyfir hjá frumvarpsandstæðingum. En þess ber að gæta, að því fer afar-fjarri, að allir þeir, sem kusu frumvarpsandstæðinga, gerðu það af þeim ástæðum, að þeir teldu frumvarpið »lögfesta Ísland í danska ríkinu«, eins og tillagan segir, eða kysu yfir höfuð meiri losun á sambandinu við Danmörku. Það er á allra vitorði, að fjölda margir af þeim vildu að eins einhverjar breytingar til skýringar á þeim atriðum, sem andstæðingarnir misskildu mest eða rangfærðu, bæði að því er snertir samræmi textanna og annað orðalag. Og þar fyrir utan kusu með þessum hóp allir þeir, sem engar breytingar vilja á núverandi ástandi, allir þeir seinteknustu og íhaldssömustu, sem þótti frumvarpið of stórstígt og bjuggust við auknum gjöldum og kostnaði af því fyrirkomulagi, sem frv. fer fram á.

Sömuleiðis hafa þeir fengið stuðning margra manna, sem ekki þóttust hafa tök á að átta sig á málinu, rugluðust við það að heyra sinn segja hvað um það, suma hrósa því upp úr öllu valdi og aðra rífa það niður fyrir allar hellur, og þorðu ekki að eiga það á hættu að greiða atkvæði með því, er þeir ekki skildu til fulls, og vildu þá heldur hafa núverandi ástand óbreytt. Margur af þessum mönnum eru nú orðnir sannfærðir um ágæti frumvarpsins og iðrast atkvæðis síns.

Meiri hlutinn á þingi á þannig tilveru sína að talsverðum mun að þakka mönnum, sem alls ekki hafa uppkveðið slíkan áfellisdóm um frv., sem till. greinir. Meira að segja, það er blindu tilfelli að kenna, að meiri hlutinn á þingi er eins fjölmennur og hann er. Að réttu hlutfalli við atkvæðatölurnar hefðu frumvarpsmenn átt að vera 14 af þeim 33 þm. sem kosnir voru með atkv.gr. í kjördæmunum og hefðu því — ef kosið hefði verið eftir hlutfallskosningum — verið alls 20 frumvarpsmenn á þingi nú, með hinum konungkjörnu þm., og frumvarpsandstæðingar ekki í ákveðnum meiri hluta.

Þá segir till., að eg leggi frumv. fyrir þingið nú, og mæli enn fastlega með því óbreyttu, Já, auðvitað legg eg frumv. fyrir þingið óbreytt, eins og andstæðingar sjálfir hafa heimtað, og það geri eg með góðri samvizku og eftir fylstu sannfæringu. En hins vegar hefi eg aldrei barist á móti því, að reyna mætti að fá einhverjar breytingar. Eg hefi að eins sagt: Við getum ekki lofað neinum breytingum. Við ráðum því ekki einir. Það þarf líka að hugsa um samþykki Dana. Það má ekki stofna frumv. í voða, með því að sþ. breytingar, sem ekki geta gengið fram á ríkisþinginu. Þyki þess vegna nokkuð koma til þess, sem á er unnið, þyki það vera framfarir frá því sem nú er, þá verða þm. að geta samþ. það óbreytt, eins og það er.

En nú er málið komið til þingnefndanna bæði hér og í Danmörku, svo þær nefndir geta skifst skeytum á, og nefndin hér reynt hvað hún kemst. Tilraunin er öllum boðin.

Þá segir till. að eg hafi gengið þvert á móti vilja íslenzkra kjósenda, þegar eg valdi kgk. þm. síðast.

Hvaðan kemur tillögumönnum sá vísdómur?

Annan þeirra kusu 192 kjósendur af 468 kjósendum í Snæfellsnessýslu, hinn kusu 187 af 395 í Skagafirði við síðustu kosningar. Báðir eru gamlir og æfðir þm. Eru allir þessir kjósendur, sem hafa kosið þá, einskis virði og ómaklegir þess að teljast með? Þótt þessir þm. næðu ekki kosningu í þessum tveim kjördæmum, þá sannar það alls ekkert um, að þeir hefðu ekki getað náð kosningu í öðrum kjördæmum. Það er hreinn tilbúningur út í loftið, að íslenzkir kjósendur yfirleitt hafi verið á móti kosningu þeirra. Það sanna er, að margir skynbærir menn viðurkenna að ekki hafi legið eins nærri að kjósa neina menn í landinu og einmitt þá, af því að þeir voru báðir meðlimir sambandslaganefndarinnar og því allra manna kunnugastir því mesta stórmáli, sem þingið á að fjalla um og leiða til lykta. Tilgangurinn með kosning kgk. þm. er, eins og allir ættu að vita, ekki að eins sá, sem nefndur var hér í deildinni um daginn, að gera Ed. alþ. íhaldssamari, heldur fult einsmikið sá, að tryggja þinginu menn með grundaðri og margvíslegri þekkingu á helztu málunum. Og hvað þekkingu snertir á því aðalmáli, sem þingið á nú að fjalla um, mun fáum blandast hugur um, að þeir standa þar mjög framarlega.

Loks verður stjórnin að velja þá menn til þingsetu, sem hún álítur hafa rétta skoðun á aðalmálunum. Það væri beinlínis að skoða landsstjórnina sem samvizkulítinn aulabárð, ef ætlast er til að hún velji menn, sem að hennar áliti hafa rangar og skaðlegar skoðanir á þeim málum, sem hún telur mikilsvarðandi fyrir þjóðina.

Þá kemur syndaregistrið, sem háttv. framsm. (Sk. Th.) taldi upp, þessar vítaverðu ráðstafanir, sem eg á að hafa gert. Hvernig sem reynt er að draga úr eftir á, verður það ekki útskafið, að orðið »vítavert« er þungt áfellisorð, sem næst liggur að skilja svo, að það eigi við hegningarvert athæfi. En mér er spurn: Hafi eg að áliti meiri hlutans gert mig sekan í vítaverðu athæfi sem ráðherra, hvers vegna höfðar þingið þá ekki mál á móti mér?

Landsdómurinn er til. Ráðherraábyrgðarlögin eru svo víðtæk og hörð, að allar stjórnarathafnir, sem með réttu má kalla vítaverðar, falla undir ákvæði þeirra laga. Eg bið ekki um neina hlífð í því efni. Nú er bolmagnið til. Hvers vegna ekki þá að láta kné fylgja kviði?

Þingið er ekki dómari minn. Það er málsaðili gagnvart mér. Það getur ákært mig og ákveðið málsókn, en ekki uppkveðið dóm yfir mér, ekki einusinni þann dóm, að athafnir mínar séu vítaverðar í þeim skilningi, sem yfirrétturinn notar, er hann lýsir þetta eða hitt embættisverk undirdómara vítavert, án þess að dæma honum aðra hegning. Þau ummæli eru þar þáttur úr dómi lögmæts dómstóls. En í munni háttv. tillögumanna og þingdeildarinnar, eru þau ekkert annað en skammaryrði, órökstuddur sleggjudómur, sem ekki ætti að sjást í þingskjali. Það sýnir misskilning háttv. þm. á stöðu sinni. Eg get með sama rétti kallað till. vítaverða árás mig, eins og þeir geta kallað embættisverk mín vitaverð.

Háttv. flutningsm. (Sk. Th.) talaði því næst um deigleika minn gagnvart útlenda valdinu. Eg veit eigi, hvort eg á að vera að þreyta þingið með því að ansa slíkum sleggjudómum. Eg hugði hann, sem kunnugur er starfi mínu, t. d. í millilandanefndinni, mundi þó að minsta kosti ekki fara að tyggja upp þá tugguna sína frá undanfarandi þingum; en hann hefir nú litið öðru vísi á velsæmið. Eg er ekki hræddur um, að ummæli hans um þetta alriði verði langær dómur sögunnar, enda hygg eg að öðrum sé hættara við því en mér að heykjast í hnjáliðunum fyrir danskinum eða kengbeygja bakið fyrir útlendum valdhöfum, og mun það síðar sjást.

Þá var það undirskriftarmálið, er flutningsm. (Sk. Th.) fann mér til foráttu; en þar held eg að eg eigi sízt vanþakkir skilið, því að eg þori að fullyrða það, að sá sem tekið hefði við ráðherraembættinu, ef eg hefði frá gengið haustið 1903, hann hefði ekki lagt meiri stund en eg hefi lagt á það, að hafa fram meginatriði þess máls, sérstöðu Íslandsráðherrans í ráðaneyti konungs og sjálfstæði hans gagnvart stjórnarbreytingum í Danmörk. Eg hefi einnig smám saman með hægð og varfærni getað jafnað ágreininginn um formhlið málsins, og fengið forsætisráðherra Dana til að fallast á, að hinn nýi ráðherra Íslands skrifi sjálfur undir skipunarbréf sitt, en forsætisráðherrann komi þar hvergi nærri. Það er nú afgert mál. Hefði eg ekki farið einmitt þá leið, sem eg hefi farið í máli þessu, þá væri málinu ekki komið eins og nú er komið; en nú er ósk nefndarinnar í stjórnarskrármálinu 1903 fullnægt.

Ritsímamálið er mér líka talið til áfellis. En það er mín fylsta sannfæring, að það hafi ekki verið einungis rétt af mér að gera samninginn við Mikla-Norræna, heldur hefði það verið vítverð vanræksla, ef eg hefði ekki notað tækitærið og gripið hönd Hage’s þáverandi samgöngu- og fjármálaráðgjafa Dana, sem hann af velvild sinni til Íslands rétti mér. Tala þeirra manna fer líka vaxandi dag frá degi, sem viðurkenna hið mikla gagn, sem þeir og þjóðin í heild sinni hafi af símanum, og það verður víst erfitt nú að telja þjóðinni trú um, að starf mitt í því máli hefði verið betur óunnið.

Háttv. flutningsm. þóttist þá finna mikið alhugavert við framkomu mína í danska sýningarmálinu sæla, sem Íslendingum var svo mjög á móti skapi. Það er eigi gott að skilja, hvað hann á við, nema ef vera skyldi það, að eg vildi vera og var algerlega fyrir utan það mál, þegar eg sá hvernig til sýningarinnar var stofnað, og svifti hann og hans vini þannig vopni gegn mér.

Þá er mér þunglega gefið að sök, að eg hafi tekið nokkra útlenda menn til að standa fyrir ýmsum framkvæmdum hér á landi. Þetta er alveg satt, en það hefi eg gert af þeirri einföldu ástæðu, að ómögulegt hefir verið að fá innlenda menn, sem væru þeim störfum vanir. En hvað er að harma, þótt útlendir dugnaðarmenn setjist hér að, kenni Íslendingum til verka og gerist sjálfir Íslendingar? Er landinu ekki hinn mesti hagur að slíkum mönnum? Forberg símastjóri er þegar orðinn Íslendingur í húð og hár. Hann hefir leyst sig af allri þegnskyldu við Noreg og tekið hér rétt innborinna manna og fáa starfsmenn landsins hygg eg vinna þessu landi betur en hann; skógræktarstjórann vil eg nefna. Vér áttum engan innborinn skógfræðing, er gæti tekist á hendur forgöngu og yfirumsjón með vaknandi skóggræðslu og sandfoksvörzlum í landinu. Sá maður — hann er reyndar danskur! — sem eg hefi fengið til þessa starfs, hefir fengið bæði vísindalega og verklega sérþekkingu í þeim efnum, og hann vinnur með alúð og elju þetta þýðingarmikla en fyrst um sinn vanþakkláta og árangursseina framtíðarstarf fyrir þetta land, meira að segja unir sér vel.

Eg skil ekki, hvernig háttv. flutningsm. (Sk. Th.) fór að koma því inn í mitt syndaregistur, að meiri hlutinn, sem hingað til hefir verið, hafi á þingi kosið menn úr sínum flokki í ýmsar stöður sem alþ. skipar. Hitt skildi eg að eg hefði átt að veita mönnum ýms embætti og sýslanir, af því að þeir fylgdu þeim pólitiska flokki, sem eg er í. Háttv. flutningsm. hefir þessum orðum sínum engan stað fundið, og eg álít slíkar aðdróttanir út í loftið ekki svaraverðar. Eg skora á hann að tilgreina einhver dæmi. (Skúli Thoroddsen: Hér er alls ekki staður til slíks). Sé svo, hvernig er hér þá staður til þess að bera mér slíkt á brýn? Þetta eru ósannindi. Það hefir einmitt verið leitast við að taka menn fullkomlega jafnt úr öllum flokkum til embætta. Og mér hefir meira að segja verið lagt það til ámælis af flokksmönnum mínum að eg gengi um of fram hjá þeim um embættaveitingar og tæki þá jafnvel síður en aðra. Það hefi eg þó eigi viljað gera, en hitt hefir ætíð vakað fyrir mér að taka þá menn til allra starfa, sem bezt væru til þeirra hæfir, hvaða pólitiskum flokki, sem þeir annars kynnu að fylgja.

Ein aðdróttunin var sú, að allir þm. í mínum flokki, hafi fengið fjárhagslegan vinning eða einhvern sæmdarauka, krossa og því um líkt, fyrir að fylgja mér. Vill ekki þm. segja okkur hvað það er, sem hver einstakur hefir úr býtum borið? (Skúli Thoroddsen: Það væri hægt að nefna nöfn). Því þá ekki að nefna þau! Háttv. þm. ætti að hafa sannanirnar á reiðum höndum, úr því hann er að bera slíkt á borð hér í þingsalnum. En honum vefst þar tunga um tönn. Hann veit það, að þetta er að eins fyrirsláttur hjá honum. Eða hvers vegna ber hann sjálfur krossinn? Eg veit ekki betur en að krossinn sem hann ber, þegar hann vill hafa sem mest við og »puntar« sig reglulega vel, sé honum gefinn einmitt eftir meðmælum frá mér.

Háttv. formælandi gaf það í skyn, að stefnuskrá meiri hlutans hefði verið sú, að allir menn í flokknum kæmust smátt og smátt á eftirlaun, en allir, sem ekki væru þeim meginn í pólitíkinni, væri útilokaðir frá öllum vildarkjörum og vegtyllum. (Skúli Thoroddsen: Þetta er misskilið). Eg gat ekki skilið það á annan veg. — En þarna liggur víst nærri, að háttv. flm, (Sk. Th.) sé að kenna mér sín eigin börn, því að eg man ekki betur en að háttv. flutningsm. (Sk. Th.) hafi sjálfur hér um árið skrifað grein í »Þjóðviljann« sinn, þar sem það var haft að »slagorði« fyrirsögn, inntaki og einkunnarorðum kenningar hans um það, hversu fara skyldi með alla, sem ekki hlýddu hans pólitisku pípu: »Ekki einu sinni í hreppsnefnd eiga þeir að komast«. Þetta er hans heróp, og eigi það að verða »program« þess meiri hluta, sem nú er að setjast á laggirnar, þá má mönnum verða það tilhlökkunarefni. Eg vona, að eg þurfi ekkert til þeirra að sækja.

Það hefir verið tínt til, þegar mér hefir verið brugðið um ranglæti og hlutdrægni, að eg hafi t. d. átt að banna starfsmönnum við Íslandsbanka að gefa sig við pólítík! Eins og það væri gefið fyrir fram, að allir þeir menn, sem þar væru, hlytu að vera andstæðingar mínir í pólitikinni. En eg réð ekki neinum lögum né lofum í þá átt. Það var ósk þeirra bankamanna, sem keyftu bankastofnunarleyfið af þeim herrum Arntzen og Warburg, að bankinn yrði algerlega flokkslaus og ópólitisk stofnun, og þess vegna óskuðu þessir stofnendur bankans, að það væri haft í skilyrðum við starfsmenn bankans, að þeir blönduðu sér ekki í flokka-pólitik. Ekki var þó Páli heitnum Briem meinað að bjóða sig fram til þings, þótt hann sæti jafnframt sem þriðji maður í stjórn Íslandsbanka. En eftir frumkvæði stofnendanna, sem samþykt var af bankaráðinu, var það sett í samningana við bókara og féhirði, að þeir ættu að leggja allan starfskraft sinn fram í bankans þjónustu, og mættu ekki taka þátt í stjórnmáladeilum. Þetta er alt og sumt.

Hvað snertir það, að eg hafi vikið manni úr stöðu við lærðaskólann, og það af pólitiskum ástæðum, þá vil eg hlífast við að svara því, sem háttv. flutningsm. (Sk. Th.) sagði, vegna þessa heiðursmanns sjálfs, sem hlut á að máli. Eg finn enga köllun hjá mér til að draga fram hér á þingi þær ástæður, sem lágu til ráðstafanar þeirrar, sem háttv. flutningsm. (Sk. Th.) átti við. En vilji þingdeildin vita ástæðurnar, þá getur hún skipað nefnd til þess að ransaka málið, og sú nefnd getur í stjórnarráðinu fengið þau skjöl og skilríki, sem hér að lúta. Allir, sem þau skjöl lesa, munu sannfærast um, að hér er ekki um pólitiska flokksráðstöfun að ræða, heldur sérstakt skólamál, og að stjórnarráðið bygði úrskurð sinn á gildum rökum, í samræmi við tillögur rektors og stiftsyfirvalda.

Um málaferli, sem verið hafa á Snæfellsnesi er mér ekki fyllilega ljóst, hvað mér er gefið að sök. Mér gat ekki borið nein skylda til þess, að koma því máli fyrir hæstarétt. Fyrst er það, að hæstarétti er ekki sérlega ljúft að taka fyrir slík smámál, sem ekki ná »summa appellabilis«, og leyfi til þess er sjaldan veitt. En í annað stað er það dómsmálaráðaneytið í Danmörku en ekki stjórnarráð Íslands, sem veitir slíka undanþágu. Dómsmálaráðaneytið skrifaði til stjórnarráðsins, og spurðist fyrir um, hvort nokkrar sérstakar eða knýjandi ástæður væru fyrir hendi til þess að undanþága væri veitt í þessum málum. En þar sem stjórnarráðinu voru slíkar ástæður alls ekki kunnar, og málið að öðru leyti ómerkilegt, þá gat stjórnarráðið ekki annað en kveðið nei við þeirri fyrirspurn.

Háttv. formælandi ásakaði mig um, að eg hefði stungið undir stól áskorunum, sem komið hefðu frá þjóðinni og ekki sint þeim. En til þess er því að svara, að eg hefi engar áskoranir fengið frá þjóðinni. Það hafa einstaka menn þotið upp, og komið á stað einhverjum áskorunum með nokkrum undirskriftum úr fáeinum hreppum, en það hefir verið langt frá því, að slíkar áskoranir hafi nokkru sinni komið frá meiri hluta þjóðarinnar, og sumar áskoranir, t. d. um synjun konungsstaðfestingar á ritsímalögunum, voru óhæfa ein, framkölluð af röngum fortölum æsingamanna. Hins vegar hefi eg einmitt alt af haft vilja á og oft beygt mig fyrir því, sem eg vissi að þjóðinni var áhugamál. Eg hefi lagt mig í líma til þess að fylgja því, sem eg hefi orðið að álíta almennan vilja

þjóðarinnar, og þar til get eg nefnt sjálfstæðismálið.

Eg hefi nú hrakið öll hin einstöku atriði þessarar þingsályktunartill. og ásakanir flsm. og get eg með sanni sagt, að ekkert af þessu hrellir mig á neinn hátt.

Eg fell ekki á neinum af aðfinningum formælanda eða tillögunnar, eg fell — ef fall skyldi kalla — á því tilfelli, eða þeim dugnaði mótstöðumannanna, sem setti frumvarpsmenn í minni hluta við oflítið undirbúnar kosningar.

Það er illa farið, ef það veldur glötun góðs máls og ógæfu fyrir landið.

En fyrir sjálfan mig get eg sagt, að hundrað sinnum heldur vil eg falla en vita upp á mig, að eg hefði gengið einhverja þá vegu, sem ekki þola dagsbirtuna eða sögunnar ljós, til þess að ná vesölum stundarsigri fyrir sjálfan mig.

Glíman er nú úti í bráðina, og eg mun ekki láta meiri hluta þingsins ganga lengi eftir mér að leggja niður embættið. Það hefir aldrei verið mér eins mikið keppikefli, eins og það sýnist vera mörgum öðrum, og stundum hefir það ekki verið svo auðvelt, þó margt hafi vel ráðist með góðu fylgi góðra drengja.

Háttv. meiri hluti er nú loks kominn að takmarkinu, að taka við völdunum, en því fylgir líka ábyrgðin á stjórn þessa lands, ábyrgð inn á við og ábyrgð út á við. Eg vona að hin nýja stjórn og hennar menn vandi ekki síður verk sjálfra sin, en þeir hafa vandað um við mig. Eg vona að meiri hlutinn gæti þess nú vel og vandlega, að hinni nýju stjórn verði aldrei neitt eins »vítavert» eða vítaverðara á en mér hefir orðið að sögn fl.m. tillögunnar, hvorki í embættaveitingum né öðrum embættisverkum. Eg vona, að þeir láti nú sjá, að sjálfstæðismáli þjóðarinnar miði nú betur áfram undir sinni nýju stjórn, heldur en undanfarin ár, að samgöngur og atvinnuvegir og mentamál landsins eflist ekki lakar, en 5 árin síðast undanfarin, að fjárhagur landsins verði ekki verri en hann verður við lok þessa fjárhagstímabils, sem nú stendur yfir, og að samlyndið í flokknum hjá þeim verði ekki lakara heldur en það hefir verið hjá fyrverandi meirihluta í hinum stærri málum.

En um fram alt óska eg, að alt snúist Íslandi til hamingju og heilla, og betur rætist úr í ýmsum greinum heldur en nú áhorfist.