28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1351)

7. mál, háskóli

Hálfdan Guðjónsson:

Ýmislegt af því sem háttv. framsm. (J. Þ.) sagði, var talað út í hött. Annars gekk hann á það lagið, sem hann svo oft hefir tamið sér á þessu þingi, að varpa fram ýmsum hljómmiklum stóryrðum um sjálfstæði og þjóðerni í stað röksemda. Jafnvel í hlægilegustu smámálum hefir hann oft og einatt verið að veifa með »sjálfstæði« og »þjóðerni«, og gert þannig fegurstu orð að »glamuryrðum« og með því svift þau þeim krafti og áhrifum, sem þau, réttilega brúkuð, hafa. Eg gæti fært margar röksemdir og sannanir fyrir mínu máli, en skal í þetta sinn láta mér nægja að benda á hans mörgu þingsályktunartillögur, sem hann hefir kveðið frelsi og sjálfstæði landsins vera undir komið, að næðu fram að ganga. Annars er svo langt frá því, að eg vilji berjast á móti sjálfri hugmyndinni. Eg er henni þvert á móti fylgjandi og því eru orð hans um mig töluð út í hött. Eg álít að eins málið ekki svo úr garði gert, að þingið eigi að afgreiða það nú. — Framkoma háttv. 1. þm. Rvk (J. Þ.) er líka all-kynleg í þessu máli. Hann taldi í ræðu sinni fyrir nokkru misfellurnar og gallana á frv., svo mikla, að ekki mætti við una. Það þyrfti að lappa upp á það, »umredigera frá rótum« voru hans óbreytt orð, Hvernig stendur þá á því, að hann vill nú engu breyta, heldur þykir frumv. gott og blessað í alla staði. Annars tek eg það aftur fram, að eg vil ekki fella málið, heldur að það sé betur undirbúið og komi síðar fram klætt fallegri fötum og á hentugri tíma. Þess vegna hef eg leyft mér að koma fram með rökstudda dagskrá, sem eg með leyfi hæstv. forseta skal lesa upp:

»Með því aðlögum um stofnun háskóla er ekki ætlað að koma til framkvæmda fyr en fé er veitt til hans á fjárlögunum, þykir óþarft og ekki ráðlegt, að afgreiða frumvarpið, sem lög frá þessu þingi, og í því trausti, að stjórnin leggi málið betur undirbúið fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá«.