14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (1401)

10. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Framsögumaður (Bjarni Jónsson):

Eg gat þess þegar við 1. umr. þessa máls, að nefndinni þætti frumv. þetta gott og vildi taka því vel. Nauðsynin á að koma á fót innlendum vátryggingarsjóð er svo brýn, að löggjafarvaldið verður að taka það mál til meðferðar og ráða fram úr því og það á þessu þingi.

Hins vegar hefir nefndin þó leyft sér að koma með nokkrar breytingar við frumv. Sumar eru efnisbreyt., en flestar eru þó breyt. á formi, orðalagi til að fyrirbyggja misskilning og eg held eg megi fullyrða, að þær miða allar til bóta. Fyrsta breyt.till. nefndarinnar er að framan við frumv. komi ný grein, sem verði 1. gr. og skýri frá hvað lögin nái yfir, svo hljóðandi: Skip er í lögum þessum haft um öll skip og báta, stór og smá.

Þá er við 1. gr. (sem verður 2. gr.) breytt 30/100 í ?, það er að eins stytting brotsins. 35/1oo breytt í ?, með það fyrir augum, að heppilegast væri að sem minstur hluti eignarinnar væri í eigandans sjálfsábyrgð — eftir þessum ákvæðum þá að eins ?. — Það liggur líka í augum uppi, að því meiri hluti skipsins, sein er í eigandans sjálfsábyrgð, því ver gengur honum að koma skipinu fyrir sig, fá lán út á það o. s. frv. Það er honum minni og síður arðbærri eign. Þetta hlutfall þótti og einkar sanngjarnt borið saman við seinni liðinn (b.), þar sem sjálfsábyrgðin líka er að eins ?. Nefndinni hefir líka þótt rétt að setja trygging í stað hagsmunatrygging, sem er tvírætt orð og gæti þýtt þann óbeina hagnað eða ágóða af aflanum o. s. frv. Svo vill nefndin breyta við 2. gr. 4% í 4½% vegna þess að ekki er hægt að fá lán svo ódýrt, annars væri það að nokkru gjöf frá landssjóði, en það er ekki tilætlast. Landssjóður verður líka að borga 4½% af sínum lánum. Það sem við höfum lagt til að komi aftan við 2. (3.) gr.: »þó svo, að sú upphæð sé ekki skert«, er ekki efnisbreyting heldur að eins til skýringar. Ef þeim orðum hefði ekki verið bætt við, kynni sumum, ef til vill, að hafa þótt vafasamt, hvort taka ætti þá upphæð alla til að borga lánið eða að eins það, sem eftir það inn kæmi. Viðaukinn tekur af öll tvímæli. Við 6. gr. er fyrst nánara í stað nánar; það er að eins málfræðileg breyting.

Því næst höfum við talið heppilegt, að skýrt sé ákveðið, fyrir hvaða tjón ábyrgðin nái. Fyrir því vill nefndin bæta inn nýrri grein, er verði 8. gr. svo hljóðandi: Félagið bætir tjón og skaða, er verður af völdum sjávar, storms eða annars óveðurs, af strandi, af því, að skipið ber á sker eða grunn, af skipbroti, kollsigling, ásigling, árekstri, eldi og öðrum slysum. Af þessu leiddi að breyta varð 7. gr. (sem látin var verða 9. gr.) þannig að sú grein ætti við sérhvert tjón, sem bóta er fyrir krafist eftir þessum lögum.

Aðrar breyt. eru annaðhvort einungis orðabreytingar eða svo auðsæjar efnisbreytingar, að eg þarf ekki að fara neinum orðum um þær. Skal eg svo ekki orðlengja meir um þetta mál, en vona, að háttv. deild sjái sér fært að samþ. frumv. með þeim breytingum, sem nefndin hefir lagt til.