13.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

18. mál, borgaralegt hjónaband

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Breyt.till. á þskj. 201 miðar að því einu, að setja inn þann kafla, sem háttv. Ed. feldi burt, því að það var af misskilningi, að hann var feldur þar úr. Það var sem sé misminni hjá þeim háttv. þingm., sem barðist þar á móti kaflanum, að hann væri í fríkirkjulögunum. Það er einmitt gagnstætt því; þar stendur, að valdsmaður ákveði stund og stað. Og það hefir komið fyrir, að berlega hefir verið neitað, að gefa saman hjón í heimahúsum. Það er ósanngjarnt, að menn, sem leyst hafa leyfisbréf, fái ekki að ráða því, hvort gefið er saman í heimahúsum eða ekki, einkum þegar þeim, er prest nota, er það heimilt. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) fór raunar vægilegum orðum um þetta og taldi skylt, að taka til greina, ef ástæður væru til þess, að hjónavígslan færi fram í heimahúsum, en lýsti þó yfir því, að hjónavígslan ætti fram að fara á skrifstofum valdsmanna. Valdsmönnum er áskilinn ferðakostnaður fullur, enda veit eg dæmi þess, að lögreglustjórar hafa farið langar leiðir til þess að gefa saman hjón, t. d. sýslum í Norður-Múlasýslu; hann hefir farið norður á Vopnafjörð og gefið saman mörg hjón í senn. Úr því að reynslan hefir sýnt, að sumir lögreglustjórar gera þetta ekki, er sanngjarnt að samþykkja fyrirmæli breytingartillögunnar, enda trúi eg ekki öðru, en að háttv. deild verði sömu skoðunar sem áður, og eg veit, að nú muni það verða samþykt í Ed., þegar leiðrétst hefir misskilningur deildarinnar á málinu, sem lýsti sér við atkvæðagr. þar um daginn.