01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

16. mál, aðflutningsbann

Framsögumaður meiri hlutans (Björn Þorláksson):

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) byrjaði ræðu sína með því að kvarta yfir því, að minni hlutinn hefði ekki fengið að vinna með meiri hlutanum, svo sem hann hefir áður kvartað um. Eg svara honum hinu sama, sem eg hefi áður gert, að ekki getur verið um nokkura samvinnu að ræða milli þeirra, sem vilja málinu vel, og hinna, sem hafa allan hug á að koma því fyrir kattarnef; það sjá allir. Ef háttv. þm. hefði verið alvara með að gefa bendingar í málinu, þá er eg viss um, að nefndin hefði tekið þeim með þökkum, ef þær hefðu verið góðar. Þar fyrir utan hefði þm. sjálfur getað komið með breyt.till. um að lagfæra ýmsa af þessum stóru göllum, sem hann segir að geri það að verkum, að frumv. sé handaskömm og að ósamboðið sé sóma þingsins að samþykkja það, eins og háttv. þm. komst að orði.

Háttv. þm. sagði, að frágangur frv. væri frábærlega illur, eða það lá í orðum hans. Eg man ekki betur en kvartað hafi verið yfir frágangi laga hér. Seinast í fyrra dag var sagt hér, að ein lagasmíðin væri þinginu til háðungar að því er til orðfæris kæmi og samt lét þingið sér sæma að samþykkja þau lög.

Eg nenni ekki að fara út í allar aðfinslur hins hv. þm. Eg hefi svarað þeim öllum áður, enda get eg sagt það hreinskilnislega, að þær miða allar að því að spilla fyrir málinu og gera það tortryggilegt, því að það er, eins og allir vita, tilgangur hins háttv. þm. að reyna að tortíma því. Þess

má þó geta, að þessi »vondi frágangur« stafar að miklu leyti af meðferð Ed. á málinu. En að þeim breytingum hefir vitanlega unnið mest 5. kgk. þm., forstöðumaður lagaskólans, sá maður sem um eitt skeið var kallaður þingsins herra, maður sem tjáist vera málinu mjög hlyntur. Hinn háttv. þm. er því hér að varpa auri mann úr sínum þingflokki eða minni hlutanum. En það er honum til afsökunar, að þetta mun vera óviljaverk eða gert af því að hann vissi ekki, hver var valdur að mestu breytingunum.

Þá skal eg víkja að einstökum atriðum. Hinn háttv. þm. hneykslaðist á síðasta lið 5. gr. og fann þessu ákvæði það til foráttu, að ómögulegt væri að fara eftir því. Þetta getur verið, en það er þá á ábyrgð Ed. Hann sagði, að ákvæðin um sölubann og aðflutningsbann kæmu í bága hvort við annað. Það má hann líka skrifa á reikning Ed,

Enn hneykslaðist hann á því ákvæði sem Ed., eða forstöðumaður lagaskólans setti inn í frumv., að hið upptæka áfengi sé eign landssjóðs. Vitanlega er meiningin að selja það fyrir hönd landssjóðs. Eg geng að því vísu, að stjórnin gefi út reglugerð um það, hvernig fara eigi með þetta áfengi. Eg efast ekki um, að núverandi stjórn muni gera um þetta hagfeld ákvæði; láti gera áfengið, áður en það er selt, óhæft til drykkjar. Alt öðru máli er að gegna um stjórn, sem vildi ekki hafa þessi lög.

Þá kvartaði hinn háttv. þm. yfir því, að felt hefði verið burtu úr 15. gr. orðið »vísvitandi«. Eg held, að það hafi verið gert þegar við 2. umr. málsins hér. Þetta kemur því eftir dúk og disk. En bæta má við, að lágmark sektanna var lækkað að mun með tilliti til þessarar úrfellingar.

Enn vil eg svara umkvörtun háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. .J.) um misrétti í lögunum og út af því dæmi, er hann nefndi, að eg hygg, að þótt þeim mönnum, sem heimild hafa til að flytja inn áfengi, sé bannað að gefa eða veita áfengi, þá muni þeim þó vera leyfilegt að gefa eða veita af sínum privatbirgðum eins og hverjum öðrum. Annars verður það verkefni lögfræðinganna á sínum tíma að dæma um þetta, en hvorki mitt né hins háttv. þm., sem báðir munum rista fremur grunt í lögfræðislegri þekkingu.

Eg get ekki skilist svo við þetta mál, að eg ekki lýsi undrun minni yfir framkomu háttv. 1. þm. S.-Múl. (J.J.) út af þeim stöðuga og hóflausa andróðri, sem hann hefir beitt gegn því. En ef maður athugar þetta betur, verður undrunin minni, því einatt, þegar svipuð mál hafa verið á dagskrá hér á þinginu allan þann tíma, er hann hefir dvalið hér, er vænleg hafa verið til stuðnings bindindisreglusemi og góðu siðferði, þá hefir hann risið öndverður gegn þeim, beitt sínum alkunnu miklu þingmanns-hæfileikum gegn þeim, og alveg eins hefir honum nú farið. Hann hefir æfinlega komið þar fram sem Þrándur í Götu, sítogandi aftur á bak, þar sem aðrir vildu sækja áfram. Fyrir skömmu bar hann mér og meiri hluta nefndarinnar í þessu máli á brýn hringlandaskap. — Ójá, það er nú svo. Við getum ekki sakað hann um það sama. Nei, hversu óstöðugur sem hann kann að hafa verið í rásinni, hversu laus sem sannfæring hans kann stundum að hafa verið og hversu mikið sem hann kann að hafa verið sakaður fyrir að bera kápuna á báðum öxlum, hér hefir hann verið hringlandalaus, fastur í rásinni, einlægur við kolann.

Háttv. sami þm. er svo einfaldur, að þykjast ætla að gefa deildinni það heillaráð, til þess að lagfæra frumv., að fá það tekið út af dagskrá.

Þetta er bersýnilega ekkert annað en hreint Lokaráð, gert og gefið til þess að reyna að eyða málinu, sem hann þrátt fyrir alt og alt hefir verið svo drenglyndur og hreinskilinn að segja að hann vildi illa.

Eg vona að háttv. þingdm. láti því ekki blekkjast af fortölum háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og felli óhikað þá rökstuddu dagskrá, er hér má ætla að sé á ferðinni, en greiði frumv. fyrirstöðulaust atkvæði.