15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

21. mál, vígslubiskupar

Skúli Thoroddsen:

Þegar þetta frv. var lagt fyrir þingið, þá áleit hin háttv. stjórn, að það nægði, að hafa einn varabiskup, enda getur ekki hjá því farið, að tilgangi frumvarpsins yrði fyllilega náð á þann hátt, að fela prófastinum í Kjalarnesþingi, að annast biskupsvígslu, ef þörf er á, en nú er frumv. komið í það horf, að tveir skulu vera vígslubiskupar, og er þeim jafnframt ætlað, að vígja presta í forföllum biskups.

Að gera ráð fyrir prestsvígslum í Norðurlandi finst mér vera hreinn og beinn óþarfi, því að þeir guðfræðiskandidatar, sem vígslu eiga að taka, munu tíðast vera búsettir í Reykjavík,

eða þá eigi telja á sig, að skreppa þangað. — Frá prestastéttinni yfirleitt hafa heldur engar óskir komið þess efnis, né um vígslubiskupa yfirleitt.

Þar sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) styður frumv. þetta með þjóðræknislegum ástæðum, þá er þar um misskilda eða öfgakenda þjóðrækni að ræða, sem réttast er að brosa að, og get eg ekki séð, að frumv. miði til annars, en að afla tveim mönnum nafnbóta, og útvega þeim biskupsskrúða, sem og baka landssjóði óþarfa kostnað. — En frumv. mun verða til þess, að kveikja nýja tegund hégómadýrðar hér á landi, því að ýmsum mun þykja vegsauki að nafnbótinni, og því sækjast eftir henni.

Eg álít því, að bezt sé, að fella frv., og mun eg því styðja hverja þá breyt.till., sem miðar í þá átt að hefta framgang þess.

Ef biskup landsins, mót von minni, lifir ekki til næsta þings, þá getur stjórnin löggilt dómkirkjuprestinn, eða prófastinn í Kjalarnesþingi, til að sjá um biskupsvígslu, og vil eg því, sem fyr sagt, ráða deildinni til þess, að hafna þessu frumv.