15.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

21. mál, vígslubiskupar

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Eg skal ekki vera langorður. Það er búið að segja svo margt um það, sem fram hefir komið í þessu máli. En eg vil þó ekki láta ómótmælt hin síðustu orð í ræðu hins háttv. þm. Mýr. (J. S.) Hann sagði, að það væri háðung að samþykkja þetta frumv.

En eg vil þá leyfa mér að segja, að það væri miklu meiri háðung að fella það nú, sem samþykt hefir verið áður í báðum þingdeildum.

Um skoðanir hins háttv. þm. Mýr. (J. S.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) skal eg ekki þrátta. Þeim er auðvitað heimilt að hafa sína skoðun á gildi vígslunnar, hvort heldur það er biskupsvígsla eða prestvígsla.

En hitt ætti hinum háttv. þm. þá einnig að vera ljóst, að ef það þætti ekki nauðsynlegt, að vígslubiskupinn hefði sérstaka vígslu, þá yrði beina afleiðingin af þessu sú, að það væri heldur ekki nauðsynlegt, að prestar væru vígðir af prestum eða biskupi, þeir gætu haft kennimannlegt embætti á hendi jafnt fyrir því í kirkjunni, eða þá að einn eða annar leikmaður gæti framkvæmt slíka vígslu. Með öðrum orðum: vígslan er að þeirra áliti þýðingarlaus hégómi, hvort heldur biskupsvígsla eða prestsvígsla, sem eigi að hverfa.

Eins og eg sagði áðan, hafa þessir háttv. þm. heimild til að líta svo á þetta mál; það getur enginn meinað þeim. En þeir verða þá einnig að viðurkenna, að vér hinir höfum líka heimild til að halda því fram, að vígslan sé kirkjunni til vegs og virðingar. Hún er til þess innleidd, að auka gildi og virðingu klerkdómsins.

Og á meðan þessi skoðun ríkir innan kristilegrar kirkju alment, þá virðist ekki ástæða til að löggjafarvaldið leggi þann dóm á, að vígslunni skuli hafna.

Eg skal svo ekki þrátta um þetta atriði lengur. En af því að háttv. deild hefir áður fallist á frumv. þetta og háttv. Ed. hefir ekki fundið ástæðu til að breyta því að efni til, þá tel eg að það væri engan veginn vansalaust að fella það nú.