01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

36. mál, sala á Kjarna

Stefán Stefánsson:

Eins og háttv. þingdm. er kunnugt, var verðið á þjóðjörðinni Kjarna eftir frv., er það kom frá Ed. að eins 8200 kr., en var þá hér í deildinni fært upp í 12000 kr. samkvæmt breyt.till., er fyrir lá, og eg þóttist gera fulla grein fyrir, að væri það lægsta verð, er tiltækilegt væri að selja bæjarfélaginu jörðina fyrir, og væri enda stórt happakaup að fá hana fyrir það verð.

Nú hefir h. Ed. orðið að kannast við, að 8200 kr., sem hún áður samþ. sem söluverð jarðarinnar. væri óhæfilega lágt, og selur því verðið upp í 10,000 kr. Á hverju hún byggir þetta söluverð, er mér ekki ljóst, en samkvæmt því sem eg hefi áður leitt rök að, þykist eg mega fullyrða, að hér sé verðið sett af meira »handahófi«, en það verð sem þessi h. deild (Nd). hafði ákveðið.

Við þm. Eyf. höfum því enn leyft okkur að koma með tillögu um að jarðarverðinu verði breytt í 12,000 kr., en auðvitað höldum við fast fram þeirri aðalkröfu, að jörðin verði ekki seld, af því — sem eg áður hefi tekið fram — að sýslunefnd Eyfirðinga synjaði ábúandanum um kaup á henni árið 1905. En okkur hefir virst árangurslaust að koma með þá breyt.till., sem áður féll hér með miklum atkv.mun, að hreppurinn hefði forkaupsrétt til jarðarinnar, sem er þó í fylsta máta bæði sanngjörn og réttmæt. Sú till. mundi enn hafa verið feld með hinum sömu atkv. og áður. En eg vona, og ber það traust til þeirra hv. þingdm, er greiddu atkv. með því hér áður, að jarðarverðið væri sett 12,000 kr., að þeir hafi ekki breytt svo skoðun sinni, að þeir nú felli þessa tillögu, þar sem als engin andmæli hafa komið fram. Eg hygg að eg hafi ekki ástæðu til að ræða frekar þetta mál en vænti þess, að hin háttv. deild samþ. till.