17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

7. mál, háskóli

Steingrímur Jónsson:

Það er máske óþarfi að standa upp og lengja umræðurnar, en eg skal að eins taka fram, að eg er samdóma háttv. þm. V.-Ísf. um það, að ekki sé rétt að hleypa útlendum orðum inn í málið að óþörfu. En eg get ekki betur séð, en að hér hafi orðið að gera slíkt, þar sem algerlega vantaði góð orð um þessar hugmyndir. Og þegar svona hefir staðið á, hefir það tíðkast frá aldaöðli að taka upp útlend nöfn; á þennan hátt hefir málið hreint og beint auðgast, því að orðin hafa orðið algerlega íslenzk í huga allrar alþýðu. Eg verð að líta svo á, að hér sé beint um auðgun á málinu að ræða, ef þessi kennaraheiti verða tekin upp, en alls ekki um neina spilling. En eg skal játa, að eg kæri mig ekki um að halda svo fast í sum af þessum heitum, t. d. »decanus«, enda er það óþarft.