01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

41. mál, bankavaxtabréf

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg verð að halda hinu sama fram og áður; eg hefi ekki getað sannfærst af orðum hins háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.). Það kom fram af hálfu »vandræðanefndarinnar«, síðast, er þetta mál lá hér fyrir, að frétst hefði um tilboð, sem komið væri um það, að kaupa bankaskuldabréfin fyrir ákveðið verð, — og að stjórn landsbankans hefði fallist á það. Hinn háttv. framsm. meiri hlutans beiddist þess þá fyrir nefndarinnar hönd, að málið yrði tekið út af dagskrá, þar sem frumv. eftir þessari frétt væri óþarft. Eg get verið frv. sjálfu meðmæltur — það fer ekki í gegnum þingið, nema þess þurfi. Hitt er skiljanlegt, að ráðlegra hafi þótt að hafa eitthvað til vara, því að vitanlega gæti svo farið, að sá verði gjaldþrota, sem bréfin kaupir, áður en bankinn fær peningana. En þar sem breyt.till. fer fram á 2 milj. í viðbót við hinar 2 miljónirnar, er ætlast er til að fáist — þá er alveg nýtt upp á teningnum. Og 2 milj. kr. viðauki er svo álitleg upphæð, að það ætti að nægja til næsta þings; það er líka vonandi að á því tímabili linni þeirri peningaeklu, er nú hefir staðið yfir á 2. ár, að svo miklum mun, að þá verði bankinn búinn að fá inn talsvert af því fé, er hann hefir neyðst til að umlíða.

Eg verð því að halda því fast fram, að þessi veðrabrigði »vandræðanefndarinnar« séu mjög viðsjárverð, og vænti þess að háttv. deild samþykki ekki breyt.till.