01.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

41. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Sigurðsson:

Eg get gjarnan greitt frumv. þessu atkvæði til 3. umræðu, enda þótt eg í rauninni sé á móti því. Mér virtist í fyrstu, að frv. gæti verið gott og horfa til bóta, meðan engin von var um, að auðið mundi, að selja bankaskuldabréfin, sem landsbankanum var heimilað með lögum frá þinginu 1907 að gefa út. En nú er komin frétt um það — og mér er sagt, að hún sé áreiðanleg, — að búið sé að selja þessi bréf í útlandinu. Fær þá bankinn nálægt 2 miljónir króna til umráða og útlána, og ætti það að hjálpa mikið um næstu 2 ár. Auk þess má gera ráð fyrir, að eitthvað seljist næstu árin af bankavaxtabréfum þeim (3. flokks), sem veðdeild landsbankans er heimilað að gefa út með lögum, sem þegar eru samþykt af þinginu.

Annars álít eg, með allri virðingu fyrir hvaða stjórn, sem vera skal, mjög svo varhugavert, að heimila ráðherranum stórar lántökur, sérstaklega handa bönkum eða lánsstofnunum, þar sem gera má ráð fyrir, að meginhluti þess fjár verði eyðslu-eyrir. — Afleiðing af því, að heimila stjórninni að taka lán, verður vitanlega sú, að lánið verður tekið. Og hver verður svo afleiðingin af því? — Lánið verður notað til þess, annað hvort að greiða með því eldri skuld, sem bankinn er kominn í við útlandið, eða þá, að féð verður brúkað til þess að lána það út hér á landi. En af því leiðir vitanlega það, að skuld bankans eða landsins við útlandið eykst, og skuldir landsmanna við bankann aukast að sama skapi. Með öðrum orðum, þá er með þessu verið að sökkva landinu í skuldir, bæði út á við og inn á við.

Eg álít því mjög varhugavert, að samþykkja þessa lánsheimild, og að það eigi yfir höfuð að fara mjög varlega í að taka erlend lán handa bönkunum.

Eg skal um leið nota tækifærið til þess, að lýsa því yfir, að eg var einnig á móti frumv. um heimild fyrir landssjóð að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka, og gefa út landssjóðsskuldabréf, sem afgreitt var héðan frá deildinni nýlega. — Það frumv. miðaði að vísu að því að hjálpa landinu til að ná yfirráðum yfir þeim banka, en mjög er vafasamt, að sá tilgangur náist, þó það frumv. verði að lögum.

Eg vil sérstaklega taka það fram, að þetta mál ætti als ekki að verða afgreitt héðan frá deildinni fyr en útséð er um það, hvernig frumv. um að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka reiðir af í háttv. efri deild. Það nær ekki neinni átt að afgreiða þessi frv. bæði frá þinginu sem lög. Nóg ef annað þeirra nær fram að ganga, en helzt ætti að fella þau bæði úr því sem komið er. En eins og eg tók fram áðan, þá get eg ekki greitt málinu atkvæði til 3. umr.