06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Vinur minn, háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir verið nokkuð harðorður. Eg minnist þess, að hann kallaði það leikaraskap að koma með þingsályktunartillögu, í staðinn fyrir breytingu ástjórnarskránni. Eg vil svara því á þann hátt, að skýra frá því, að það var ekki á valdi minni hlutans í nefndinni, að koma með breytingar, því eins og sést í nefndarálitinu var ósk hæstv. ráðherra (B. J.) um að ræða málið ekki tekin til greina. Það voru engin tiltök að koma fram með frumvarp.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þm. hélt fram, að nefndin álíti að ekkert liggi á þessum nauðsynlegu umbótum, þá ætla eg að tilfæra það, að tvívegis er tekið fram í nefndarálitinu, að þetta megi ekki dragast, en verði að komast í framkvæmd sem allra fyrst, og meira að segja, er skorað á stjórnina að leggja fyrir næsta alþingi frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breytingar á hinum sérstaklegu málefnum Íslands o. s. frv.

Háttv. þm. þótti þau atriði fá, sem upp eru talin, en nefndinni þótti réttast að taka að eins nokkur helztu aðalatriði og það þau, er öllum kæmi saman um að samþykkja. En mjög óvíst, að till. yrði samþ., ef fleira væri upp talið.

Hinum háttv. þm. fanst mest um, að við hefðum eigi viljað afnema ríkisráðs-ákvæðið, en eins og allir sjá, er engin von til þess, fyr en hinn háttv. meiri hluti hefir tekið sinnaskiftum eða séð sig um hönd, og vill láta Ísland verða sjálfstætt ríki; fyr mun vera árangurslaust að koma með ákvæði, er ekki geta átt sér stað, fyrri en betri skipun kemst á réttarstöðu landsins.