06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Jónsson, (S.-Múl.):

Það eru að eins örfá orð, sem eg ætlaði að segja.

Hinn háttv. framsm. (Sk. Th.) gat þess, að meiri hlutinn hirti ekki um að fá þessum stjórnarskrárbreytingum framgengt nú, og tilfærði þar sem ástæður, að ekki væri hægt að hafa þær í samræmi við sambandsmálið, er litlar líkur væru til, að næði fram að ganga að þessu sinni.

En hinn háttv. meiri hluti hefði getað lagað stjórnarskrárbreytinguna eftir sambandslagafrumv. því, er hann vill fá framgengt. Og ef hinum háttv. meiri hluta þykir ekki líklegt, að sambandslagafrumv. gangi fram í þessu formi, þá hefði verið ofurauðvelt að haga stjórnarskrárbreytingunni eftir því stjórnarástandi, sem nú er, og þeir ótvíræðlega hafa látið í ljósi, að muni verða framvegis. — Nei, þetta eru engar verulegar ástæður, til að slá þessu máli á frest, þar sem um jafnnauðsynlegar og sjálfsagðar breytingar er að ræða, og sem framsm. (Sk. Th). lagði svo afarmikla áherzlu á í hitt eð fyrra.

Hinn háttv. framsm. (Sk. Th.) gat þess, að eg hefði verið að gera núverandi stjórn getsakir (?: hún myndi ekki kæra sig um nýjar kosningar að sinni). Þetta hlýtur að vera mismæli; hefði verið miklu réttara að segja: getgátur, því að eg leiddi að eins getur að því, sem líklegt er að sé. Annars þykist eg ekki hafa farið neinum ókvæðisorðum um hina nýju stjórn.

Sumt af því er háttv. framsm. (Sk. Th.) nefndi, var als ekki rétt eða áreiðanlegt, t. d. það, að fráfarandi stjórn hafi ekki látið sér svo ant um að fá þessar breytingar. En hvernig getur nú háttv. framsm. (Sk. Th.) borið slíkt fram, þar sem allir eru á eitt sáttir um það, að breyting sé æskileg á þessum atriðum, sem nefnd hafa verið — og þar sem fráfarandi stjórn hefir lagt fyrir þingið frumv., þar sem einmitt allar þessar stjórnarskrárbreytingar eru settar fram? Nei, nú er það háttv. meiri hluti, er ekki vill fá neinar breytingar, svo sem um kosningarrétt kvenna, afnám konungkjörinna þm. o. s. frv.

Um ríkisráðsákvæðið sagði hann það, að til þess væri ætlast, að stjórnin tæki það til greina. En einmitt það, að ekki er minst á þetta atriði í nefndarálitinu, bendir í þá átt, að það þyki nú ekki lengur svo miklu máli skifta sem áður. Þess gat hann einnig, hinn háttv. framsm. (Sk. Th.), að 1907 hefðu kosningar staðið fyrir dyrum, og því hefði verið ástæða til að flýta fyrir því, að konur gætu öðlast kosningarrétt. En nú vita allir, og þá ekki sízt jafnvitur maður og háttv. framsm. (Sk. Th.) er, að ef nú yrði samþykt stjórnarskrárbreyting — þá myndu líka nú standa kosningar fyrir dyrum.

Þessi ástæða eða mótbára hins h. framsm. (Sk. Th.) er því með öllu einskisverð. Þar sem hann ennfremur gat þess, að hann hefði orðið svo seint formaður nefndarinnar, og því ekki getað ráðið neinu um fyrir þann tíma, þá get eg vel fallist á, að það sé rétt, en samt er það hinn háttv. frsm. (Sk. Th.) og flokkurinn hans í heild sinni, er ber ábyrgð á því, eins og öðru á þessu þingi. Og einkennilegt er það, er nefndin þykist hafa komið með einhverja speki, þar sem hún þó hefir ekki annað gert, en að taka fáein atriði upp úr þessu frumv., og skora á stjórnina að setja þau í annað frumvarp!