14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1564 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

71. mál, eiðar og drengskaparorð

Framsögumaður (Jón Þorkelsson):

Eg ætla, — þó að eg skuli játa það, að eg sé ekki nógu kunnugur dómsstörfum hér á landi, að það sé misskilningur hjá háttv. þm. Vestm. (J. M.), að alt af þurfi eftir frv. þessu að taka eiða á undan vætti. Menn geta, að því er mér skilst, tekið væntanlegan framburð manns gildan, þótt eiður sé eigi unninn að honum fyrir fram, eins og menn geta nú tekið framburð gildan eiðlaust, eftir að vætti er borið, sé vitnið talið svo skilríkur maður, að orð hans sé eins góð og eiður. Viðvíkjandi orðatiltækjum í frumvarpinu, að þau séu of forn, og forsagnirnar heldur langorðar, þá má það til sanns vegar færa á þá leið, að fæst orð hafa minsta ábyrgð. En á því hefi eg enga trú, að málið á eiðstöfunum sé svo fornyrt, að mönnum skiljist það ekki. Eg veit ekki hvort hæstv. forseti leyfir mér að lesa upp ofurlítið af frumvarpi þessu, til þess að vita, hvort ekki skilji það allir, sem viðstaddir eru og orð mín heyra. Tökum t. d. eiðinn í 3. gr. »Svo skýt eg máli mínu til sæmdar minnar og samvizku, og svo vil eg sjálfur framast sanninda njótandi verða af öðrum mönnum, sem eg fer með fullan sannleik um það, er nú hefi eg flutt og fram borið. Þetta vitni ber eg fyrir engra muna skyld, heldur sökum rétts máls og sanninda. Njóti eg svo drengskapar míns og mannorðs sem eg satt segi. Níðingur ef eg lýg«. Skilur ekki háttv. þm. Vestm. (J. M.) hvert orð af þessu? Eg sé ekkert á móti því, þótt fornt sé orðað, ef allir skilja. Og hinir gömlu formálar eru einmitt miklu betur og öflugar orðaðir en nú kunnum vér alment að orða.

Eg tek það enn fram, að mér er ekkert kappsmál um það, að eiður sé unninn, áður vætti sé borið. Einungis tel eg þörf á því, að löggjöf vorri, sem er, sé breytt um eiðafar til batnaðar og bröggunar. Eg skal ekki gera minna úr dómurum landsins en þeir eiga skilið, en eg tek það líka fram út af orðum hins háttv. þm. Vestm. (J. M.), að eg trúi hvorki þeim né öðrum lögfræðingum vorum fyrir því að ganga einum sæmilega frá löggjöf vorri, því að það er margsýnt, að þeir eru því ekki vaxnir.