16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

105. mál, hvalveiðar

Flutningsmaður (Jón Ólafsson):

Mér kom það á óvart, að eg væri aðalflutningsmaður þessa frumv., eg bjóst við að virðulegur samþingismaður minn væri það; en úr því að hann er ekki við látinn, skal eg fara nokkrum orðum um frumv.

Þetta frumv. er komið fram, vegna sterkra áskorana frá kjósendum okkar í þeim sveitum, sem sjávarútvegur er stundaður. Eg get lýst yfir því fyrir mína hönd, um virðulegan samþingismann veit eg ekki, að eg hefi ekki vissu á eiginni reynslu bygða um það, hvort hvalveiðar séu svo skaðlegar, að nauðsyn beri til að sporna við þeim, því að eg hefi að eins annara manna reynslu og þekkingu á málinu fyrir mig að bera. En eg beygi mig fyrir þeim, sem reynsluna hafa, sjómönnunum. Það er bjargföst skoðun allra sjómanna eystra, að hvalveiðar séu skaðlegar, og svo mun víðar vera; sama er skoðun sjómanna á Norðurlandi, að því er mér er sagt. Í Noregi varð þessi skoðun svo rík, að þar var með lögum bönnuð öll hvalveiði í landhelgi.

Þeir menn, sem útrýma vilja hvalveiðum, kunna að vera skiftrar skoðunar um það, hvort það skuli gera með þeim bætti, sem hér er lagt til, það er banni, eða á þann veg, að lagður sé svo hár tollur á allar hvalafurðir, að ekki verði kleyft að reka þann atvinnuveg. Eg felli mig betur við að hafa hreint bann. En hins vegar sökum þess að eg hefi ekki næga þekkingu á málinu, og virðulegur samþingismaður minn líklega ekki heldur, hefir okkur þótt viðurhlutamikið að leggja til, að bannið yrði stöðugt um aldur og æfi, og því höfum við lagt til, að það skyldi standa um 10 ára bil, frá 1. júlí 1911 til 1. júlí 1920. Það teljum við nægan reynslutíma, enda veit eg, að kjósendur okkar eru harðánægðir með þann reynslutíma. Að þessum reynslutíma liðnum mætti framlengja bannið, ef það hefði reynst vel, annars má afnema það, eða réttara sagt fellur það þá af sjálfu sér, þegar tíminn er útrunninn.

Það virði sanngjarnt, að þeir, sem hlut eiga að máli, ráði mestu um það, hver skipun er höfð á um atvinnuvegi þeirra; þeir eiga mest á hættu. Fyrir því vænti eg, að virðul. þingdeild verði svo sanngjörn að láta sjómenn hafa vilja sinn í þessu efni.