05.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

123. mál, Guðbrandsbiblía

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Það var árið 1579, að konungur gaf út lagaboð um það, að allar kirkjur skyldu eignast biblíur, sem þá var verið að gefa út, en þær voru dýrar í þá daga, kostuðu 10 rd., sem var mikið fé á þeirri tíð, og kirkjum því biblíukaupin erfið. Þess vegna var það, að biskupinn á Hólum gaf ýmsum fátækari kirkjum biblíuna. Hálskirkja í Fnjóskadal var ein af þeim kirkjum, sem Guðbrandur biskup gaf biblíu, og var það skrifað framan á hana með sjálfs hans hendi að þessa biblíu gæfi hann kirkju hins heilaga Péturs postula á Hálsi, og mælti hann svo um, að hún skyldi æfinlega kirkjunni fylgja. Biblían var að öllu hin sæmilegasta og bundin af list og prýði. Þessi menjagripur hafði um langan aldur legið á altari kirkjunnar á Hálsi og bundin við það með járnfesti, og þar var biblía þessi kyrr enn, þar til eftir síðast liðin aldamót, og sómdi sér vel í sínu spennuslegna, hvíta skinnbandi. Get eg um þetta borið af eigin sjón; var það að mig minnir 1901, að eg sá biblíuna, og er það hið langfallegasta eintak, sem eg hefi nokkru sinni séð af þeirri bók, enda hafði þá verandi biskup landsins (Hallgrímur Sveinsson) lagt svo fyrir, að þessum menjagrip skyldi ekki farga frá kirkjunni. Stjórnarnefnd Landsbókasafnsins gerði nokkru síðar ráðstafanir til þess að fá bókina í bókasafn landsins — það á raunar nokkur eintök, en ekkert eins fallegt.

Nefndin hafði því 1903 samþykt að kaupa bókina og hét biskup að láta prestinn um það vita. En sama sumar hafði presturinn, sem þá var á Hálsi, — eg hirði ekki um að nefna hann; álít hann ekki syndugri en marga aðra í Galíleu, eftir því sem hér hefir farið um kirknafé, — farið með biblíuna niður á Akureyri, á veitingahús þar, og lét hana liggja þar til sölu fyrir útlendum ferðamönnum, og þar keypti þessi enska kona, Mrs. Bannon, hana fyrir £ 18. Henni var raunar sagt síðar, að ekki hefði verið heimilt að selja þennan grip, af því að það væri óafhendanleg eign heilagrar kirkju, og hefi eg spurt, að þá hafi alveg dottið ofan yfir hana, er hún heyrði, að svona væri farið með helga dóma kirkjunnar hér á landi. Presturinn fékk að vísu áminningu, en hver hærri víti hann varð að þola — veit eg ógerla.

Eg hefi fengið að vita, hvar kona þessi væri niður komin, og það með, að hún mundi verða fús að láta bókina af hendi, ef þess yrði óskað, og að hún aldrei mundi hafa keypt þessa bók, hefði hún fyrir fram vitað, hvernig á henni stóð.

Nú er langt liðið nokkuð síðan þetta gerðist. Ekki sýnist þó vera úrhættis um þetta efni enn, og má enn rétta það, er aflaga hefir farið í þessu efni. Bæði er það, að gripurinn er góður og sárt af honum að sjá, en þó er sárari svívirðingin, að svo skuli geta farið um kirkjugripi vora. Þann ræktarleysis- og háðungarblett verðum vér að þvo af oss og sýna það, að vér þolum ekki lengur, að dýrgripir heilagrar kirkju skuli liggja til sölu á veitingahúsum og vér á þann hátt missa þeirra. Eg veit að mörgum muni minnisstætt, að fyrir 50 árum var hurðin forna frá Valþjófsstað flutt héðan af landi burt, þrátt fyrir það, að biskup landsins þá, (Helgi Thordersen) hafði stranglega bannað prestinum að farga þessum dýrindisgrip frá kirkjunni. Nú er sá dýrgripurinn á dönsku safni, og þangað kominn löglaust og heimildarlaust. Og háðungin batnar ekki við það, að á seinustu árum Péturs biskups varð mönnum það ljóst og hreyfðu því, að hurð þessi væri í heimildarleysi komin í forngripasafnið danska, en ætti hér að vera. Hvað gerðu þeir góðu dönsku safnaherrar þá? Þeir sendu okkur kopíu af hurðinni, og þá ósvífni lét landsstjórn vor þá, stiftsyfirvöld og safnamenn vorir sér lynda!

Hér getur nú ekki verið um kopiu að ræða, enda ætti það ekki að vera ofætlun fyrir hina nýju stjórn að gera gangskör að því að ná í þessa stórmerkilegu bók.