19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Eiríkur Briem:

Sökum þess hve framorðið er orðið, skal eg að eins gera stutta athugasemd viðvíkjandi orðabókarstyrknum til Jóns Ólafssonar. Háttv. framsögumaður sagði, að hér væri um svo stórt verk að ræða, að vafasamt væri, hvort honum entist aldur til að ljúka við það, en í því sambandi vil eg benda á, að verkið getur komið að gagni þó svo fari, að hann geti ekki lokið Því. Svo var til dæmis um orðabók Konráðs Gíslasonar; á því verki hafði annar maður byrjað, og tók svo Konráð við, er hans misti við, og hafði gagn af því sem hinn hafði gjört. að öðru leyti sé eg ekki annað en það sé hættulaust, að láta fjárveitinguna standa ólækkaða, þar sem borgunin er bundin við arkatal. Eg hefi sjálfur séð verkið og leizt mér vel á það, en það er auðvitað ekki mikið að marka, því að eg hefi ekki vit á slíku, en menn, er skyn bera á slíka hluti, ljúka á það lofsorði.

Það var ýmislegt fleira, sem eg hefði viljað minnast á, en sem eg þó sleppi sakir þess, hve tíminn er orðinn naumur.