02.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

11. mál, fiskimat

Framsm. (Ágúst Flygenring):

Eg leyfi mér að gjöra litla athugasemd um 1. gr. frumvarpsins.

Hæstv. ráðherra var ekki til staðar við síðustu umræðu málsins, og vildi eg því nú gjöra fyrirrúm til hans um það, hvað eigi að felast í orðalagi 1. gr., þar sem talað er um fisk, sem »fara á til Spánar eða Ítalíu, hvort heldur beina leið eða um önnur lönd«. Nefndin hefir ekki viljað leggja meira í ákvæðið, en það sem liggur beint í orðunum, nefnil. að átt væri að eins við þann fisk, sem beinlínis er ætlað að fara til Spánar eða Ítalíu, en ekki við fisk, sem sendur er til annara landa, t. d. Englands, Noregs o. fl., þó að sá fiskur kynni síðar að verða sendur til Suðurlanda. Nefndin vill nfl. ekki að sá fiskur, sem að eins á að fara til Englands, Noregs eða annara land en Spánar og Ítalíu, verði háður neinni matsskyldu. Að vísu getur vel verið, að þeir sem kaupa fiskinn t. d. í Englandi eða Noregi, sendi hann svo aftur til Suðurlanda; en ef þeir vilja eiga það á hættu, að láta hann fara þangað án vottorðs yfirmatsmanns á Íslandi, á þeim að vera það heimilt. í stuttu máli, nefndin vill að fiskur sé því að eins háður matsskyldu, að þau skjöl fylgi, sem ákveða fiskinn beinlínis til Ítalíu eða Spánar.