11.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

139. mál, áætlanir og mælingar verkfræðings

Björn Kristjánsson:

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) sagði, að búið væri að ransaka, hvað kostaði að brúa Bleikdalsá. Þetta getur vel verið, enginn veit um það. Skjölin því viðvíkjandi eða álitið er þá geymt hjá stjórninni eða verkfræðingum, enginn hefir séð það. Að minsta kosti hefir þessi brú ekki komist á fjárlögin. Það væri ekki úr vegi, að stjórnin léti liggja fyrir þinginu skrá yfir það, sem hún hefir látið verkfræðingana ransaka á hverju fjárhagstímabili, svo þingmenn ættu greiðan aðgang að því að geta vitað um það, hvað gert er og hvað er ógert. Það mundi fyrirbyggja, að þingmenn kæmu fram með óþarfa þingsályktunartillögur.

Eg skal taka það fram, að þessi tillaga mín er engin vantraustsyfirlýsing til stjórnar né verkfræðings. En eg álít beina leið og bezta til þess að minna stjórnina á óskir kjördæmanna, að þessi leið sé farin.