15.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

Umræður um kjörbréfin

Skúli Thoroddsen:

Eg skal láta í ljós, að mér þykir réttara, að ekki sé flanað að þessu máli. Eg leit á 4 kosningarseðla, og hafði kjördeildin dæmt 3 af þeim gilda. En eg get ekki betur séð, en að 3 séu ógildir, og að eins einn, sem telja mætti gildan. Krossinn á öllum þessum seðlum er svo, að það kemur í bága við ákvæði þau, sem sett hafa verið, og miða að Því, að koma í veg fyrir, að atkvæðaseðlar séu gerðir auðkennilegir. Eg hefi, sem fyr getur, athugað seðla þessa, en meiri hluti þingmanna hefir ekki átt kost á að kynna sér þetta ennþá.

Þetta er áhugamál í kjördæminu, svo að mér finst ekki rétt að vér flýtum því um of, eða ráðum því til lykta, fyr en það hefir verið fullkomlega rannsakað. Eg er því með því að málinu sé frestað, og falið nefnd til athugunar.

Málinu frestað.