16.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

Umræður um kjörbréfin

Bjarni Jónsson:

Minni hluti nefndarinnar hefir eigi getað fallizt á að seðlamir séu gildir.

Reyndar höfum við (eg og Sk. Th.) talið einn þeirra nýtan, þó ekki með ljúfu geði, því að fullkomlega er hann ekki samkvæmur lögunum.

Strikin eiga að vera innan í hringinn, en ekki einhvern veginn innan í honum; skulu þau því ná út í ummál hringsins.

Svo veltur á tveimur.

Álit okkar Sk. Th. er að þeir hljóti að gerast ógildir samkvæmt lögunum.

Annar þessara seðla er þannig, að annað strikið er dregið tvöfalt, sem getur þó ekki stafað af því að blýanturinn hafi verið tvíyddur. Sá seðill getur því ekki talizt gildur.

Um hinn seðilinn er það að segja, að þar er aukastrik, er nær frá hringmiðju og út í hringlínuna. Sú sök er því ærin ein til þess að seðillinn sé óhæfur.

Enda má ekkert vera, er bent geti til að viljandi hafi verið dregið ólöglega. Annars gætu menn, er þegið hefðu mútur, sýnt með þessu hvern þeir hefðu kosið.

Það er að vísu satt, að þeir sem kosið hafa á þessa vafaseðla, hafa fyllilega gefið í skyn vilja sinn um þingmanninn, en líta verður þá einnig á þá seðlana, er ónýttust fyrir hinu þingmannsefninu (B. Þ.). Þar hafa kjósendur sýnt jafn-ljósan vilja sinn.

Alþingi verður að dæma í þessu máli eftir gildandi lögum, því að annars myndu kjörstjórnir úti um landið láta viðgangast missmíði af ýmsu tagi, er væri bein brot á fyrirmælum laganna.

Tillaga minni hluta nefndarinnar er því að seðlar þessir séu gerðir ógildir.