26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

29. mál, námskeið verslunarmanna

Framsögumaður (Ágúst Flygenring):

Nefndin hefir lagt til, að frv. sé samþykt óbreytt eins og það kemur frá Nd., sem hefir gert á því smávegis breytingar. Fyrri breytingin er á 5. gr. Þar var í upprunalega frv. reynslutími nemanda ákveðinn 1 mánuður; hér í deildinni var hann settur 3 mánuðir; en nú hefir Nd. farið milliveg og fært hann niður í 2 mánuði. Nefndin heyrði ástæður fyrir breytingunni, sem voru þannig vaxnar, að eg vil síður nefna þær hér, en get þó lagt til að hún verði samþykt. Síðari breytingin er við 11. gr. í frv., eins og það var samþykt hér við 3. umr., var það ákveðið, að námssamningur skyldi ógildur, ef verzlunarstjóri dæi. Það var vakið máls á því hér, hvort ekki væri réttara að gera þá takmörkun á ákvæðinu, að samningur skyldi að eins ógildur, ef verzlunareigandi dæi. Nú hefir Nd. líka farið hér milliveg og breytt ákvæðinu þannig, að námssamningur skuli ógildur, þegar verzlunarstjóri deyr, ef nemandi óskar þess, svo að nemandi getur þá gert hvort sem hann vill, að segja upp eða halda áfram í plássinu. Aðrar breytingar hefir Nd. ekki gert á frv., en þessar báðar teljum við fremur til bóta, einkum þá síðari, og mælum því með því, að frv. verði samþykt eins og það liggur fyrir.