26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

44. mál, skipun læknishéraða

Skúli Thoroddsen:

Mér skildist það á ræðu háttv. þm. Vestm. (J. M.), að honum þætti fara að verða fullskipað á vesturkjálka landsins, að því er til læknahéraða kemur.

Eg skal játa það, að ef þetta frumv. nær fram að ganga, sem eg vona að verði, þá bætist vel úr þeirri miklu nauðsyn, sem á því er, að læknahéruðum sé þar fjölgað.

Eg er að vísu ekki vel kunnugur í Múlasýslum, en það þori eg að fullyrða, að ekki muni örðugleikar þar jafnast til hálfs á við það, sem er í norðurhluta Strandasýslu.

Strandamenn hafa áður óskað, að fá þessa tvískiftingu á læknishéraðinu, og þó að þessi lög kæmu að sjálfsögðu ekki til framkvæmdar fyr en sérstakur læknir fæst, er það þó héraðsmönnum hugarléttir, að vita, að mál þetta er útkljáð af þingsins hálfu, svo að þeir þurfa eigi að knýja á þær dyr lengur.

Meiri hlutinn á þingi ætlar sér nú, að verða við óskum Strandamanna, og þykist eg vita, að minni hlutinn muni kalla þetta yfirgang, þegar litið er á afskifti meiri hlutans af tveim samkynja málum nú á þinginu; en honum ætti ekki að bregða mjög, því að hann þarf ekki annað, en íhuga sína fyrri breytni, gagnvart kjördæmum sínum og flokksbræðrum. — Oss er öllum svo farið, að vér sjáum glöggt það, sem miður fer hjá öðrum; en þegar minni hlutinn sér, að breytni meiri hlutans í þessu efni er ráðríkiskend, þá sér hann og sína fyrri breytni sem í spegli.

Það er ekki rétt hjá hinum háttv. þm. Vestm. (J. M.), að eg sé framsögumaður þessa máls, því málið er komið frá Ed. — Þá mintist háttv. þm. Vestm. (J. M.) þess, að flokkur sá, er hann telst til, hefði alveg hreinar hendur, hefði aldrei litið á hag sinna kjördæma eða flokksbræðra, öðrum kjördæmum fremur. — Mér og fleirum er þó enn minnisstætt, er þeir stofnuðu nýtt kjördæmi í Vestur-Ísafjarðarsýslu, til þess að koma einum flokksbræðra sinna á þing, og skal eg eigi nefna fleiri dæmi að sinni, þótt margt mætti til tína, svo sem þjóðkunnugt er.

Þegar verið er að tala um læknafjölgun, þá má því ekki gleyma, að þar er um mál að ræða, sem landssjóður verður að hafa tök á að sinna, því það er þó fyrsta og réttmætasta krafan, að konum í barnsnauð og dauðvona mönnum sé sýnd einhver líkn.