18.02.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

Ferðakostnaðarreikningar

Hannes Þorsteinsson:

Eg vil þegar geta þess, að það er mér að kenna, að mál þetta var tekið á dagskrá hér í sameinuðu þingi. Reikningurinn var stílaður til mín, en eg sá mér ekki fært að ávísa reikningnum til útborgunar, án þess að hafa heimild til þess frá þinginu.

Eg verð að líta svo á, að til þess að forseti geti ávísað ferðakostnaðarreikningum þingmanna, þurfi nefnd sú, er kosin er jafnan á þingi til að úrskurða slíka reikninga, að hafa fjallað um það mál.

Réttasta leiðin virðist mér því vera sú, að kjósa nú þegar þessa reikninganefnd, eða láta málið bíða, þangað til sú nefnd er skipuð, vísa málinu til nefndarinnar, og þegar hún hefir látið uppi álit sitt um það, hvort reikningurinn sé sanngjarn, þá og fyr ekki getur forseti ávísað reikningnum.

Eg fæ sem sé ekki séð, að reikningur dr. Valtýs sé sanngjarn. Hvers vegna kom hann t. d. ekki beina leið með »Sterling«; það hefði þá tekið styttri tíma. En þótt dr. Valtýr þyrfti að bregða sér til Seyðisfjarðar, til þess að tala við kjósendur sína, eða honum hafi fundist þörf á því, að verða þingmönnum samferða kring um land, þá verður að líta svo á, að það hafi verið í hans eigin hag, og að honum þess vegna beri sjálfum að borga það ferðalag, en ekki landsjóði. Ef þingmenn gerðu kröfu til að fá borgaðar af landsjóði ferðir þær, er þeir fara um kjördæmi sitt til að halda þar þingmálafundi, þá mundi það þykja harla kynlegt. Reikningur dr. Valtýs er mjög hár, á 6. hundrað króna. Og til þess að fá hann greiddan, verður hann að minsta kosti að sanna, að hann hafi alls ekki getað farið með »Sterling«, en orðið að fara með »Ceres« kring um land. Eg lýsi því hér með yfir, að eg álít að eg hafi enga heimild til þess að úrskurða reikninginn réttan og ávísa honum, fyr en nefnd sú, er eg álít að eigi að skipa í málið, hefir látið uppi álit sitt um það, hvort dr. Valtý beri sá ferðakostnaður, er hann reiknar.

Annars álít eg, að óþarfi sé fyrir okkur að vera að sækja þingmenn til annara landa (Jón Þorkelsson: annara ríkja), já, til annara ríkja, enda verð eg að álíta, að þessi maður hafi verið fullu verði keyptur, og að aldrei hafi þurft að sækja hann þangað; væri enda tilvinnandi að borga honum eitthvað nú, ef vissa væri fyrir, að það væri I í síðasta sinni, sem landsjóður greiddi honum þingfararkaup.